Kæru netkirkjugestir. Mig langar að segja ykkur sögu af gömlu vini mínum sem er látinn fyrir mörgum árum. Hann hét Jóhann Friðfinnsson, jafnan nefndur Jói á Hól, og var sóknarnefndarformaður í Vestmannaeyjum undir lok síðustu aldar þegar við hjónin þjónuðum þar. Með árunum hefur hann orðið mér sífellt hugstæðari enda var hann sannur lærisveinn meistarans frá Nasaret og kann ég af honum margar sögur.

 

Aldrei gleymi ég áhyggjum Jóa þegar ákveðið hafði verið að færa páskamessuna í Eyjum frá kl. 14 til kl. 8 að morgni. Slíkt hafði aldrei tíðkast og hann óttaðist að fólk léti ekki sjá sig. „Við skulum nú ekkert vera hnuggin þótt fáir komi í fyrstu tilraun“ sagði Jóhann þar sem leiðir okkar lágu saman norður eftir kirkjuveginum í átt að Landakirkju. Andartaki síðar stóðum við í morgunkyrrðinni og sáum hvar fólk koma gangandi úr öllum áttum til messu.

 

Þá ljómaði Jóhann eins og sólin og í fjölmennu messukaffinu á eftir var hann svo glaður að hann tilkynnti upp á sitt einsdæmi að allar veitingar væru í boði hússin. „Sóknarnefndin verður bara að skamma mig seinna!“ Það var sæl stund.

 

Jóhann var líka heimsmaður og ógleymanleg er sagan af því þegar hann fór að heimsækja Kristínu dóttur sína sem þá var fréttaritari Rúv í Berlín. Seint að kvöldi er hann á heimleið til Kristínar og bíður eftir strætisvagni í miðborginni. Þegar vagnin nemur staðar og Jói stígur inn skynjar hann strax að andrúmsloftið í vagninum er læviblandið. Farþegarnir höfðu troðið sér aftast en fyrir miðjum vagni stóðu tveir krúnurakaði nýnaistar yfir þeldökkum manni og voru að þjarma að honum með hótunum. Jói á Hól stendur þarna í sínum gráa frakka, tekur ofan hattinn og byrjar að syngja með sinni fallegu baritónrödd sem fengið hafði þjálfun í kór Landakirkju um áratugaskeið: It’s a long way to Tipperery, it’s a long to go…. og fyrr en varði hóf fólkið að taka undir uns allur vagninn ómaði af söng.

 

Ungu nýnasistarnir urðu kjánalegir í þessu glaða andrúmslofti og pilluðu sig út á næstu stöð, en vagnstjórinn var svo þakklátur þessum útlendingi að hann lagði lykkju á leið sína og ók Jóa upp að dyrum heima hjá Kristínu.

 

Með þessum dásamlega hætti bar Jóhann Friðfinnson vitni um trú sína á þann góða Guð sem býr í hverjum manni ef við bara tökum eftir því. Andi Guðs býr í fólki. Manneskjur eru musteri heilags anda. Við þurfum bara að fatta það. Kæri netvinur. Heimurinn er að breytast. Veröldin er að skreppa saman. Það á sér stað nýtt og áður óþekkt landrek á bláa hnettinum.

 

Við þurfum ekki að óttast að jarðeldar verði eitthvað tíðari en verið hefur, jarðskorpan breytist hægt, en menningarflekar sem áður voru bara hver á sínum stað eru núna að nuddast saman þannig að heimsbúar sitja uppi hver með annan á alveg nýjan hátt.

 

Ég hygg að veröldin hafi aldrei þurft jafn mikið og nú á góðu fréttunum að halda. Heimurinn þarf á hinni syngjandi kirkju freslarans Jesú að halda sem kannast við anda Guðs í hverri sál. Við sem höfum smakkað hvað Drottinn er góður megum til að bera Jesú vitni, varveita trúna og gleðina og missa aldrei húmorinn fyrir lífinu. Amen.

Sr. Bjarni Karlsson

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða.

Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga.
Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“