Og er hann hafði látið fólkið fara, gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið, var hann þar einn.

En er langt var liðið nætur kom hann til þeirra, gangandi á vatninu. Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu, varð þeim bylt við. Þeir sögðu: Þetta er vofa, og æptu af hræðslu.

En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.

Pétur svaraði honum: Ef það ert þú, herra, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.

Jesús svaraði: Kom þú! Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. En sem hann sá rokið, varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: Herra, bjarga þú mér!

Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: Þú trúlitli, hví efaðist þú?

Matt. 14. 22-32

Þegar Jesús var að velja sér lærisveina fór hann niður að vatninu þar sem fiskimennirnir voru að veiða.

Jesús sagði: Fylg þú mér.

Þeir yfirgáfu netin og fylgdu honum.

Jesús valdi einstaklinginn til fylgdar við sig.

Þeir  yfirgáfu netin og fylgdu honum.

Einstaklingurinn skipti Jesús máli.

Það var komið kvöld. Jesús sendi lærisveinana á undan sér á bát yfir vatnið.

Hann fór afsíðis til að biðja.

Jesús er okkur fyrirmynd.

Stundum er gott að fara afsíðis til að biðja.

Eiga stund með Guði okkar. Jesús vildi vera einn með föður sínum.

Það er gott fyrir okkur að eiga okkur bænastað þar sem við getum verið ein með Guði.

Lagt allt í hans hendur- sem hvílir á okkur.

Það er svo mikilvægt að létta af okkur áhyggjum og kvíða.

Þegar ég var að undirbúa þessa hugvekju fór ég út í garð. Lagðist í grasið til að eiga bænastund.

Þá flaug lítill skógarþröstur til mín og horfði á mig.

Það var mér áminning um að þessi litli fugl flögrar um án þess að vera með áhyggjur. Hann minnti mig á orð Jesú.

Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?

Guð hefur gefið okkur þetta stórkostlega verkfæri, BÆNINA.

Og öll fyrirheitin um að hann heyrir bænir okkar.

 

Það var komið kvöld og myrkur grúfði yfir

þegar Pétur sá Jesús koma gangandi á vatninu, vildi hann koma á móti honum út á vatnið.

Jesús bauð honum að koma til sín.

Pétur horfði á Jesú.

Hann gekk í áttina til hans.

Hann var svo glaður að sjá vin sinn.

En hann varð hræddur þegar hann horfið á ógnandi öldurnar.

Hann fór að efast og varð hræddur

Hætti að horfa á Jesú

Hann tók að sökkva.
Það er gott fyrir okkur að horfa á Jesú og fá að taka í hönd hans.

Hann vill mæta öllum okkar þörfum.

Fuglasöngurinn sem er allt í kringum okkur á þessum árstíma getur minnt okkur á að við eigum föður sem elskar okkur og vill okkur vel.

Hann sér fyrir fuglunum. Eruð þér ekki miklu fremri þeim?

Guð blessi þig kæri lesandi.

Sr. Sveinn Alfreðsson

Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð. Ég mun gefa þeim eitt hjarta og eina breytni svo að þeir sýni mér lotningu alla tíð, þeim sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá. Ég geri við þá ævarandi sáttmála um að ég snúi mér ekki frá þeim heldur reynist þeim vel. Ég legg guðsótta í hjarta þeirra svo að þeir víki aldrei frá mér. Ég gleðst yfir þeim og reynist þeim vel og gróðurset þá í þessu landi í trúfesti, af heilum hug og öllum mætti.

Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

Biðjið og yður mun gefast, leitið og þér munuð finna, knýið á og fyrir yður mun upp lokið verða. Því að hver sá öðlast sem biður, sá finnur sem leitar, og fyrir þeim sem á knýr mun upp lokið verða. Eða hver er sá maður meðal yðar sem gefur barni sínu stein er það biður um brauð? Eða höggorm þegar það biður um fisk? Fyrst þér sem eruð vond hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðir yðar á himnum gefa þeim góðar gjafir sem biðja hann?
Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera. Því að þetta er lögmálið og spámennirnir.