Á örfáum mánuðum hefur veröldin umbreyst. Tugþúsundir hafa látist og milljónir veikst sem valdið hefur sorg og ótta hjá fjölda fólks. Allir upplifa umbreytingu á lífsháttum sínum. Eins og svo oft þegar út af ber í lífinu, felur það í sér tækifæri. Við fáum rými og næði til að vinna með okkur sjálf, við getum verið í góðu sambandi við fólkið okkar á netinu. Þetta kallar á hugmyndaauðgi og sköpun í því að nýta tæknina okkur til góðs.

Allt frá því að Jesús Kristur átti í samfélagi við lærisveina sína og eftir að fyrstu kristnu kirkjurnar urðu til hafa kristnir hist og átt saman samfélag. Þetta hefur ekkert breyst nema að því leiti að nú þarf samfélagið að eiga sér stað á netinu. Bænir gefa okkur frið og von. Það er tækifæri í því að stunda kyrrðarbæn á netinu og dýpka þannig vitundarsamband sitt við æðri mátt. Þannig getum við notið kyrrðarinnar sem við þurfum öll á að halda í lífinu en fáum því miður alltof sjaldan tækifæri til að gefa okkur í dagsins önn.

Það er eðlilegt að á erfiðum tímum láti tilfinningar og sorg, sem mögulega gera ekki vart við sig dags daglega, á sér kræla. Þau sem eru einmana eða eru að þjást vegna missis, erfiðra sárra tilfinninga eða hvers kyns vandræða í lífinu, geta eftir sem áður leitað til kirkjunnar sinnar þar sem vel er tekið á móti öllum.

Staðan í dag innifelur annars konar áskorum fyrir samfélag sem venjulega byggir á hraða, streytu og neyslu. Kannski má segja að það sé engin ástæða til að sóa góðri kreppu, heldur miklu frekar að grípa tækifærið og nýta hana til góðs. Það er þetta með að hafa glasið hálffullt eða háftómt, hvort við veljum að sjá það slæma í hlutunum eða tækifærið og áskorunina.

Það er magnað að sjá hversu margir eru einmitt að nýta sér útivist, um allt land eru stórkostleg svæði til útivistar sem sífellt fleiri virðast vera að uppgötva og nýta. Einföldu þættirnir sem lífið bíður upp á og eru allt í kringum okkur eru svo sterkur vitnisburður um sköpun Guðs. Það er einmitt alveg stórkostlegt að eiga stund úti í náttúrunni með Guði, biðja bænir og eiga samtal við Drottinn. Við gætum t.d. valið að heilsa þeim sem við mætum með fallegu brosi og blessun um leið og við stígum til hliðar til að virða tveggja metra regluna. Og svo fáum við einstakt tækifæri sem felst í því að vera meira með fjölskyldu sinni og börnum, að rækta garðinn sinn.

En Guð gefi að við lærum af þessu öllu saman, að við lærum að virða sköpunarverk Guðs, að við drögum úr neyslunni, að við sinnum náttúrunni, sköpunarverki Guðs, að einstaklingshyggjan víki og náungakærleikurinn verði ríkjandi. En eitt er víst, heimurinn verður aldrei eins og hann var.

Séra Fritz Már Jörgensson

 

Löfgjörðarlag vikunnar er með Lauren Daigle – Trust In You (Live)
Ég mun leggja allt mitt traust á þig. https://www.youtube.com/watch?v=n_aVFVveJNs&list=RDn_aVFVveJNs&start_radio=1

Hrópaðu af gleði, Síonardóttir!
Fagnaðu hástöfum, Ísrael!
Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta,
dóttirin Jerúsalem.
Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér,
hann hefur hrakið fjendur þína á brott.
Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér,
engar ófarir þarftu framar að óttast.
Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem:
„Óttastu ekki, Síon,
láttu ekki hugfallast.
Drottinn, Guð þinn, er hjá þér,
hin frelsandi hetja.
Hann mun fagna og gleðjast yfir þér,
hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi
og hugga með kærleika sínum

Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag á meðan enn heitir „í dag“, til þess að enginn forherðist af táli syndarinnar. Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi.

Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.