Lífið færir okkur margar áskoranir og það er merkilegt hvernig oft er hægt að nota biblíutexta til að setja í samhengi við líðandi stund. Í guðspjalli dagsins heyrðum við söguna af Lazarusi og ríka manninum. Ríki maðurinn hafði nýtt sér eymd annarra til að viðhalda lífsstíl sínum í gegnum tíðina en hann hafði fengið mörg tækifæri í lífinu til að ganga aðra leið, til að fá fyrirgefningu á syndum sínum, en hafði ekki haft áhuga á því. Og eftir að hann dó fór hann á stað sem ekki var mjög huggulegur. Ríkidæmið hafði verið það mikilvægasta í lífi þessa gráðuga manns, auðvitað er það ekki þannig að það sé eitthvað slæmt eða syndugt að vera ríkur. Alls ekki, það snýst um hvernig lífinu er lifað, hvort við misbjóðum eða misnotum fólk.

Lífið sjálft getur verið mjög erfitt og kvalafullt á köflum. Áföllin eru margvísleg, það er ekki auðvelt að missa einhvern nákominn, barn eða maka, eða að alast upp við alkahólisma og ofbeldi. Það gerast atburðir í lífinu sem margir lýsa þannig að það hafi verið helvíti að ganga í gegnum. Við þær aðstæður er líklegt að þættir eins og traust, náð og frelsi séu ekki nálægir þrátt fyrir að þráin eftir þeim sé til staðar og oft er það þannig að fólk öðlast þessa þætti lífsins þegar lífið fer í annan takt. Oft höfum við lítið með það að gera hvaða stefnu lífið getur tekið á tímabilum. Þannig getum við þannig getum við upplifað og talið að lífið sé ekki alltaf sanngjarnt.

Ég trúi því að Guð vilji að allar manneskjur geti öðlast gott líf, það er ekki endilega sjálfgefið að leiðin þangað sé létt eða án vaxtarverkja, það er að öðlast lærdóm við að ganga í gegnum erfiðleika og ólík tímabil. Guð óskar okkur frelsis, ef við lesum aðeins áfram í guðspjallinu þá talar Jesús um fyrirgefninguna, hann bendir á að allir getir öðlast fyrigefningu, allir geti fengið nýja byrjun. Það er nóg til fyrir alla, það er líka alltaf fært að velja aðra leið. Kærleiki Guðs vísar okkur veginn.

Ríki maðurinn sá eftir því hvernig hann hafði lifað lífinu, hann hafði líka áhyggjur af bræðrum sínum sem hann vildi aðvara. Hann þjáðist en hann í kvölum sínum var tilbúinn að ganga aðra leið. Út frá því trúi ég því að þessi staður þjáninganna sem hann var í hafi verið tímabundinn, rétt eins og þjáningarnar í lífinu.

Ég trúi því líka að Guð sé réttlátur og að hann elski okkur öll, óháð því hvort við teljumst vera gott eða slæmt fólk. Í bréfi Páls til Rómverja segist hann þess fullviss að ekkert geti gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist i Kristi Jesú, Drottni vorum. Guð elskar ekki syndina og það vonda í okkur en hann elskar okkur alltaf, þrátt fyrir að við séum aðfinnanleg í verkum okkar og lífi.

Séra Fritz Már Jörgensson

Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir.

Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.

Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann.
Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni.
Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur,
sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.

Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.
Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga.
Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“