Friður Guðs sé með ykkur öllum,

Sumarið er komið og blæs lífi í allt sem fyrir verður, allt er vaknað til lífsins, fuglarnir syngja sumarsinfóníurnar sínar og nýtt líf fæðist alla daga. Við lásum í guðspjalli dagsins hvernig Jesús lægði öldur þegar hann var með lærisveinum sínum úti á vatni og óveður skall á. Hann hastaði á vindinn og það varð stillilogn, hann sem við treystum og biðjum til getur komið inn í allar kringumstæður, hann er með okkur alla daga, gengur með okkur og leiðir okkur áfram skref fyrir skref í öllum okkar verkum. Það er gott að vita til þess að einhver gæti manns í lífsins ólgusjó.

Í dag er sjómannadagur, ég hef oft dáðst að þrautsegju þessa fólks sem stundar sjómennsku, það er ekki létt að vera lengi fjarverandi frá fjölskyldu og vinum. Á sjó geta alls kyns válegir atburðir gerst, það geta skollið á verstu veður og það er örugglega skelfileg reynsla að flækjast í veiðarfæri og fara útbýrðis úti á sjó. Þrúgandi kalt og kæfandi hafið skilar helst ekki fangi sínu til baka. Menn þurfa að berjast fyrir lífinu hverja einustu sekúndu sem hafið heldur þeim i greipum sínum. Þegar menn komast upp á yfirborðið eftir að hafa farið á kaf í kaldan sjóinn kalla þeir yfirleitt allir á þann sama í örvæntingu sinni. Og hvernig skyldi kallið hljóma? Guð! Elsku Guð hjálpaðu mér , ég skal aldrei aftur …. Á örvæntingarstund þá leitum við Guðs. Elsku besti Guð, elsku góði Guð. Ég skal aldrei aftur eða ég skal alltaf.. á hverjum degi …. Þannig leitum við um stundarsakir til hans en eftir að hjálpin berst erum við fljót að gleyma og ráfum úr öryggi þess sem öllu stýrir.

Hugsið ykkur hvað það er stórkostleg tilhugsun að einhver skuli gæta okkar frá fæðingu og út fyrir gröf og dauða. Jesú sér til þess að við fáum næringu og hvíldarstað. Það er auðvelt að villast af leið taka ranga beygju. En hann gerir allt sem hann þarf til að halda okkur í sínu skjóli. Hann fórnaði sér fyrir okkur á krossinum. Hann fyrirgefur okkur allar okkar syndir. Og hann gerir þetta án þess að fram á það sé farið.

Það er eðlilegt að efast um trú sína og missa samband við Guð sinn af og til. Þá er gott að rifja upp söguna af sjómönnunum sem fara fyrir borð og bjargast aðeins fyrir óútskýranlega náð. Við sem erum skírð í nafni Guðs föður, sonar og heilags anda erum merkt honum sem er með okkur alla daga og leiðarljósið er að lifa kærleiksríku lífi, að tileinka sér það að koma fram við náungann eins og sjálfan sig.

Við áköllum Guð hvorutveggja í þakklæti og neyð, og Guð talar til okkar í öllum kringumstæðum. Hann getur hvíslað til okkar í grasinu, í mjúka vorblænum eða með þýðum söng fuglanna. Við heyrum sjaldnast orð Jesú sem drynjandi röddu af himni ofan heldur miklu frekar í kirkjunni eða jafnvel í þögninni. Það er gott að hlusta í þögn, það er sérstakt en gott og alveg furðulegt hvað hægt er að heyra mikið þegar enginn segir neitt. Það er gott að vita að einmitt þá er Faðirinn að tala við börnin sín.

Dýrð sé föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda.

Amen.

Fritz Már Jörgensson, prestur í Keflavíkurkirkju

En Drottinn, Guð minn, mun koma og með honum allir heilagir.
Á þeim degi verður hvorki hlý sólarbirta né svalt mánaskin, það verður samfelldur dagur og á því kann Drottinn einn skil. Ekki dagur, ekki nótt og jafnvel að kvöldinu verður bjart. Á þeim degi mun ferskt vatn streyma frá Jerúsalem, að hálfu í austurhafið og að hálfu í vesturhafið, jafnt sumar sem vetur. Drottinn mun þá verða konungur yfir veröldinni allri. Á þeim degi mun Drottinn verða einn og nafn hans eitt.

Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan. Er þeir komu þangað fóru þeir upp í loftstofuna þar sem þeir dvöldust: Það voru þeir Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson. Konurnar voru einnig með þeim og María móðir Jesú og bræður hans. Öll voru þau með einum huga stöðug í bæninni.

Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér því að þeir eru þínir og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn. Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við. Meðan ég var hjá þeim varðveitti ég þá í nafni þínu sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar svo að ritningin rættist. Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn. Ég hef gefið þeim orð þitt og heimurinn hataði þá af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Ég bið ekki að þú takir þá úr heiminum heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum. Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.