Það eru mörk sem skilja á milli lífs og dauða, sem við mannfólkið, í gegnum sorg og sársauka, þurfum að búa við. Líf okkar hefur upphaf og endi og enginn þekkir morgundaginn eða það sem hann ber í skauti sér, hvort sem er í gleði eða sorg.

Sem prestur er ég oft í nálægð við dauðann og ég er oft minntur á það hversu lífið er forgengilegt, en ég er að sama skapi oft minntur á styrk vonarinnar og dýrmæti trúarinnar.

Ég upplifi oft hversu hlýtt er á milli fólks, djúp ást og mikill kærleikur. Og ég trúi því að þessi kærleikur tapist aldrei.

Í kristinn trú er ákveðinn kjarni, mynd sem hefur lýst fólki í gegnum árþúsund og gefið okkur von, Jefnvel þegar það lítur út fyrir að

engin von sé til. Þetta er trúin á það að líf okkar hvíli að fullu í höndum Guðs. Vegna þess að þegar við lifum þá lifum við fyrir Drottinn og þegar við deyjum þá deyjum við fyrir Drottinn. Þess vegna dó Jesús og reis upp, til að hann gæti verið Herra lifandi og dauðra. Guð skapaði okkur nefnilega ekki til að deyja, hann skapaði okkur til lifa í samfylgd við sig.

Lífið er þannig að það rúmar allt sem gerist undir himninum, það rúmar gleði, þakklæti og von en líka erfiða tíma, sorg og vonleysi. Við tilheyrum Guði, sem fylgir okkur alla daga, verndar okkur í lífi og dauða.

Við erum borin til skírnar, oftast fljótlega eftir að við fæðumst, við erum borin til grafar, fljótlega eftir að við deyjum. Og við tökum á móti náð Guðs sem er loforð um eilíft líf. Vegna þess að Guð vill að við lifum. Vill að við finnum andardráttinn í brjóstum okkar og hjartsláttinn sem hvoru tveggja heldur okkur á lífi og er stórkostleg gjöf Guðs til okkar.

Vegna þessa er svo dýrmætt að geta gefið líf sitt Guði. Við trúum því að hann vilji bara það besta fyrir okkur, að hann elski okkur með sama kærleika og hann elskar alla þá sem hann hefur læknað, líknað og jafnvel reyst frá dauðum.

 

Séra Fritz Már Jörgensson

 

Lofgjörðarlag eða sálmur vikunnar er lagið Trust in you með Lauren Daigle. Lagið minnir okkur á að þegar við stöndum frammi fyrir erfiðleikum sem virðast okkur ofviða getum við hvílt í trausti okkar á Guð. Lagið er samið af Lauren sjálfri.
https://www.youtube.com/watch?v=5LGqI4nazkk

Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
Eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér mun ég líta Guð.
Ég mun líta hann mér til góðs,
augu mín munu sjá hann og engan annan.
Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.

Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.

Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.

Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.