Við vonum og bíðum á aðventunni rétt eins og fólkið sem við lesum um í guðspjöllunum sem vonaði og beið. Frænkurnar Elísabet og María biðu fæðingar frumburða sinna, önnur fullorðin en hin á unglingsaldri. Elísabet var búin að vona og bíða í mörg ár eftir því að eignast barn.  María íhugar orð engilsins og bíður þess sem verða vill, vonar og bíður. Væntanlegir feður, Sakaría orðlaus yfir undrinu og Jósep sem vissi ekki sitt rjúkandi ráð en ákvað að treysta Guði. Svo eru það hirðarnir í haganum og vitringarnir sem rannsökuðu himinninn í leit að stjörnunni einu, þau vona og bíða.  Og Simeon og Anna sem vonuðu og biðu trúföst í musterinu eftir að barnið yrði borið til blessunar. Við vonum og bíðum á aðventunni, bíðum komu frelsarans í eftirvæntingu.

Annar sunnudagur í aðventu er runninn upp. Mörg okkar eru eflaust þegar farin að njóta þessa dásamlega tíma sem vefur okkur mörg mjúkum hlýjum örmum rétt eins og hlýtt ullarteppi og við finnum súkkulaðilyktina og smákökuilminn umlykja okkur og við vonum og bíðum spennt komu frelsarans. En sum okkar eiga erfitt með að upplifa þennan tíma sem gleðilegan og bjarmi kertaljósanna á aðventukransinum og jólaljósana sem fjölga dag frá degi megna ekki að færa birtu inn í líf og hugsanir fólks og smáköku- og súkkalaðilyktin færir þeim velgju.

Hvernig getur fólk verið svo kærulaust að að svífa um með vonarbros á vör þegar heimurinn, veröldin okkar er á heljarþröm? Jöklar heimsins bráðna og hverfa, eldar  geysa um og eyða heilu landsvæðunum á meðan að önnur hverfa í regn, aur og drullu. Börn eru aðskilin frá foreldrum sínum sem leitast við að búa þeim betra líf í öðru landi. Ófrískri konu og fjölskyldu hennar, sem vonaði og beið, var vísað úr landi út í óvissuna í fyrrum heimalandi sínu, það var ekki pláss fyrir þau í gistihúsinu, landinu okkar.

Hvernig er hægt að njóta aðventunar þegar við erum einmana eða leið, þreytt og sorgmædd og jafnvel skelfingu lostinu yfir lífinu yfirleitt og eigum erfitt með að koma auga á vonina og gleðina sem fylgja aðventunni og komu jólanna. Væri ekki bara gott að klifra upp í rúm, breiða upp fyrir haus og vona og bíða þess að þessi árstími líði, líði hratt og örugglega?

En það er ekki best, það er einmitt vegna þessa alls sem við þurfum á aðventunni að halda, því aðventa hefur tilgang hvernig svo sem okkur líður. Aðventan  felur í sér vonina, sjálfa vonina um komu frelsarans. Við þekkjum ekki vonin ef við höfum ekki  komist í kynni við  vonleysið.

Aðventan býr yfir undarverðum krafti sem getur brotið sér leið inn í sundurmarin hjörtu vonleysins með boðskapnum um komu frelsarans, freslarans sem kemur til okkar þar sem við erum stödd einmitt núna, ekki þar sem við vildum vera.  Guð leitar okkar og finnur okkur í öllum aðstæðum okkar. Verið hugraust, óttist ekki sjáið, hér er Guð ykkar, sagði Jesaja spámaður. Vonum og bíðum.

Freslarinn okkar kemur þrátt fyrir myrkrið sem umlykur okkur því  það er með myrkrið eins og vonleysið eða ljósið og vonina, við þurfum að horfast í augu við það til að hleypa ljósinu inn, heypa voninni inn og bíða komu frelsarans.

Aðventan er tími eftirvæntingarinnar, við vonum og bíðum og íhugum hlutverk okkar í veröld Guðs. Við vonum og bíðum og minningarnar leita á okkur.  Nú vantar ef til vill einhver sem voru með okkur á síðustu aðventu og við söknum þeirra, lífið verður ekki eins án þeirra en við vonum og bíðum því lífið getur verið gott þó það sé ekki eins og það var.

Við vonum og bíðum:
fæðingarhríðarnar eru byrjaðar.
Guð ljósmóðir heimsins, frelsaðu okkur.

Séra Elína Hrund Kristjánsdóttir

Af stofni Ísaí mun kvistur fram spretta
og sproti vaxa af rótum hans.
Andi Drottins mun hvíla yfir honum:
andi speki og skilnings,
andi visku og máttar,
andi þekkingar og guðsótta.

Guðsóttinn verður styrkur hans.
Hann mun ekki dæma eftir því sem augu hans sjá
og ekki skera úr málum eftir því sem eyru hans heyra.

Með réttvísi mun hann dæma hina vanmáttugu
og skera með réttlæti úr málum hinna fátæku í landinu.
Hann mun ljósta ofbeldismanninn með sprota munns síns,
deyða hinn guðlausa með anda vara sinna.
Réttlæti verður belti um lendar hans,
trúfesti lindinn um mjaðmir hans.
Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu
og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum.
Kálfur, ljón og alifé munu ganga saman
og smásveinn gæta þeirra.
Kýr og birna verða saman á beit,
ungviði þeirra hvílir hvort hjá öðru,
og ljónið mun bíta gras eins og nautið.
Brjóstmylkingurinn mun leika sér
við holu nöðrunnar
og barn, nývanið af brjósti,
stinga hendi inn í bæli höggormsins.
Enginn mun gera illt,
enginn valda skaða
á mínu heilaga fjalli
því að allt landið verður fullt af þekkingu á Drottni
eins og vatn hylur sjávardjúpið.

Allt það sem áður er ritað er ritað okkur til fræðslu til þess að við héldum von okkar vegna þess þolgæðis og uppörvunar sem ritningarnar gefa. En Guð, sem veitir þolgæðið og hugrekkið, gefi ykkur að vera samhuga að vilja Krists Jesú til þess að þið einum huga og einum munni vegsamið Guð, föður Drottins vors Jesú Krists.

Takið því hvert annað að ykkur eins og Kristur tók ykkur að sér Guði til dýrðar.

Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni svo að þér séuð auðug að voninni í krafti heilags anda.

Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu falla í öngvit af ótta og kvíða fyrir því er koma mun yfir heimsbyggðina því að kraftar himnanna munu riðlast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og berið höfuðið hátt því að lausn yðar er í nánd.“

Jesús sagði þeim og líkingu: „Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám. Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður að sumarið er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.

Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok uns allt er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok en orð mín munu aldrei undir lok líða.