Við þekkjum það flest að njóta þess að vera í veislum. Og Guðspjall dagsins sagði okkur einmitt frá einni slíkri. Brúðkaupsveilsu í bæ úti í sveit. Bærinn heitir Kana og Jesús er þar ásamt Maríu móður sinni og lærisveinum sínum. Og auðvitað gerist það sem stundum gerist að allt fer úr skorðum, vínið klárast, og hvað gerir maður þegar vínið klárast í veislu?

Jesús ákvað fyrir  orð móður sinnar að bjarga málunum, hann lét fylla 6 stór ker af vatni og bauð síðan að veislustjórinn myndi smakka það sem í kerjunum var. Það var siður að bera fyrst fram góða vínið en síðar lakara vín þegar menn voru orðnir hreyfir. Þegar veislustjórinn hafði smakkað það sem var á kerjunum, hrósaði hann brúðgumanum fyrir að geyma góða vínið þar til liðið væri á veisluna. Jesús hafði breytt vatni í vín.

Jesús opinberar sig þarna í fyrsta sinn, jafnvel þótt hann segi að sinn tími sé ekki kominn. Hann sýnir sig, hver hann er og hvers hann er máttugur þannig að við getum trúað á hann og það sem hann stendur fyrir. En það er ekki bara vegna þess. Hann gerir það líka til að fólk geti verið þátttakendur í þvi sem hann gerir. Í þessu tilfelli breytir hann vatni í vín til að veislan geti verið eins og til hafði staðið en í önnur skipti snúast kraftaverkin hans um líf fólks, heilsu þess, mat og traust.

Jesús er sonur Guðs segir Jóhannes guðspjallamaður, en hver er þá Guð? Við vitum að Guð skapar, Guð endurnýjar og Guð frelsar. Þegar hann breytir vatni í vín er hann sá sem skapar, en hann er líka sá sem leysir okkur frá skömminni og öðrum brestum sem við höfum þurft að bera. Og hann er sá sem endurnýjar okkur, gefur okkur ný tækifæri, nýtt líf, hann gerir það sem Guð einn getur gert.

Hann kann, getur og vill, hann er með okkur alltaf alla daga.

Stundum erum við stödd þar í lífinu að við getum, en af einhverjum ástæðum viljum við ekki, veljum að gera ekki það sem er gott fyrir okkur og okkar fólk. Og kennum jafnvel öðrum um okkar eigin ófarir. Við vitum líka að við getum beðið Jesús um hjálp, getum beðið hann að taka við því sem við ekki getum stjórnað, en gerum það ekki samt. Viljum ekki sleppa tökunum, jafnvel þó það sé alveg dagljóst að við getum ekki ráðið við nokkurn skapaðan hlut án hans hjálpar.

Guð er með okkur, hann er alltaf til staðar fyrir okkur og þegar við erum í vandræðum er hann tilbúinn til að hjálpa okkur. Sama ætlast hann til af okkur þegar nágrannar okkar eru í vandræðum. Hann kenndi okkur að koma fram við náungann eins og við viljum að náunginn komi fram við okkur.

Sögurnar af Jesú þegar hann gerir kraftaverk eru svo magnaðar, í mörgum þessara sagna skiptir það sem fólk gerir miklu máli. Pilturinn sem færir honum nokkra fiska og brauð, sem hann svo mettar fimm þúsund manns með. Vinir þess sjúka sem koma með hann til Jesú sem auðvitað læknar hann. Sá blindi sem þarf að fara og þvo sér til að kraftaverkið fullkomnist. Við þurfum nefnilega að koma með vínið og brauðið til að við getum átt máltíð með honum. Og þannig fáum við að vera hluti af honum. Þannig hefur hann valið að vera hluti af okkur að taka þátt í því sem við erum að fást við hverju sinni. Einfaldlega vegna þess að við skiptum hann öllu máli.

Það er okkar hlutverk sem höfum fengið að upplifa náð Jesú að sýna það með okkar verkum hver hann er. Hann sem skapaði heiminn, hann sem gefur lífið, dag í senn eitt andartak í einu. Hann sem gerir allt í gegnum líf okkar manneskjanna sem hann hefur gert að vinum sínum og systkinum.

Fyrir hann sem var, er og verður um aldir alda. Amen.

Drottinn svaraði Móse: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ Þá sagði Móse: „Sýndu mér dýrð þína.“ Drottinn svaraði: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn líða fram hjá þér og ég mun hrópa nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Ég vil líkna þeim sem ég vil líkna og miskunna þeim sem ég vil miskunna.“ Enn fremur sagði hann: „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi.“ Síðan sagði Drottinn: „Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.“

Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið. Sé það spádómsgáfa þá notum hana í samræmi við trúna, sé það þjónustustarf skal gegna því, sé það kennsla skal sinna henni, sá sem hvetja skal geri það, sá sem gefur sé örlátur. Sá sem veitir forstöðu sé kostgæfinn og sá sem vinnur miskunnarverk geri það með gleði.
Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.
Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.

Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“
Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“
Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.