Friður Guðs sé með ykkur öllum

Í dag er fyrst sunnudagur í aðventu, nýtt kirkjuár er hafið. Það er eðlilegt þegar nýtt ár hefst að líta til baka, sjá hvað hefur gengið vel og hvað hefur gengið miður. Undanfarnir mánuðir hafa vissulega verið ólíkir öllu öðru í samfélaginu.

Allt hefur meira en minna verið lokað undanfarnar vikur og mánuði vegna Covid faraldursins og nú lítur út fyrir að áfram verði miklar takmarkanir á samkomum fólks sem aftur mun hafa áhrif á jólaundirbúning og aðventuna. Í þessu eins og öllu öðru felast tækifæri. Það gæti til dæmis verið tækifæri núna til að velta fyrir sér hvað það er sem raunverulega skiptir máli í lífinu, hvað það er sem við viljum sækjast eftir.

Þrátt fyrir lokanir og takmarkanir á samkomum gengur aðventan í garð, rétt eins og alltaf, með ljósadýrð og fögnuði yfir væntanlegri fæðingu frelsarans sem við munum svo fylgjast með og læra um á komandi mánuðum. Sumt í lífinu er nefnilega hægt að hafa öruggt og víst, jafn öruggt og að vor fylgir vetri og lætur okkur  vita að sumar blasir við.

Á þessum tíma þegar aðventan nálgast taka margir sig til og fegra í kringum sig, þrífa, kaupa jólagjafir í tilefni af fæðingu frelsarans og gera vel við sig í mat og drykk. Aðventan gefur okkur líka gjafmildi, mörg okkar líta til þeirra sem hafa minna og gefa til þeirra. Það má gera ráð fyrir að um þessi Jól verði þörfin sérlega mikil nú þegar atvinnuleysi og bágur efnahagur blasir við mörgum í kjölfar Covid-19 faraldursins.

Það er dimmt úti, stefnir í mesta skammdegið sem reynist mörgum erfitt, en að sama skapi þá vitum við af því að eftir örfáar vikur fer daginn að lengja að nýju, vonarljósið blasir við okkur og fyrr en varir mun dagur lengjast. Ljósið sigrar myrkrið og gjafir hans sem fæðist á jóladag blasa við.

Í dag kveikjum við á fyrsta ljósinu í aðventukransinum. Við skreytum heima fyrir, bæði inni og úti og í ár er einmitt sérlega mikið af jólaljósum sem lýsa upp byggðirnar og minna okkur á komu frelsarann og hans eilífa ljós sem lýsir okkur mönnunum.

Séra Fritz Már Jörgensson

Lag vikunar er jólalagið Mary, Did You Know? Flutt af Pentatonix.
Í dag er fyrsti í aðventu. 24.desember munum við halda upp á fæðingu Jesú. Höfundur lagsins veltir fyrir sér hvort María móðir Jesú hafi vitað að sonur hennar yrði frelsari alls mannkyns. Gleðilega hátíð! https://www.youtube.com/watch?v=ifCWN5pJGIE

 

 

 

 

 

Sjá þjón minn sem ég styð,
minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.
Hann kallar ekki og hrópar ekki
og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum.
Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur
og dapran hörkveik slekkur hann ekki.
Í trúfesti kemur hann rétti á.
Hann þreytist ekki og gefst ekki upp
uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu
og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.

Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið sendir Jesús tvo lærisveina sína og segir við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur. Um leið og þið komið þangað munuð þið finna fola bundinn sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann. Ef einhver spyr ykkur: Hvers vegna gerið þið þetta? þá svarið: Drottinn þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað.“ Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann. Nokkrir sem stóðu þar sögðu við þá: „Hvers vegna eruð þið að leysa folann?“
Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt og þeir létu þá fara. Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín en hann settist á bak. Og margir breiddu klæði sín á veginn en aðrir lim sem þeir höfðu skorið af trjánum. Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu hrópuðu: „Hósanna. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!“ Jesús fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt en þar sem komið var kvöld fór hann til Betaníu með þeim tólf.

Hvernig get ég nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði er hann lét ykkur veita mér? Ég bið nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá ykkur og bæta úr því sem áfátt er trú ykkar. Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg minn til ykkar. En Drottinn efli ykkur og auðgi að kærleika hvert til annars og til allra eins og ég ber kærleika til ykkar. Þannig styrkir hann hjörtu ykkar svo að þið verðið óaðfinnanleg og heilög í augum Guðs, föður vors, þegar Drottinn vor Jesús kemur ásamt öllum sínum heilögu.