Stundum veltum við því fyrir okkur hvort við séum trúuð eða ekki. Stundum erum við trúuð og stundum ekki. Þegar efi sækir að okkur líður okkur oftast nær illa, en þegar við finnum fyrir nálægð Guðs í lífi okkar og fyllumst trúartrausti, þá líður okkur vel og líf okkar fær fyllingu sem við öll þráum innst inni. Þá finnum við vernd gegn öllu hinu illa sem er svo stór hluti af þessu lífi sem við lifum.
Skyldi Biblían geta hjálpað okkur við að fyllast trúartrausti? Skoðum það!
Deginum í dag tilheyra þrír lestrar úr Biblíunni. Hinn fyrsti er frá spámanninum Habakkuk þar sem við erum hvött til þess að gleðjast í Drottni, því hann er styrkur okkar og hjálpræði (Hab. 3:17-19).
Annar lesturinn er úr Rómverjabréfinu þar sem Páll postuli hvetur okkur til að vera samhuga og hlúa að lítilmagnanum. Hann hvetur okkur til að hafa frið við alla og leita ekki hefnda (Róm. 12:16-21).
Loks fáum við að heyra Jesú sjálfan framkvæma tvö kraftaverk, þegar hann læknar holdsveikan mann og lamaðan dreng (Matt. 8:1-13).
Allir þessir lestrar haldast í hendur og boðskapur þeirra styður hvern annan. Við þekkjum ef til vill lítið til spámannsins Habakkuk, en talið er að rit hans hafi verið skrifað í lok sjöundu aldar fyrir Krist. Ritið minnir um margt á Jobsbók, sérstaklega glíman við spurninguna um hvernig við varðveitum hollustuna við Guð þegar efasemdir kvikna um réttlæti hans og miskunnsemi. Svar Habakkuks er ljóst. Hann treystir Guði hvað sem á dynur.
Rómverjabréfið skrifar Páll postuli til safnaðrins í höfuðborg Rómaveldis. Í bréfinu boðar hann nýtt samband við Guð í persónu Jesú Krists, er hinn trúaði hefur verið leystur undan valdi dauðans og hins illa með krafti heilags anda í lífi sínu. Í síðustu fjórum köflunum 12-16 fjallar Páll um þá þýðingu sem hið nýja líf andans hafi fyrir samfélagið og leggur áherslu á kærleikann og ábyrgð kristins fólks.
Þess vegna hvet ég ykkur til þess að opna nýja testamentið og lesa þessa kafla. Guðspjallið segir frá kraftaverkum Jesú, eins og áður sagði, en það fjallar líka um trú. Það er það sem mér finnst áhugaverðast við þessar sögur. Líkþrái maðurinn byrjar bón sína á trúarjátningu: Drottinn, ef þú vilt getur þú hreinsað mig! Og eins er með hundraðshöfðingjann sem biður Jesú að lækna svein sinn. Hann trúir því að með einu orði geti Jesús læknað sveininn. Hann veit hvað það er að hafa vald. Hann getur sagt fólki fyrir verkum og hann trúir því að Jesús hafi sama vald, aðeins miklu miklu mikilvægara. Hann hefur vald yfir máttarvöldunum bæði sjúkdómum og jafnvel sjálfu sköpunarverkinu, enda er í sama kafla í Matteusarguðspjalli sagt frá því þegar Jesús kyrrir bæði vatn og vind. Lestrarnir þrír fjalla um trú. Þeir hvetja okkur til eftirbreytni. Þess vegna er svo dýrmætt að lesa Biblíuna þegar við göngum í gegnum tímabil efa og erfiðleika. Þar er að finna styrk og hjálp til að endurheimta trúarstyrkinn og þann frið sem við þráum öll innra með okkur. Guð blessi þig.
Solveig Lára Guðmundsdóttir, vígslubiskup

Á þeim degi geri ég sáttmála fyrir Ísraelsmenn við dýr merkurinnar og fugla himinsins og skriðdýr jarðarinnar og eyði boga, sverði og stríði úr landinu og læt þá búa óhulta. Ég festi þig mér um alla framtíð, ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi, ég festi þig mér í tryggð, og þú munt þekkja Drottin. Á þeim degi mun ég bænheyra, segir Drottinn, ég mun bænheyra himininn og hann mun bænheyra jörðina og jörðin mun bænheyra kornið, vínið og olíuna, og þau munu bænheyra Jesreel og mín vegna mun ég sá henni í landið. Ég mun sýna Miskunnarvana miskunn og segja við Ekki-lýð-minn: „Þú ert lýður minn,“ og hann mun segja: „Þú ert Guð minn.“

Trúin er fullvissa um það sem menn vona, sannfæring um þá hluti sem eigi er auðið að sjá. Fyrir trú hlutu mennirnir fyrr á tíðum velþóknun Guðs. Fyrir trú skiljum við að Guð skapaði heimana með orði sínu og að hið sýnilega varð til af hinu ósýnilega. Ógerlegt er að þóknast Guði án trúar því að sá sem vill nálgast Guð verður að trúa því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans.

Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“ En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður. Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“