Mér hafa oft verið hugleikin orð æðruleysisbænarinnar, sem í heild sinni er svona:
Guð gef mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og visku til að greina þar á milli. Að lifa einn dag í einu, njóta hvers andartaks fyrir sig, viðurkenna mótlæti sem friðarveg, með því að taka syndugum heimi eins og hann er, eins og Jesús gerði en ekki eins og ég vil hafa hann og treysta því að þú munir færa allt á réttan veg ef ég gef mig undir vilja þinn svo að ég megi vera hæfilega hamingjusamur í þessu lífi og yfirmáta hamingjusamur með þér þegar að eilífðinni kemur. Amen

Einkum hef ég staldrað við það hvernig það ætti að vera mögulegt að viðurkenna mótlæti sem friðarveg.
Ég rakst á eftirfarandi sögu sem kom af stað hugrenningatengslum við þessi orð æðruleysisbænarinnar.
Árið1809 fæddist þeim Símoni Braille og eiginkonu hans Móniku, sonur sem þau nefndu Louis. Hann var fjórða barn þeirra hjóna. Fjölskyldan bjó í nágrenni Parísar. Símon var leðursmiður, en áhöld sem notuð eru við leðurvinnu geta verið hættuleg ef ekki er rétt með þau farið. Börnunum var því bannað að fara inn á verkstæði föður síns nema í fylgd fullorðinna. Þegar Louis var lítill stalst hann einu sinni inn á verkstæðið til að skoða öll þessi spennandi verkfæri. Þar fann hann meðal annars sílinn. Fyrir þau sem ekki vita er síll mjög oddhvasst verkfæri og var í þessu tilviki notað til að gata leðrið. Það skipti engum togum að Louis litli datt og verkfærið stakkst í auga hans. Þetta var ekki stórt sár en fljótlega komst sýking í það og sýkingunni fylgdi kláði.
Louis litli gat ekki á sér setið að klóra sér svo sýkingin barst einnig í hitt augað og engin ráð voru til bjargar. Louis Braille varð því algerlega blindur fjögurra ára gamall. Hann var síðar sendur í skóla fyrir blind börn í París og útskrifaðist þaðan sem organisti. Louis var skarpgreindur og á þrettánda ári velti hann fyrir sér leiðum fyrir blinda til að geta lesið. Hann þekkti kerfi sem honum þótti of flókið, var hannað í hernaðartilgangi til að geta lesið í myrkri. Louis fann leið til að einfalda það og þróaði úr því blindraletrið sem við hann er kennt.
Louis mun eitt sinn hafa komið inn á verkstæði föður síns þegar hann var í sumarfríi í foreldrahúsum og varð þá hugsað til sílsins, verkfærisins sem rændi hann sjóninni. Þetta sama verkfæri mun hann hafa notað til að útbúa nýja blindraletrið.
Blindraletur Louis Braille olli straumhvörfum í möguleikum blindra á menntun og meiri lífsgæðum. Síllinn var skaðvaldurinn sem blindaði Louis Braille og jafnframt verkfærið sem hann notaði fyrst til að útbúa blindraletrið.

Flest eigum við sögu um eitthvað sem setti mark sitt á okkur, breytti okkur fyrir lífstíð, bæklaði líkamann, braut okkur niður, særði tilfinningar okkar svo samskipti okkar við annað fólk runnu í óheilbrigðan farveg. Skaðvaldurinn okkar getur verið slys, ofbeldi, skilnaður eða ástvinamissir, svik, einelti eða glötuð tækifæri, svo eitthvað sé nefnt. Að viðurkenna mótlæti sem friðarveg er að leggja allt fram fyrir Guð á þann hátt að hann geti endurreist eitthvað gott inn í líf okkar, jafnvel á grunni þess sem varð okkur til skaða.

Sr. Guðmundur Karl Brynjarsson

Eftir þessa atburði reyndi Guð Abraham. Hann mælti til hans: „Abraham.“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Hann sagði: „Tak þú son þinn, einkason þinn sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum sem brennifórn á því fjalli sem ég mun vísa þér á.“ Árla morguns söðlaði Abraham asna sinn, tók með sér tvo af sveinum sínum og Ísak son sinn, klauf við til brennifórnar, lagði síðan af stað og hélt til þess staðar sem Guð hafði sagt honum. Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar. Hann sagði við sveina sína: „Bíðið hérna hjá asnanum en við drengurinn munum ganga þangað upp eftir til að biðjast fyrir og komum svo til ykkar aftur.“ Abraham tók nú brennifórnarviðinn og lagði Ísak syni sínum á herðar en eldinn og hnífinn tók hann sér í hönd. Og þeir gengu báðir saman. Þá sagði Ísak við Abraham föður sinn: „Faðir minn.“ Og hann svaraði: „Hér er ég, sonur minn.“ Ísak mælti: „Hér er eldurinn og viðurinn. En hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?“ Abraham svaraði: „Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnar, sonur minn.“ Og þeir gengu báðir saman. Nú komu þeir á staðinn sem Guð hafði talað um. Þar reisti Abraham altari, lagði viðinn á, batt Ísak son sinn og lagði hann á altarið ofan á viðinn. Þá tók Abraham hnífinn í hönd sér til þess að slátra syni sínum. En engill Drottins kallaði til hans af himni og mælti: „Abraham! Abraham!“ Og hann svaraði: „Hér er ég.“ Engillinn sagði: „Leggðu ekki hönd á sveininn og gerðu honum ekkert því að nú veit ég að þú óttast Guð. Þú hefur jafnvel ekki synjað mér um son þinn, einkason þinn.“ Þá hóf Abraham upp augu sín og sá hvar hrútur var fastur á hornunum í greinaþykkni. Fór hann þangað, tók hrútinn og fórnaði honum sem brennifórn í stað sonar síns.

Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.

Þá komu til Jesú Jakob og Jóhannes, synir Sebedeusar, og sögðu við hann: „Meistari, okkur langar að þú gerir fyrir okkur það sem við ætlum að biðja þig.“ Hann spurði þá: „Hvað viljið þið að ég geri fyrir ykkur?“ Þeir svöruðu: „Veit okkur að við fáum að sitja þér við hlið í dýrð þinni, annar til hægri handar þér og hinn til vinstri.“ Jesús sagði við þá: „Þið vitið ekki hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég drekk, eða skírst þeirri skírn sem ég skírist?“ Þeir sögðu við hann: „Það getum við.“ Jesús mælti: „Þann kaleik, sem ég drekk, munuð þið drekka og þið munuð skírast þeirri skírn sem ég skírist. En ég ræð því ekki hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim sem það er fyrirbúið.“ Þegar hinir tíu heyrðu þetta gramdist þeim við þá Jakob og Jóhannes. En Jesús kallaði þá til sín og mælti: „Þið vitið að þeir sem teljast ráða fyrir þjóðum drottna yfir þeim og höfðingjar þeirra láta menn kenna á valdi sínu. En eigi sé svo meðal ykkar heldur sé sá sem mikill vill verða meðal ykkar þjónn ykkar. Og sá er vill fremstur vera meðal ykkar sé allra þræll. Því að Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla.“