Nú er haust, gróður jarðarinnar fangar augu okkar með sinni stórkostlegu litasinfóníu hvert sem litið er. Allt sem áður var grænt og geislaði af lífi tekur nú á sig liti kveðjustundarinnar sem nálgast óðum þegar flestur gróður fellur í vetrarsvefn. Það er engu líkara en að allir þessir stórfenglegu litir séu vitnisburður um lífið og fögnuður yfir hvíldinni sem nálgast óðum. Jesús sagði; ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja.

Þegar vetri líkur tekur gróðurinn við sér að nýju og breiðir sig út yfir alla jörð á sama tíma og nýtt líf vaknar um víða veröld. Þannig gengur lífið fyrir sig í eilífri hringrás. Fyrirheitin sem Jesús gaf okkur eru stórkostleg, hann sem sigraði dauðann og færði okkur eilíft líf. Það er síðan okkar að velja hvað við ætlum að gera við þessa gjöf og hvernig við ætlum að nýta hana. Hvernig við ætlum að lifa lífinu. Öll okkar viðbrögð og allt sem við gerum byggist á vali, við tökum ákvörðun um að vera með ákveðnum hætti hvort sem um er að ræða í framkomu og samskiptum við sjálf okkur og aðra eða í leik og starfi.

Hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Jesús var og er fyrirmynd í lífi mikils fjölda fólks og hvetur okkur til að velja það að lifa góðu kærleiksfullu og fallegu lífi. Þannig getum við að lokum valið að kveðja með litasinfóníu sem fangar þá sem eftir lifa og hvetur þá til að lifa eftir boðum Jesú Krists í fögnuði, kærleika og fullvissu um eilíft líf.

Sr. Fritz Már

Helgigönguljóð.
Úr djúpinu ákalla ég þig, Drottinn,
Drottinn, heyr þú raust mína,
lát eyru þín hlusta á grátbeiðni mína.
Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum,
Drottinn, hver fengi þá staðist?
En hjá þér er fyrirgefning
svo að menn óttist þig.
Ég vona á Drottin,
sál mín vonar,
hans orðs bíð ég.
Meir en vökumenn morgun,
vökumenn morgun,
þráir sál mín Drottin.
Ó, Ísrael, bíð þú Drottins
því að hjá Drottni er miskunn
og hjá honum er gnægð lausnar.
Hann mun leysa Ísrael
frá öllum misgjörðum hans.

Það er einlæg löngun mín og von að ég verði ekki til smánar í neinu, heldur að ég hafi þann kjark nú eins og ávallt að sýna með lífi mínu og dauða fram á hve mikill Kristur er. Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur. En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Ekki veit ég hvort ég á heldur að kjósa.
Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi því að það væri miklu betra. En ykkar vegna er nauðsynlegra að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu. Og í trausti þess veit ég að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá ykkur öllum, ykkur til framfara og gleði í trúnni. Þá kem ég aftur til ykkar og þið finnið enn betur hvílík upphefð það er að fylgja Kristi.

Margir Gyðingar voru komnir til Mörtu og Maríu til að hugga þær eftir bróðurmissinn.
Þegar Marta frétti að Jesús væri að koma fór hún á móti honum en María sat heima. Marta sagði við Jesú: „Drottinn, ef þú hefðir verið hér væri bróðir minn ekki dáinn. En einnig nú veit ég að Guð mun gefa þér hvað sem þú biður hann um.“
Jesús segir við hana: „Bróðir þinn mun upp rísa.“ Marta segir: „Ég veit að hann rís upp í upprisunni á efsta degi.“
Jesús mælti: „Ég er upprisan og lífið. Sá sem trúir á mig mun lifa þótt hann deyi. Og hver sem lifir og trúir á mig mun aldrei að eilífu deyja. Trúir þú þessu?“
Hún segir við hann: „Já, Drottinn. Ég trúi að þú sért Kristur, Guðs sonur, sem koma skal í heiminn.“