Aðventan er svo notalegur tími, kertaljós, jólaljós, bökunarilmur í eldhúsum, tilhlökkun í loftinu og flestum er boðið í hinar ýmsar uppákomur til að skapa nánd og samveru. Því miður höfum við það ekki öll jafn gott en þessi tími er notalegur fyrir flesta. Þau sem hafa kost á og geta notið, þau sem missa ekki sjónar á því sem skiptir máli, því öllu er hægt að ofgera. Ung kona hringdi í mig á dögunum og sagði mér að hún væri að kafna, nánast að bugast. Mér brá og hélt að þetta tengdist náminu hennar, að það væri orðið of mikið álag í prófatörninni. En nei, þá sagði hún mér að hún væri orðin stressuð því hún yrði að mæta í svo marga aðventuatburði. Vinnufélagarnir, skólafélagarnir, félagasamtökin, vinkonurnar og fjölskyldan, öll með aðventuviðburði sem hún gæti ekki hafnað og því hefði hún ekki þann tíma sem hún þyrfti til að sinna náminu.

Það er sannarlega gott að fá mörg góð tilboð og dýrmætt að njóta en það getur reynst erfitt ef það veldur því að hún missir sjónar á öðru sem skiptir hana máli.

Þegar ég skapp til Indlands mætti ég miklum andstæðum. Ég var á gangi eftir malbikaðri götu og það sem blasti við mér á hægri hönd var þurr sandur, þar sem töluvert af fólki var samankomið, fólkið hafði stungið staurum ofan í sandinn og var búið að hengja á staurana einskonar gúmmídúka, og þarna sátu þau til þess að skýla sér frá sólinni. Sum óklædd en einhver þeirra voru í slitnum, skítugum fötum, þau voru mjög horuð og langflest með blóðuga góma, þetta var svangt fólk, þyrst fólk en samankomið í ró, með bros á vör.

Á sama tíma mér til vinstri handar sá ég fólk á hraðferð, fólk í fínum fötum, unglinga með snjallsíma í einni hendi og skyndibita í hinni, fullorðið fólk með skjalatöskur og kaffi, fólk að flýta sér, þungt á svip. Það var merkileg upplifun að standa þarna og horfa á þessar andstæður.

Þessar andstæður birtast okkur líka hér á Íslandi, í kirkjunni eru þær sérstaklega áberandi á aðventunni, þegar hópur fólks sem er húsnæðislaust eða býr við fátækt, fólk sem sér ekki fram á að ná endum saman leitar til kirkjunnar og annarra samtaka, eftir búbót til þess að eiga fyrir mat og til þess að eiga möguleika á að halda jól. Sem betur fer hafa söfnuðirnir fengið gjafir og geta sótt í sjóði sem safnað hefur verið til þess að mæta fólki í þessari aðstöðu. Það er dýrmætt að fá að taka þátt í slíku starfi. Ég þakka fyrir að viðhorf flestra Íslendinga er að vilja gefa af sér og sjá tilgang með því. Fólk vill standa saman í erfiðum aðstæðum. Missum ekki sjónar á því.

Markaðsöflin hafa misnotað sér jólin. Boðskapur jólanna týnist gjarnan í glæsilegum umbúðum, auglýsingabæklingum og kröfum um flottar veislur og jólagjafir. Nútímafólk á það til að vera yfirborðskennd og á þar með erfitt með að stofna náin og djúp tengsl við aðra. Þessi yfirborðskennd hefur mjög slæm áhrif á samfélagið. Hún getur valdið því að fólk missir sjónar á því sem skiptir máli. Það eru þarfir fólksins, einstaklinganna sjálfra, í sorg og í gleði sem eru mikilvægastar. Samveran og brosið. Kærleikur og Umhyggja, það að láta sig aðra varða, að gefa sér og öðrum tíma, sem er okkur öllum svo mikilvæg.

Jesús er fyrirmynd, hann gaf fátækum mat, borðaði með utan garðs fólki, læknaði fólk, huggaði það og barðist fyrir því.

Það leiðir huga minn að því þegar Jesú kom til Jerúsalem eins og segir í Matteusarguðspjalli 21. kafla.

