Um daginn heyrði ég af frásögn gamallar konu. Konan er gyðingur og var barn á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar þegar nasistar unnu markvisst að útrýmingu allra gyðinga af jörðinni. Á yngri árum hafði gamla konan verið vistuð í tveimur fangabúðum á vegum nasista. Aðspurð hvers hún helst minntist frá þessum tíma, svaraði gamla konan: „Helst minnist ég allra mannlausu glugganna í götunni þar sem ég bjó.“

Þegar konan var níu ára gömul komu þýskir hermenn í þorpið sem hún bjó í og skipaði fjölskyldu hennar að fara niður á torg bæjarins. „Þennan morgun hélt ég á ferðatöskunni minni og gekk niður sömu götu og ég hafði gengið daglega allt mitt líf. Þegar ég gekk niður götuna tók ég eftir að hver einasti húsgluggi á leiðinni var mannlaus. Enginn kom út í glugga. Þýskir nágrannar mínir og vinir vissu hvað var að gerast en enginn þeirra kom út í glugga til að athuga hvað væri að verða um mig.“

Að vera skilin ein eftir og upplifa algera einveru er líkast til eitt það versta sem manneskja getur upplifað. Að upplifa að öllum sé sama er jafnvel verra en sú kvöl sem því fylgir að vera vistaður í fangabúðum, að minnsta kosti að sögn margra sem hafa upplifað hvort tveggja.

Í þessu sambandi langar mig að rifja upp dæmisöguna af Lasarusi og ríka manninum sem finna má í 16.kafla Lúkasarguðspjalls:

„Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.
Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga.
Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor.“

Hér er okkur gert fullljóst að við eigum að gæta bræðra okkar og systra; við eigum að gæta hvers annars. Við fyrstu sýn virðist sagan aðeins snúa að einföldum siðalögmálum er snerta ríkidóm og fátækt. En ef við köfum aðeins dýpra er boðskapurinn sjálfsagt meiri en svo. Þessi saga snýst um sinnuleysi, afskiptaleysi, sjálfselsku, eigingirni og hver raunveruleg merking þess sé að elska Guð og elska náunga okkar eins og okkur sjálf … sem er hið æðsta boðorð sem okkur hefur verið gefið (Elska skaltu Drottinn, Guð þinn af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum. Þetta er hið æðsta og fremsta boðorð. Annað þessu líkt: Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig – Matt 22.37-38).

Að elska náunga sinn þýðir ekki að maður eigi aðeins að sýna hegðun sem skaðar ekki annað fólk. Til að þessi elska í garð náungans geti orðið áþreifanleg verður maður að sýna það í raunverulegum verkum og gjörðum. Væntumþykja og kærleikur krefst þess að við stöndum með náunga okkar, að við hjálpum öðru fólki.

Í dæmisögunni um Lasarus og ríka manninn sagði Abraham: „Auk alls þessa er mikið djúp staðfest á milli vor og yðar…“ Vert er að athuga að Lasarus var hjá Abraham í himnaríki en ríki maðurinn var í helvíti. Þetta djúp sem á milli þeirra var, skapaðist af sinnuleysi og tómlæti einnar manneskju til annarar. Á meðan báðir lifðu, veitti ríki maðurinn Lasarusi enga athygli. Hann meiddi Lasarus ekki á beinan hátt, hann bara gerði ekki neitt. Ekkert!! Það var þetta sinnuleysi og tómlæti sem í raun og veru meiddi Lasarus, þ.e. að ríki maðurinn aðhafðist ekki neitt.

Ég held að allt fólk vilji, af og til, láta taka eftir sér. Stundum þörfnumst við ekki neins annars en að einhver láti sig okkur varða, til dæmis þegar okkur líður ekki vel. Þegar maður er einmana er fátt sem jafnast á við símtal frá vini – bara að einhver vilji heyra í manni hljóðið. Ef maður er leiður getur það gert fyrir mann gæfumuninn ef nágranni eða vinur spyrji: „Er allt í lagi vinur?“ Auðvitað er kannski ekkert allt í lagi, en sú staðreynd að einhver hafi tekið eftir því og látið sig það varða getur lyft upp framlágu sálartetri.

