15 mínútur af lífi okkar

Áttu korter spyr maður? Á maður korter eða á korterið mann?

Það fer náttúrulega eftir því hvað það er sem er að gerast á þessum 15 mínútum sem tíminn telur.

Tilvera mannsins er margbrotin og snúin og flókin. En samt virðumst við ekki vita af henni nema í gegnum atburði sem skekkja hana, snúa henni og flækja.

Líf manns getur gjörbreyst á fimmtán mínútum.

Þú verður ástfanginn og fimmtán mínútum seinna er tilveran allt önnur.
Þú missir ástvin og tilveran missir birtu sína.
Biturt andsvar gefið og heimur hugans verður myrkur.
Þú verður annar en þú varst.

Manneskjan er ráðgáta. Þú ert ráðgáta sem þér ber að leysa. Sá sem leggur ævina undir í leit að lausninni mun ekki hafa kastað lífi sínu á glæ. Þessa glímu þarft þú að glíma, því þú vilt standa undir því að vera maður.

Heilbrigð trú er slík glíma.
Heilbrigð trúarbrögð eru slík glímutök.
Og hvort tveggja verður í huga þínum. Og það er rétt, að við eigum að bera ábyrgð á hugsunum okkar því þær varða veruleikann, þær varða alla tilveru þína.

Og hvað gefur þú huga þínum margar mínútur á dag í að leitinni að sjálfum sér?

Að taka sér 15 mínútur hvern dag, til að opna hugann og hefja leiðina inn á við, þar sem þinn innri maður og þinn ytri maður mætast í helgunarferli er í okkur öll borið. Rétt eins og ástin. Rétt eins og kærleikurinn. Rétt eins og … að komast í snertingu við þinn innri huga og það sem er að baki öllu lífi.

Snertingu, sem umskapar huga þinn.
Snertingu, sem tekur hugann í sátt og endurlífgar kalinn huga.
Snertingu, sem gerir þig að manni.

Sr. Axel Á. Njarðvík

1 En þú, Guð, ert góður og sannur, þolinmóður og stjórnar öllu með miskunnsemi. 2 Þótt vér syndgum erum vér þínir því að vér þekkjum mátt þinn. En vér munum ekki syndga þar sem vér vitum að vér teljumst þín eign. 3 Að þekkja þig er fullkomið réttlæti, að þekkja mátt þinn upphaf ódauðleika.

1 Öldungurinn heilsar elskuðum Gajusi sem ég ann í sannleika.
2 Ég bið þess, minn elskaði, að þér vegni vel í öllu, þú sért heill heilsu og þér líði vel í sál og sinni. 3 Ég varð mjög glaður þegar bræður komu og greindu frá hve trúr þú ert sannleikanum og breytir eftir honum. 4 Ég hef enga meiri gleði en þá að heyra að börnin mín hlýði sannleikanum.

1 Eftir þetta birtist Jesús lærisveinunum aftur og þá við Tíberíasvatn. Hann birtist þannig: 2 Þeir voru saman: Símon Pétur, Tómas, kallaður tvíburi, Natanael frá Kana í Galíleu, Sebedeussynirnir og tveir enn af lærisveinum hans. 3 Símon Pétur segir við þá: „Ég fer að fiska.“
Þeir segja við hann: „Við komum líka með þér.“ Þeir fóru og stigu í bátinn. En þá nótt fengu þeir ekkert.
4 Þegar dagur rann stóð Jesús á ströndinni. Lærisveinarnir vissu samt ekki að það var Jesús. 5 Jesús segir við þá: „Drengir, hafið þið nokkurn fisk?“
Þeir svöruðu: „Nei.“
6 Hann sagði: „Kastið netinu hægra megin við bátinn og þið munuð verða varir.“ Þeir köstuðu og nú gátu þeir ekki dregið netið, svo mikill var fiskurinn. 7 Lærisveinninn, sem Jesús elskaði, segir við Pétur: „Þetta er Drottinn.“ Þegar Símon Pétur heyrði að það væri Drottinn brá hann yfir sig flík – hann var fáklæddur – og stökk út í vatnið. 8 En hinir lærisveinarnir komu á bátnum, enda voru þeir ekki lengra frá landi en svo sem tvö hundruð álnir, og drógu netið með fiskinum.
9 Þegar þeir stigu á land sáu þeir fisk lagðan á glóðir og brauð.
10 Jesús segir við þá: „Komið með nokkuð af fiskinum sem þið voruð að veiða.“
11 Símon Pétur fór í bátinn og dró netið á land, fullt af stórum fiskum, eitt hundrað fimmtíu og þremur. Og netið rifnaði ekki þótt þeir væru svo margir.
12 Jesús segir við þá: „Komið og matist.“ En enginn lærisveinanna dirfðist að spyrja hann: „Hver ert þú?“ Enda vissu þeir að það var Drottinn. 13 Jesús kemur og tekur brauðið og gefur þeim, svo og fiskinn. 14 Þetta var í þriðja sinn sem Jesús birtist lærisveinum sínum upp risinn frá dauðum.