Gleðilega þrenningarhátíð!

Abraham situr og hvílir sig, hitinn rosalegur, það er of heitt til að vinna. Skyndilega eru þrír komumenn frammi fyrir honum. Hann sá þá ekki koma úr fjarska, hann sá þá ekki þegar þeir nálguðust. Hann sér þá þegar þeir eru komnir að honum. Abraham vissi ekki hverjir þetta voru en okkur er sagt það þegar Drottinn með stórum staf í er nefndur í fyrsta versinu.

Frægasta myndin af þessu ritningaversi er ikoni frá 15. öld eftir rússneska málarann Andrei Rublev. Íkonin er vel þekktur og sennilega besta markaðssetningin fyrir ritningarstaðinn.

Hugtakið um þríeinan Guð kemur ekki úr biblíunni, en hugmyndin á ekki síst rætur í þessum texta og mynd Andrei Rublevs styrkir hana mjög. Í textanum talar Abraham ýmist við komumenn í eintölu eða fleirtölu sem þykir enn renna stoðum undir þrenningarkenninguna.

Þríeinn guð er svolítið flókin hugmyndafræði en samt einfaldara en okkur finnst í fyrstu. Þrjár persónur guðdómsins eru Faðirinn sem skapar, Sonurinn sem frelsar og Heilagur andi sem huggar og heilar. Ég held að við veltum okkur ekki mikið upp úr þrenningunni dags daglega. Ekki einu sinni kirkjufólk. En þrenningin er grundvallandi. Þrenningin er persóna Guðs og að Guð sé persóna þýðir að við getum átt í persónulegu sambandi við hann. Hann er nálægur. Það er hægt að biðja til hans, tala við hann og leita til hans.

Mynd Rublevs er yfirleitt kölluð hin heilaga þrenning en titill myndarinnar er í raun Gestrisni Abrahams.

Mikil áhersla er lögð á gestrisni bæði í Gamla og Nýja testamentinu. Ókunnugir áttu gestrisni vísa og skylda. Ég held að við þekkjum til svipaðrar gestrisni á Íslandi fram erftir öllu og heimafólk gekk jafnvel úr rúmi fyrir gesti. Fólk gladdist líka yfir gestum, það var smá uppbrot og tilbreyting í hversdagsleikanum.

Abraham er algjörlega ómeðvitaður um hverjir gestirnir eru en honum er mikið í mun að uppfylla skyldur sínar sem gestgjafi.

Við finnum að hann spennist allur upp, hann hleypur til aðkomumannana biður þá að dvelja hjá sér. Hann segist ætla að sækja vatn að drekka og til að þvo fætur! Þetta myndu ferðalangar svo sannarlega kunna að meta. Ímyndið ykkur í hitanum. En svo er einkennilegt ósamræmi á milli þess sem hann segist ætla að gera og veislunnar sem þeir eiga í vændum. Hann er að undirbúa eitthvað miklu meira en að sækja vatn og örlítinn matarbita. Honum liggur mikið á og ef við lesum lengra sjáum við að hann hleypur til Söru og segir henni að vera snögg! Hann hljóp til nautanna og valdi kálf og færði vikapiltinum í flýti.

Guð mætir – í sínum þremur persónum og Abraham bregst við. Auðvitað er Abraham fyrirmynd að því leyti. Hann þekkir ekki gestina, hann er að taka á móti ferðalöngum en hann tók eins vel á móti þeim og hægt var, eins og þeir væru kóngar. Það er ekki fyrr en seinna í samtalinu sem það kemur í ljós að þeir eru sérstakir gestir. Stundum hefur verið talað um að Guð sé að prófa Abraham í þessum texta, sjá hvernig hann bregðist við. Ég er ekki sammála því. Náð guðs kemur fyrst, hana þiggjum við án eigin verðleika. Verkin gera okkur ekki réttlætt. Það er ekki þeirra vegna sem Guð gefur Abraham fyrirheitið um son. Hann var búinn að því áður, í kaflanum á undan. Að taka á móti Guði er útgangspunktur textans. Hvernig við mætum öðru fólki endurspeglar hvernig við tökum á móti Guði. Við eigum að mæta öllum af virðingu og kærleika eins og við værum að taka á móti Guði.

Sr. Sigríður Rún Tryggvadóttir, prófastur í Austurlandsprófastsdæmi

Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“

En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.

Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.