Þegar við segjum að einhver sé auðmjúkur meinum við það nær alltaf á jákvæðinn hátt. Það þykir nefnilega eftirsóknarvert að vera auðmjúkur þrátt fyrir að svo virðist sem ekki sé öllum einfalt að verða það. Auðmýkt telst nefnilega sem mannkostur, við kjósum að vera auðmjúk en erum það ekki frá náttúrunnar hendi. Þeir einstaklingar sem við teljum auðmjúka tengjum við t.d. helst við leiðtoga, þá sem láta e.t.v. lítið fyrir sér fara sem og þá sem líta ekki of stórt á sjálfan sig og hafa sig ekki í frammi til þess eins að hafa sig í frammi. Þá er einnig hægt að tengja auðmýkt við þá einstaklinga sem hafa ríkari þjónustulund, eru sveigjanlegri og samvinnuþýðari eða aðrir. Svo virðist vera að auðmýkt skapi traust, árangur, virðingu og samvinnu. Stundum er því haldið fram að auðmýkt og hugrekki séu systur en við skulum halda okkur við auðmýkt.

Að vera auðmjúkur er þó ekki hið sama og að láta vaða yfir sig, hvað þá á skítugum skóm. Það er nefnilega munur á því að vera auðmjúkur eða undirgefin þrátt fyrir að þetta séu skyld hugtök. Sá sem er auðmjúkur er nefnilega ekki bundinn öðrum svo fastlega sé tekið til orða. Svo getur maður verið auðmjúkur á ýmsan hátt og sýnt það með ýmsu móti: Gagnvart starfi sínu, öðru fólki, verkefnum, Guði og jafnvel hlutskipti. Það er ekkert rangt við að njóta heiðurs eða vera stolt en að upphefja sjálfan sig, sér í lagi á kostnað annarra, er ekki jákvætt og hlýtur því að teljast sem andstæða auðmýktar.

Jesús kennir auðmýkt. Ekki einungis í guðspjalli dagsins heldur nær alls staðar í öllum sögum og frásögum. Jesús sýnir með lífi sínu að mörgu er hægt að koma til leiðar fyrir auðmýkt. Ekki í eigin mætti, fantaskap eða yfirgang heldur auðmýkt.

Í hnotskurn er hægt að segja að auðmýkt kennir okkur að virða aðra öfugt við hroka. Því skulum við tileinka okkur auðmýkt líkt og Jesús kennir. Í auðmýkt verðum við virðingarmeiri einstaklingar, bæði gagnvart okkur sjálfum og öðrum en ekki síst Guði. Í auðmýkt auðveldum við líf okkar og komum náunga okkar frekar til hjálpar og upphafningar.

Séra Viðar Stefánsson

 

Lofgjörðarlag vikunnar er lagið I praise you in the storm með Casting Crown. Í textanum segir „ Ég lofa þig í stormi lífsins og lyfti höndum mínum upp til þín. Í sorgum mínum og erfðleikum heldur þú í hönd mína og stendur mér við hlið. Þrátt fyrir að hjarta mitt er brostið lofa ég þig í stormi lífsins. https://www.youtube.com/watch?v=MgpaULjZOl8

Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs?
Háttur hreinskilinna er að forðast illt,
líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar.
Dramb er falli næst,
hroki veit á hrun.
Betra er að vera hógvær með lítillátum
en deila feng með dramblátum.

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“
Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“
Þeir gátu engu svarað þessu.

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.