Í Biblíunni er ekki mikið fjallað um ástina sem slíka – alltjent ekki í rómantísku samhengi. Vissulega verða persónur ástfangnar, en frásögnin veltir sér alla jafna ekki mikið upp úr tilfinningalífinu þar að baki. Þó sker ein bók sig þar úr, hún nefnist Ljóðaljóðin og er í Gamla testamentinu. Hún sker sig líka úr að því leyti að hún er eina rit Biblíunnar þar sem hvergi er minnst á Guð. Af því mætti kannski draga þá ályktun að Guð og ástin eigi alls ekki samleið, en það er þó kannski fullbratt að gera það.

Þeim mun meira er nefnilega fjallað um annað hugtak, náskylt en þó eðlisólíkt … að minnsta kosti eins og ég skil þau. Það er kærleikurinn. Kærleikurinn er ekki bara miðlægur í kristinni boðun heldur má færa fyrir því rök að hann sé yfir hana hafinn, hún sé beinlínis í þjónustu hans. Páll postuli segir í Fyrra Korintubréfi: „Nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt. En þeirra er kærleikurinn mestur.“ (1Kor 13.13) Kærleikurinn er með öðrum orðum mikilvægari en trúin samkvæmt skilningi hennar sjálfrar. Hann trompar hana.

Enda er það svo að ástin, öfugt við kærleikann, er alloft býsna eigingjörn tilfinning. Hún væntir andsvars, maður vill fá ást á móti. Ef það er ekki tilfellið finnum við til annarrar kenndar; ástarsorgar, sem er það eigingjarnasta af öllu eigingjörnu.

Ég hef reynslu af ástarsorg og það sem hjálpaði mér einna helst að ganga í gegnum hana var að ég gerði tvo lista. Á öðrum listanum voru þeir sem vildu að ég og stúlkan næðum saman aftur, á hinum voru þeir sem vildu frekar að hún væri með nýja manninum sínum. Á þeim lista voru allir í heiminum, efst á honum stúlkan sjálf. Á hinum listanum var ég einn. Þannig sá ég að ástarsorgin mín var ekki annað en frekja og eigingirni undir þunnu lagi af bleikri málningu.

Munurinn á þessu tvennu er einmitt sá að það er hægt að sitja aðgerðarlaus úti í horni með hendur í skauti og vera gagntekinn af ást. Það er ekki hægt með kærleika. Kærleika getur maður aðeins sýnt. Að sitja aðgerðarlaus úti í horni með hendur í skauti er ekki kærleikur. Það er bein andstæða hans: Kæruleysi. Það að kæra sig ekki um náungann.

Kærleikur er verknaður og helst sem slíkur í hendur við verknaðarskylduna sem er grunnur kristinnar boðunar. Okkur ber ekki bara að bera hlýhug til allra manna, okkur ber að sýna hann í verki. „Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum,“ (Matt 7.21) segir Jesús. Þekktari eru sennilega orðin: „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ (Matt 7.12) Gera – ekki bara láta illt ógert heldur að gera gott. Að elska er að gera, samkvæmt kristnum skiliningi.

Í Fyrsta Jóhannesarbréfi er á tveim stöðum að finna þessa einföldu fullyrðingu: „Guð er kærleikur.“ (1Jóh 4.8, 4.16) Og eðli málsins samkvæmt gteur kærleikur getur ekki verið til í tómarúmi. Kærleikur sem snýst bara um sjálfan sig er ekki kærleikur heldur eitthvað allt annað. Hann verður að hafa eitthvað að beinast að. Það er ekki hægt að elska nema elska eitthvað … eða einhvern.

Þetta svarar spurningunni: Af hverju varð heimurinn til? Vísindin geta sagt okkur betur en trúin hvernig hann varð til. En trúin gefur honum tilgang.

Heimurinn getur aðeins hafa orðið til beinlínis til að vera viðfang kærleika Guðs, til að Guð geti verið kærleikur – og þarafleiðandi Guð – verður hann að hafa eitthvað að elska.

Þannig er heimurinn, samkvæmt skilningi trúarinnar, ekki bara sköpunarverk Guðs heldur kærleiksverk Guðs. Og þannig er Guð líka fullkomlega skuldbundin sköpunarverki sínu í kærleika. Því ef Guð raunverulega er kærleikur þá getur Guð ekki hætt að elska því þá myndi hann hætta að vera Guð.

Af því leiðir að ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs. En Guð skapaði ekki bara heiminn samkvæmt Biblíunni. Hann skapaði líka manninn í sinni mynd.

Hvað eigum við við með því? Hvernig birtist þessi Guðsmynd í okkur?

Í mínum huga er það augljóst.

Eins og Guð þurfum við að elska.

Annars visnum við og deyjum.

 

Séra Davíð Þór Jónsson

Gleðjist með Jerúsalem og fagnið í henni,
allir þér sem elskið hana,
fagnið með henni og kætist,
allir þér sem eruð hryggir hennar vegna
svo að þér getið sogið og saðst af huggunarbrjósti hennar,
svo að þér getið teygað og gætt yður á nægtabarmi hennar.
Því að svo segir Drottinn:
Ég veiti velsæld til hennar eins og fljóti
og auðæfum þjóðanna eins og bakkafullum læk.
Brjóstmylkingar hennar verða bornir á mjöðminni
og þeim hossað á hnjánum.
Eins og móðir huggar barn sitt,
eins mun ég hugga yður,
í Jerúsalem verðið þér huggaðir.

Og ég leit sem glerhaf eldi blandið. Þeir sem höfðu unnið sigur á dýrinu og líkneski þess, og létu töluna sem táknar nafn þess ekki villa um fyrir sér, stóðu við glerhafið og héldu á hörpum Guðs. Þeir sungu söng Móse, þjóns Guðs, og söng lambsins:
Mikil og dásamleg eru verk þín,
Drottinn Guð, þú alvaldi,
réttlátir og sannir eru vegir þínir,
þú konungur aldanna.
Hver skyldi ekki óttast þig, Drottinn, og vegsama nafn þitt?
Því að þú einn ert heilagur,
allar þjóðir munu koma og tilbiðja frammi fyrir þér
því að réttlátir dómar þínir eru opinberir orðnir.

Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.
Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“