Lasarus birtist í andlitum allt of margra. Hann er nágranni okkar, vinnufélagi eða jafnvel í nánustu fjölskyldu. Þegar við sjáum einhvern sem er aleinn og einmana, niðurbrotinn eða særður, segjum við þá bara: „Æjh, en leiðinlegt – en hey! Þetta er ekki mitt vandamál!“? … eða gerum við eitthvað í málunum?

Jesús segir ekki: Þú drapst þann er hungraði! Þú gerðir gys af þeim nakta! Þú réðist að hinum fátæka! .. heldur segir hann hér: Þegar mig hungraði, þegar ég var nakinn, þegar ég var fátækur og í sárri þörf fyrir hjálp þína – þá hunsaðir þú mig!

Guð leitar eftir hjörtum sem hann getur notað; hjörtum sem útdeila kærleika og hluttekningu. Það eru svo margir sem þarfnast hjálpar. Sumir eru ríkir, sumir eru fátækir. Þetta fólk er allt í kringum okkur. Hversu gefandi ætli það sé fyrir okkur að geta fært örlitla birtu inn í líf þessara einstaklinga?

Einelti, stríðni, leiðinlegar athugasemdir, útilokun og útskúfun úr vinahópum, útskúfun úr íslensku samfélagi! Þarna liggur allt undir. Eitt sinn var til hugtak sem hljómaði svona: Komdu fram við náungann eins og hann kemur fram við þig, en Jesús snéri þessu hugtaki við og sagði: Komdu fram við náungann eins og þú vilt að komið sé fram við þig.

Við skulum ekki láta náunga okkar horfa í tóma glugga eins og gamla konan upplifði þegar nasistarnir sóttu hana og fjölskyldu hennar. Það er okkar samfélagslega kristna ábyrgð!

„Eins og ég hef elskað yður skuluð þér einnig elska hvert annað.“ (Jóh 13.34b)

Arnór Bjarki Blomsterberg

Þá kom orð Drottins til Elía:
„Búðu þig og farðu til Sarefta sem er rétt hjá Sídon og sestu þar að. Ég hef falið ekkju nokkurri, sem þar býr, að fæða þig.“
Elía bjóst til ferðar og hélt af stað til Sarefta. Þegar hann kom að borgarhliðinu var þar ekkja nokkur að tína saman sprek. Hann kallaði til hennar og sagði: „Færðu mér vatnssopa í krús að drekka.“ Þegar hún fór að sækja vatnið kallaði hann til hennar: „Færðu mér brauðbita um leið.“ En hún svaraði: „Svo sannarlega sem Drottinn, Guð þinn lifir á ég ekkert brauð. Ég á aðeins mjölhnefa í krukku og örlitla olíu í krús. Ég er að tína saman nokkur sprek, síðan ætla ég heim að matreiða þetta handa mér og syni mínum. Þegar við höfum matast getum við dáið.“ Elía sagði við hana: „Óttastu ekki. Farðu heim og gerðu það sem þú sagðir. En bakaðu fyrst lítið brauð og færðu mér, síðan skaltu matreiða handa þér og syni þínum. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Mjölkrukkan skal ekki tæmast, olíukrúsin ekki þorna fyrr en Drottinn lætur rigna á jörðina.“ Ekkjan fór og gerði eins og Elía hafði sagt. Höfðu hún, Elía og sonur hennar, öll nóg að borða um langa hríð. Mjölkrukkan tæmdist ekki og ekki þraut olíu í krúsinni. Það var í samræmi við orð Drottins sem hann hafði flutt af munni Elía.

Og nú fel ég ykkur Guði og orði náðar hans sem getur styrkt trú ykkar og veitt ykkur hlutdeild í ríki hans ásamt öllum þeim sem helgaðir eru. Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns. Sjálfir vitið þið að þessar hendur unnu fyrir öllu því er ég þurfti með og þeir er með mér voru. Í öllu sýndi ég ykkur að með því að vinna þannig ber okkur að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú sjálfs er hann sagði: Sælla er að gefa en þiggja.“

Jesús settist gegnt fjárhirslunni og horfði á fólkið leggja peninga í hana. Margir auðmenn lögðu þar mikið. Þá kom ekkja ein fátæk og lét þar tvo smápeninga, eins eyris virði. Og Jesús kallaði til sín lærisveina sína og sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir er lögðu í fjárhirsluna. Allir gáfu þeir af allsnægtum sínum en hún gaf af skorti sínum allt sem hún átti, alla björg sína.“