Þið elskuðu, elskum hvert annað því að kærleikurinn er frá Guði kominn og hver sem elskar er barn Guðs og þekkir Guð. 1.Jóh 4.7

Ástin er dýrmæt. Ástin er afl lífsins og að elska aðra manneskju er að kunna að meta þá eiginleika sem hún hefur. Margir hafa reynt að skilja og skýra ástina og heimspekingar hafa sem dæmi sagt að ekkert líf væri án ástar og að elska er að lifa, engin kenning er réttari en önnur. Ástin er meðal sterkustu tilfinninga sem maðurinn getur fundið fyrir og mjög eftirsóknarverð.. Við segjum hvort öðru aldrei of oft þessi einstöku orð: „Ég elska þig”. Öllum finnst gott að heyra að þeir séu elskaðir af einhverjum, en það skiptir líka miklu máli að elska sjálfan sig, því ef við getum það ekki þá eigum við í vandræðum að elska aðra.

En ef við veltum fyrir okkur orðinu ást og hvernig við notum orðið, þá getum notað það í margskonar samhengi. Sem dæmi getum við elskað foreldra okkar fyrir að vernda okkur og standa við hlið okkar. Við elskum börnin okkar, því þau eru kraftaverkin okkar. Við getum elskað besta vin okkar fyrir að hlæja með okkur eða fyrir að svara skilaboðunum okkar. Við elskum maka okkar á ástríðufullan hátt, og svo framvegis mætti halda áfram. Allt sem tengist tjáningu ástar er mikilvægt en hún getur þó verið eðlisólík.

Svo er það kærleikurinn sem við berum til annara. Okkur ber að elska náunga okkar og sýna kærleika í verki. Það er grunnurinn að kristinni boðun. Kærleikur er hvert bros sem þú gefur. Kærleikur er að hlusta á þann sem elskar þig. Kærleikur er að faðma þann sem grætur. Kærleikur er að lifa sátt við sjálfan sig og aðra. Kærleikur er ljósið sem býr í hjarta þínu.  Kærleikur er umhyggjusemi og að vera vingjarnlegur. Kærleikur er að óska öðrum góðs. Kærleikurinn er svo margt. Við eigum að sýna fólki kærleika með því að taka því nákvæmlega eins og það er. Því að við erum öll dýrmæt og einstök, hvert okkar á sinn hátt.

Séra María Baldursdóttir

Lofgjörðarlag vikunnar er með Chris Tomlin – Goodness, Love And Mercy. https://www.youtube.com/watch?v=8Qa6zZrYkZA

Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.
Óguðlegum farnast á annan veg,
þeir hrekjast sem hismi í stormi.
Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi
né syndarar í söfnuði réttlátra.
Drottinn vakir yfir vegi réttlátra
en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar, prófið ykkur sjálf. Gerið þið ykkur ekki grein fyrir að Jesús Kristur lifir í ykkur? Það skyldi vera að þið stæðust ekki prófið. En ég vona að þið komist að raun um að ég hef staðist prófið. Ég bið til Guðs að þið gerið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti mitt heldur til þess að þið gerið hið góða. Ég gæti eins sýnst óhæfur. Því að ekki megna ég neitt gegn sannleikanum heldur með hjálp hans.

Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.“
En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“