Það er merkilegt að fylgjast með því hvað fólk virðist vera tilbúið til að gera, til að fá að stjórna, ná frama, komast á toppinn. Auðvitað er oft gott að hafa einhvern sem getur haldið utan um þræðina og stjórnað en ég er býsna hræddur um að stundum ráði hégóminn ferðinni.

Jesú talar aldrei eins og hann vilji vera í valdastöðu, setur sig aldrei yfir einn né neinn og hefur engan hug á að láta annað fólk sýna sér lotningu enda segir hann það vera aumasta hégóma en að sjálfsþekkingin sé það dýrmætasta. Guð mælir allt út frá hjörtum mannanna og hvað þýðir það, jú væntanlega að hann líti til þess hvernig við erum í kærleikanum, kærleikanum við okkur sjálf og gagnvart náunganum. Ekkert kallar eins vel fram í okkur það að vera kærleiksríkar manneskjur eins og að sinna náunganum, sinna þeim sem minna mega sín og eru jafnvel til hliðarsettir í samfélaginu. ´

Ég hef alltaf dáðst af fólki sem hefur farið út fyrir þægindaramma sinn til að þjóna öðru fólki í kærleika. Í guðspjalli dagsins segir eitthvað á þá leið að við ættum ekki að láta kalla okkur leiðtoga því það er bara einn leiðtogi og það er Kristur. Þau sem eru mest á meðal okkar séu þau sem þjóna. Það stendur líka í guðspjallinu að þau sem upphefji sjálf sig verði auðmýkt. Við horfum oft svo niður á fólk, án þess að gera okkur grein fyrir því af hverju fólk er statt þar sem það er statt. Við þekkjum ekki fortíð þess eða í gegnum hvað það hefur gengið. Við dæmum nefnilega annað fólk eftir sama mæli og við dæmum okkur sjálf. Og það er engin auðmýkt fólgin í því að dæma annað fólk.

Við fæðumst í heiminn sem lítil nakin börn og þannig förum við aftur í fyllingu tímans. Jesús þekkir okkur allt frá því við fæðumst og veit hver við erum í innsta kjarna okkar, hann sem fylgir okkur eftir og þjónar okkur í kærleika allt okkar líf.

Netprestur

Lofgjörðarlag dagsins er I surrender með Hillsong. Við gefum okkur að Guði og hann kemur til okkar og breytir okkur í kærleika. https://www.youtube.com/watch?v=s7jXASBWwwI

(Prestar, takið þetta til ykkar) Þá skuluð þið játa að ég hef skipað ykkur þetta svo að sáttmáli minn við Leví fengi staðist, segir Drottinn hersveitanna.
Sáttmáli minn var honum líf og heill, hvort tveggja gaf ég honum og guðsótta að auki. Hann átti að óttast mig og sýna nafni mínu lotningu. Sönn kenning var í munni hans og svik fundust ekki á vörum hans. Hann fylgdi mér í friði og heils hugar og sneri mörgum frá syndugu líferni Því að varir prestsins varðveita þekkingu og menn leita lögmálsfræðslu af munni hans því að hann er boðberi Drottins hersveitanna.

Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna: „Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear. Því skuluð þér gera og halda allt sem þeir segja yður en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara því þeir breyta ekki sem þeir bjóða. Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri. Öll sín verk gera þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum, láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum. En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara því einn er yðar meistari og þér öll bræður og systur. Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum. Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga því einn er leiðtogi yðar, Kristur. Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar. Hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða

Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama ykkar svo að þið hlýðnist girndum hans. Ljáið ekki heldur syndinni limi ykkar sem ranglætisvopn. Nei, ljáið heldur Guði sjálf ykkur lifnuð frá dauðum og limi ykkar sem réttlætisvopn. Synd skal ekki ríkja yfir ykkur þar eð þið eruð ekki undir lögmálinu heldur undir náðinni.