Í Gamla testamentinu nær orðið yfir velsæld á öllum sviðum.  Að hljóta blessun merkti að hafa nóg til lífsviðurværis.  Það gat komið fram í fjölda barna, heilum og góðum bústofni, jarðnæði osv.frv.

Fyrirheit – Sálmur 37:1-11

Davíðssálmur.

Ver eigi bráður þeim sem illt vinna,

öfunda eigi þá sem ranglæti fremja

því að þeir fölna skjótt sem grasið,

visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og ger gott,

þá muntu óhultur búa í landinu.

Njót gleði í Drottni,

þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum,

hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós

og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann,

ver eigi of bráður vegna þess manns sem vel gengur

eða þess sem illu veldur.

Lát af reiði, slepp heiftinni,

ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Því að illvirkjum verður tortímt

en þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar.

Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn,

ef þú leitar hans er hann ekki að finna.

En hinir hógværu fá landið til eignar

og gleðjast yfir miklu gengi.

Í þessum sálmi, sem er visst spekiljóð, eru gefin fyrirheit ef maður fylgir Drottni.  Við sjáum að í 1. og 2. versinu er sagt til um hvað verða mun um þá sem illt gjöra.  Það er eðlilegt að spyrja hvort það sé Guð sem refsi mönnum ef menn gera rangt eða hvort um sé að ræða rökrétta afleiðingu rangrar breytni, þannig að ef maður gerir rangt þá hefur það slæmar afleiðingar í för með sér fyrr eða síðar.  Við sjáum samt víða að það er eins og þeir sem gera rangt hafi það lang best efnislega, s.s. sumir svikarar og  hvítflibbaglæpamenn.  Skoðum þá aftur vers nr. 1 og 2.  Sbr. 5. versið þá mun hann vel fyrir sjá ef við felum honum líf okkar og treystum honum.  Það sem Guð gefur er eitthvað varanlegt.  Það eru ekki endilega efnisleg gæði og fullkomið heilbrigði heldur hjarta sem hefur frið, hjarta sem hugsar fallega og vill engum illt.    Stundum er sagt að ef maður er veikur, fatlaður eða fátækur þá sé það vegna þess að hann trúi ekki nógu mikið.  Slíkt er algjör fásinna og á engan hátt í samræmi við það sem Biblían kennir.  Vissulega gerði Jesús ýmis kraftaverk á þeim sem sjúkir voru og gerir enn, en það var aldrei aðalatriðið.  Aðalatriðið var það að hann fyrirgaf syndir og endurnýjaði samband okkar við Guð.  Auðvitað ber að þakka Guði fyrir líf, heilsu og daglegt brauð því slíkt er ekki sjálfsagt.

Daglegt brauð – Matteusarguðspjall 6:11 og Filippíbréfið 4:12-13

Gef oss í dag vort daglegt brauð. (Matt. 6:11)

Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.  Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. (Fil. 4:12-13)

Daglegt brauð er það sem við þurfum til að lifa.  Í því felst ekki munaður eða ríkidæmi.  Kristinn maður þarf að vera nægjusamur.  Það er ekki samhengi milli þess að vera ríkur og trúaður.  Við getum aldrei mælt trú manns með því að sjá bankabókina hans.

Daglegt brauð snýst um heimili, öryggi, fæði, klæði og þar fram eftir götunum.  Í því er fólgin sú blessun sem við þráum öll.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

En þolinmæði fólksins þraut á leiðinni og það tók að tala gegn Guði og Móse: „Hvers vegna leidduð þið okkur upp frá Egyptalandi til að deyja í eyðimörkinni? Hér er hvorki brauð né vatn og okkur býður við þessu léttmeti.“
Þá sendi Drottinn eitraða höggorma gegn fólkinu. Þeir bitu fólkið og margir Ísraelsmenn dóu. Fólkið kom þá til Móse og sagði: „Við höfum syndgað vegna þess að við höfum talað gegn Drottni og þér. Bið þú til Drottins svo að hann sendi höggormana burt frá okkur. Þá bað Móse fyrir fólkinu og Drottinn sagði við Móse: „Gerðu höggorm og settu hann á stöng. Sérhver sem hefur verið bitinn skal horfa til hans og halda lífi.“
Móse bjó þá til eirorm og setti á stöng. Þegar höggormur beit mann og maðurinn horfði til eirormsins hélt hann lífi.

En Kristur er kominn sem æðsti prestur þeirra gæða sem komin eru. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð sem ekki er með höndum gerð, það er að segja er ekki af þessari sköpun. Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa heldur með eigið blóð inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar. Blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gerst, á að helga þá svo að þeir verði hreinir hið ytra. Hve miklu fremur mun þá blóð Krists, þegar hann hefur í krafti eilífs anda borið sjálfan sig fram fyrir Guð sem lýtalausa fórn, hreinsa samvisku okkar af dauðum verkum svo að við getum þjónað lifanda Guði.
Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum til þess að þau sem Guð hafði kallað mættu öðlast hina eilífu arfleifð sem heitið var.

Hver yðar getur sannað á mig synd? Ef ég segi sannleikann, hví trúið þér mér ekki? Sá sem er af Guði heyrir Guðs orð. Þér heyrið ekki vegna þess að þér eruð ekki af Guði.“
Þeir svöruðu honum: „Er það ekki rétt sem við segjum að þú sért Samverji og hafir illan anda?“
Jesús ansaði: „Ekki hef ég illan anda. Ég heiðra föður minn en þér smánið mig. Ég leita ekki míns heiðurs. Sá er til sem leitar hans og dæmir. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem varðveitir mitt orð skal aldrei að eilífu deyja.“
Þá sögðu þeir við hann: „Nú vitum við að þú hefur illan anda. Abraham dó og spámennirnir og þú segir að sá sem varðveitir orð þitt skuli aldrei að eilífu deyja. Ert þú meiri en faðir okkar, Abraham? Hann dó og spámennirnir dóu. Hver þykist þú vera?“
Jesús svaraði: „Ef ég vegsama sjálfan mig er vegsemd mín engin. Faðir minn er sá sem vegsamar mig, hann sem þér segið vera Guð yðar. Og þér þekkið hann ekki en ég þekki hann. Ef ég segðist ekki þekkja hann væri ég lygari eins og þér. En ég þekki hann og varðveiti orð hans. Abraham faðir yðar vænti þess með fögnuði að sjá dag minn og hann sá hann og gladdist.“
Þá sögðu þeir við hann: „Þú ert ekki enn orðinn fimmtugur og hefur séð Abraham!“
Jesús svaraði: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist er ég.“
Þá tóku menn upp steina til að grýta Jesú. En hann duldist og hvarf úr helgidóminum.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post comment