Jesús kom til höfuðborgar þjóðar sinnar án allrar viðhafnar, ríðandi á asna – hann hefði getað valið stæltan flottan hest. Hann valdi að koma með þessum hætti sem sýnir auðmýkt og þjónustu fremur en vald og drottnun. Það er hliðstæða við það að Jesús fæddist og var lagður í jötu inn í fjárhúsi, hann var ekki sveipaður dýrum klæðum í höll. Enn og aftur sýndi Jesús okkur hvað það er sem skiptir máli, að við erum öll jöfn og ekkert okkar ætti að vera á stalli. Ekkert eitt verk eða staða er í meiri metum en annað. Jesús var þarna að uppfylla spádóminn, með því að hefja lokakaflann á miklu þrekverki sem fullkomnaðist í því að hann gaf líf sitt til þess að við, hvert og eitt okkar megum eiga líf.

Konungur þinn kemur til þín – tíminn er kominn. Hann vill mæta hverju og einu okkar og er frelsarinn – en hver tekur á móti honum? – Jesús stendur við dyrnar, hann knýr á – hurðarhúnninn er ekki hans megin, það er bara hægt að opna dyrnar innan frá.

Það er einmitt það sem jólin snúast um. Þau eru haldin til að minnast fæðingar frelsarans okkar, Jesús Krists.
Hann sem var og er ljós heimsins. Hann sem lagði svo ríka áherslu á að við elskuðum Guð, elskuðum okkur sjálf og náunga okkar. Missum ekki sjónar á því.

Ég bið algóðan Guð að blessa ykkur, heimili ykkar og allt ykkar nánasta fólk, megi hann gefa okkur öllum gleðileg, friðar jól og farsælt komandi ár.

Amen.

Díana Ósk Óskarsdóttir.

Huggið, huggið lýð minn,
segir Guð yðar.
Hughreystið Jerúsalem
og boðið henni
að áþján hennar sé á enda,
að sekt hennar sé goldin,
að hún hafi fengið tvöfalt af hendi Drottins
fyrir allar syndir sínar.
Heyr, kallað er:
„Greiðið Drottni veg um eyðimörkina,
ryðjið Guði vorum beina braut í auðninni,
sérhver dalur skal hækka,
hvert fjall og háls lækka.
Hólar verði að jafnsléttu
og hamrar að dalagrundum.
Þá mun dýrð Drottins birtast
og allt hold sjá það samtímis
því að Drottinn hefur boðað það.“
Einhver segir: „Kalla þú,“
og ég spyr: „Hvað á ég að kalla?“
„Allt hold er gras
og allur yndisleikur þess sem blóm vallarins.
Grasið visnar, blómin fölna
þegar Drottinn andar á þau.
Sannlega eru mennirnir gras.
Grasið visnar, blómin fölna
en orð Guðs vors varir að eilífu.“

Þannig líti menn á okkur sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs. Nú er þess krafist af ráðsmönnum að sérhver reynist trúr. En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af ykkur eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur. Ég er mér ekki neins ills meðvitandi en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig. Dæmið því ekki fyrir tímann áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós sem í myrkrinu er hulið og afhjúpa allt sem í hjarta dylst. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði sem hann á skilið.

Jóhannes heyrði í fangelsinu um verk Krists. Þá sendi hann honum orð með lærisveinum sínum og spurði: „Ert þú sá sem koma skal eða eigum við að vænta annars?“
Jesús svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið heyrið og sjáið: Blindir fá sýn og haltir ganga, líkþráir hreinsast og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. Og sæll er sá sem ekki hneykslast á mér.“
Þegar þeir voru farnir tók Jesús að tala til mannfjöldans um Jóhannes: „Hvað fóruð þér að sjá í óbyggðum? Reyr af vindi skekinn? Hvað fóruð þér að sjá? Prúðbúinn mann? Nei, prúðbúna menn er að finna í sölum konunga. Til hvers fóruð þér? Að sjá spámann? Já, segi ég yður, og það meira en spámann. Hann er sá sem um er ritað:
Ég sendi sendiboða minn á undan þér,
hann á að greiða þér veg.
Sannlega segi ég yður: Enginn er sá af konu fæddur sem meiri sé en Jóhannes skírari. En hinn minnsti í himnaríki er honum meiri.