Nú styttist í kosningar á Íslandi, stjórnmálaflokkar og frambjóðendur þeirra keppast við að setja ýmis mál á framfæri sem gjarnan eru kölluð kosningaloforð. Oft er sannsögli og heiðarleika viðbrugðið í stjórnmálum enda gera kjósendur því miður ekki ráð fyrir að kosningaloforð séu uppfyllt. Umræðan snýst oftar en ekki um að koma með mótrök gegn pólitískum andstæðingum, að vera ósammála, og oft er tekist harkalega á um mál og málefni.

Í einum af biblíutextum dagsins fáum við ágætar leiðbeiningar um það hvernig við ættum að koma fram gagnvart hvert öðru og hvar áherslur okkar ættu að liggja. Okkur er bent á að hætta að gera öðrum illt og að við ættum að læra að gera gott, hjálpa kúguðum og þeim sem minna mega sína. Í öðrum texta er okkur bent á að láta ekki leggja okkur í ánauðarok.

Ef að Jesús hefði verið stjórnmálamaður hefði hann barist fyrir þeim sem minna mega sín, hann hefði barist fyrir jafnrétti, og hann hefði án vafa barist fyrir því að fólk hefði þak yfir höfuðið og að lágmarksframfærsla væri þannig að hægt væri að lifa af á henni. Hann myndi örugglega berjast fyrir því að þau sem sjúk eru fengju viðunandi aðhlynningu án tillits til stéttar eða stöðu.

Það er eðlilegt og heilbrigt að fólk hafi ekki sömu skoðanir á öllum málum, það er ekkert athugavert við það að hafa ólíkar skoðanir um landbúnaðarmál, fyrirkomulag sjávarútvegs og skatta og framkvæmd hinna ýmsu mála er lúta að stjórn þjóðarinnar. En að sama skapi væri eðlilegt og heilbrigt að vera sammála um að hafa grunnstoðir samfélagsins í lagi og tryggja þannig að hlúð sé að börnum, ellilífeyrisþegum, öryrkjum og sjúkum. Þannig að þau sem minnst mega sín geti lifað góðu lífi þrátt fyrir að hafa ekki sömu tækifæri og þau sem búa við heilbrigði og góðan fjárhag. Óskastaðan væri sú að allir gætu orðið sammála um að hugsunarháttur Jesú sé góð fyrirmynd og að þannig væri hægt að leggja áherslur á að fylgja meistaranum og tryggja að grunnstoðir samfélagsins standi traustum fótum.

Díana Ósk og Sr. Fritz Már

Þvoið yður! Hreinsið yður!
Fjarlægið illvirki yðar frá augum mínum.
Hættið að gera illt,
lærið að gera gott,
leitið réttarins,
hjálpið hinum kúgaða.
Rekið réttar munaðarleysingjans.
Verjið mál ekkjunnar.

Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Standið því stöðug og látið ekki aftur leggja á ykkur ánauðarok.
Takið eftir því sem ég, Páll, segi ykkur: Ef þið látið umskerast, þá gagnar Kristur ykkur ekkert. Og enn legg ég ríka áherslu á að sérhver sem lætur umskerast er skyldur til að halda allt lögmálið. Þið eruð orðin viðskila við Krist, þið sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þið eruð fallin úr náðinni. En við væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna sem er von okkar. Í samfélaginu við Krist Jesú gildir hvorki umskurn né yfirhúð heldur trú sem verkar í kærleika.

Og er hann gekk þar sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni og Jesús segir við hann: „Fylg þú mér!“ Og hann stóð upp og fylgdi honum.
Svo bar við að Jesús sat að borði í húsi hans. Margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu að hann samneytti tollheimtumönnum og bersyndugum, sögðu þá við lærisveina hans: „Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.“
Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: „Ekki þurfa heilbrigðir læknis við heldur þeir sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta heldur syndara.“
Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: „Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea en þínir lærisveinar fasta ekki?“
Jesús svaraði þeim: „Hvort geta brúðkaupsgestir fastað meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund sem brúðguminn er hjá þeim geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta á þeim degi.
Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi því þá sprengir vínið belgina og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.“
Svo bar við að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: „Lít á, hví gera þeir það sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?“
Jesús svaraði þeim: „Hafið þið aldrei lesið hvað Davíð gerði er honum lá á þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús þegar Abíatar var æðsti prestur og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.“
Og Jesús sagði við þá: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig Drottinn hvíldardagsins.“