Hvað ætli „allir“ séu margir þarna í textanum sem við hugleiðum í fáum orðum „ allir saman komnir á einum stað“. Hvað hugsar maður þegar einhver segir „allir“?

Eru þá ekki neinir „hinir“ í spilinu?

Eða eru kannski hinir fleiri en allir?

Þau hafa nú ekki verið mörg, sem voru þarna saman komin. Plássið hefur ekki verið mikið – þannig að allir hinir voru annars staðar.

Eða er meiningin sú að þau sem voru, hafi hvert um sig verið algjörlega á staðnum?

Eins og þau voru og eins og þau eru.

Öll manneskjan, í heild sinni.

Með öllu sem prýddi hana?

Ekkert undanskilið af sálu hvers og eins.

Og hvað gerðist? Og hvernig er því lýst? Og ekki síst hvað gerði reynslan við fólkið?

Breyttist það?

Og hvað með þau sem voru annars staðar?

Hvað fékk fólkið, sem ekki var þar saman komið?

Þegar horft er til baka ein tvö þúsund ár, svona eins og það hafi gerst í gær, þá er hoppað yfir margra alda skeið og allt fólkið sem er á milli okkar og þessara sem sagan greinir frá. Orðin sem upphaflega voru notuð til útskýringar geta verið snúin og baksvið orðanna en snúrara.

Það er hægur vandi að týna sér í hafróti 20 alda þeytivindu. Og ætli það sé nú ekki þannig að í dag hefur hvítasunnudagur afar litla þýðingu fyrir flesta. Bara enga merkingu aðra en sem fyrsta ferðahelgi sumarsins og veðurfarið verður tíðræðast.

Samt eru þeir hafðir tveir á dagatalinu. Hinn dagurinn heitir annar í hvítasunnu.

Reyndar er það verra að baksvið daga tapast og sú tákræna skírskotun sem haldið er í, glatast.

„Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“

Þannig er þessu djúpstæða undri lýst í Postulasögunni.

Tungur kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra.

Án efa hefur þessu fylgd afar sérstæk reynsla og tilfinning hjá þeim sem fyrir urðu. En er verið að segja frá því?

Mörgum árum seinna var farið að skrifa og færa til bókar og síðan að úskýra og gera grein fyrir. En þannig fennir yfir sjálfa reynsluna og önnur sjónarmið fara að ríkja.

Tungur kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra.

Reynsla manna af umbreytingu, af nærveru þess djúpa í lífinu sem kallað er heilgur andi, snertingu hans og áhrifum tekur öllum lýsingum yfir. Fólk er á öllum tímum að reyna þetta og engar lýsingar, gamlar eða nýjar ná fyllilega að fylla út í reynsluheiminn.

En fólkið breytist.

Það verður allt annars konar fólk.

Það fer að skilja tilveruna með allt öðrum hætti.

Sálin í fólkinu tekur hamskiptum.

Hins vegar hafa menn oft tekið sér vald yfir öðru fólki með því að tala niður og draga í efa reynslu þess eða upplifum. Í þessu samhengi er vert að huga að því sem kallað er RÉTT trú, eða RÉTTUR skilningur og hefur kannski ekkert með sannleika að gera heldur snýr að skoðun og frekju þess sem vill ráða eða er að verja sérhagsmuni sína. Saga mannsins er full af slíkri blekkingu og ætti að vera viðvörum öllum til að leita sér þekkingar og reynslu.

Tungur kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra.

 

Myndlíkingin– vindur og eldur.

Burt séð frá myndlíkingum og ítarlegri lýsingu á því hvernig lærisveinarnir fylltust heilögum anda, þá standa þessi orð ein eftir:

„þeir fylltust allir heilögum anda.”

Eins getur orðið hjá þér.

Eins getur orðið hjá þér- vegna þess að enginn maður ræður vindinum- enginn maður ræður eldinum.

En eldurinn í þér, vindurinn í þér.

„Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.“

Þetta segir Jesús, þá sem nú.

Þú verður öðruvísi þú.

Sr. Axel Á. Njarðvík

Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn.
Synir yðar og dætur munu spá,
gamalmenni yðar mun dreyma drauma
og ungmenni yðar munu fá vitranir,
jafnvel yfir þræla og ambáttir
mun ég úthella anda mínum á þeim dögum.
Og tákn mun ég láta verða á himni og jörð:
blóð, eld og reykjarstróka.
Sólin verður myrk
og tunglið sem blóð
áður en dagur Drottins kemur, hinn mikli og ógurlegi.
En hver sem ákallar nafn Drottins
verður hólpinn.
Á Síonarfjalli og í Jerúsalem
munu nokkrir lifa af
eins og Drottinn hefur heitið.
Hver sem ákallar nafn Drottins
mun frelsast.

Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

(Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“)

Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.