Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Þetta eru dýr orð komandi frá Drottni. Þetta væru einnig dýrmæt orð komandi frá föður eða móður talandi um son sinn eða dóttur. Þetta er mín elskaða dóttir sem ég hef velþóknun á.

Við elskum börnin okkar langflest. Skilyrðislaust og erum tilbúin til að gera allt fyrir þau. Rétt eins og Drottinn er tilbúinn til að gera allt fyrir okkur börnin sín. Það er fátt dýrmætara en að hafa trausta fylgd í lífinu. Að hafa einhvern sem alltaf er með okkur og alltaf tilbúinn til að elska okkur án skilyrða.

Flest eigum við það sameiginlegt að upplifa sveiflur í göngu lífsins. Það koma upp á þættir sem við ráðum illa við, stórir og smáir. Þá er gott að geta leitað til Guðs og beðið hann að taka af okkur byrðarnar, beðið hann að taka við þvi sem við ekki ráðum við. Það er magnað að upplifa það hversu gott það er að sleppa því sem óviðráðanlegt er og upplifa hversu vel fer þegar Guð tekur við byrðinni.

Í Guðspjalli dagsins heyrðum við sögu af ummyndun Krists á fjallinu þegar hann var með lærisveinum sínum þar. Rétt eins og lífið okkar einmitt er í stöðugri ummyndun. Það er alltaf eitthvað nýtt að gerast, óvæntir atburðir, sem betur fer oft gleðilegir og fallegir en líka oft eitthvað sem við ekki áttum von á eða skiljum. Og þá er gott að vita að í öllu sem gerist er Guð með í för og þegar við veljum að hafa hann með í för er aldrei neitt að óttast.

Það er fátt betra í lífinu en að fá að ganga með Guði, hamingjusamur frjáls og glaður.

Séra Fritz Már Jörgensson

 

Lofgjörðarlag vikunnar kemur frá Hillsong og heitir ,,My God is an awesome God“ Lagið fjallar um hvernig Guð er í lífi okkar og hversu mikilfenglegur hann er. https://www.youtube.com/watch?v=hXa75K0dftQ

 

Móse gerðist fjárhirðir hjá tengdaföður sínum, Jetró, presti í Midían. Einu sinni rak hann féð langt inn í eyðimörkina og kom að Hóreb, fjalli Guðs. Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki.Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“
Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð.
Þá sagði Drottinn: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi, til landsvæðis Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. En nú er kvein Ísraelsmanna komið til mín og ég hef einnig séð hvernig Egyptar kúga þá. Farðu nú af stað. Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“ Móse svaraði Guði: „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“Guð sagði: „Ég mun vera með þér. Þetta skal vera þér tákn þess að ég hef sent þig: Þegar þú hefur leitt þjóðina út úr Egyptalandi munuð þið þjóna Guði á þessu fjalli.“ Móse sagði við Guð: „Ef ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: Guð feðra ykkar hefur sent mig til ykkar, og þeir spyrja mig: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?“ Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og hann bætti við: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar.“ Enn fremur sagði Guð við Móse: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: Drottinn, Guð feðra ykkar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, sendi mig til ykkar. Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns.

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Sjá, ég kem skjótt og launin hef ég með mér til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn. Sælir eru þeir sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina.