Fátt ef nokkuð er dýrmætara en að dvelja í núinu í bæn. Að fá að tala við Guð skapara sinn og frelsara og biðja um áfyllingu vonar, friðar og kærleika inn í líf sitt og annarra.

Það að biðja Guð um náð og miskunn er ekki merki um vanmátt eða veikleika heldur auðmýkt sem okkur er svo nauðsynlegt og hollt að gangast við og gagnast okkur best á ævinnar göngu. Þangað er nefnilega styrkinn að sækja sem við flest ef ekki öll þörfnumst og þráum, meðvitað og ómeðvitað.

Bænin eykur meðvitund
Um leið og bænin skerpir á núvitund þá gerir hún okkur meðvitaðri um okkur sjálf, samferðafólk okkar og umhverfi. Hún fær okkur til að átta okkur á hver við erum og hvert við viljum raunverulega stefna.

Ekki veit ég svo sem nákvæmlega hvernig bænin virkar en ég veit þó það að mér finnst ómetanlega gott að fá að dvelja í henni og þannig meðtaka friðinn sem henni fylgir.

Bænin er æfing í trú, von og kærleika
Bænin er hluti af frumþörf mannsins. Dýrmætur arfur, menning, boð um að þiggja það að lifa í tengingu við höfund og fullkomnara lífsins. Bænin er æfing í trú og trausti, von og kærleika. Við nemum staðar, kyrrð kemst á hugann, hjartað opnast, við sleppum takinu og gerumst einlæg og heiðarleg um stund.

Bænin er kvíðastillandi
Bænin er kvíðastillandi og streitulosandi. Hún skerpir einbeitingu og veitir huganum ró. Kafað er inn í innsta kjarna, hugsanir lagðar á borð. Áhyggjur og þrár, væntingar, framtíð og líf, lagt á herðar og altari Jesú Krists, sem vill bera þær með okkur, leiða okkur og hjálpa okkur að finna lausnir hverju sinni.
Við stingum á kýlum, áhyggjurnar taka að líða á braut og friðurinn flæðir inn. Frelsarinn okkar, Jesús Kristur, hvatti okkur til að taka okkur tíma til að biðja og vera reyndar stöðugt á bæn og halda þannig vöku okkar.

Bænin mýkir hjartað
Bænin mýkir hjartað og auðveldar ævigönguna. Hún stillir okkur af svo markmið okkar verða skýrari. Við tökum að sjá Guð, samferðamenn okkar, umhverfið allt og okkur sjálf í nýju ljósi.
Bænin styrkir fjölskyldubönd, samkennd og virðing vex, umburðarlyndið eykst og umhyggjan dýpkar. Bænin er góð forvörn og besta áfallahjálpin.

Hún er sem græðandi smyrsl. Hún líknar og læknar, laðar og leiðir, uppörvar og hvetur. Hún er ekki spurning um orðalag heldur hjartalag.

Andardráttur lífsins
Bænin er andardráttur lífsins, allt það súrefni sem þarf til þess að komast af. Í bæninni drögum við að okkur kærleikann og fyrirgefninguna og þann frið sem enginn getur gefið annar en Jesús Kristur. Frið sem er æðri öllum skilningi og enginn og ekkert megnar frá okkur að taka. Frið sem sprottinn er af ást Guðs. Með bæninni upplifum við fegurð lífsins.

Núið og eilífðin
Um leið og bænin skerpir á núvitund færir hún okkur von og eilífa lífssýn. Málið er nefnilega að lifa í núinu og njóta þess í ljósi eilífðarinnar. Því að ég er þess fullviss að ævinnar bestu stundir, dýrmætustu augnablik, fegurstu draumar og ljúfustu þrár, séu rétt eins og forsmekkurinn, aðeins sem forrétturinn að þeirri himnesku veislu sem lífið raunverulega er og dýrð eilífðarinnar mun hafa upp á að bjóða.

Með vonarríkri kærleiks- og friðarkveðju og í bæn til höfundar og fullkomnara lífsins leyfi ég mér því í auðmýkt að segja.

Lifi lífið!

Eftir Sigurbjörn Þorkelsson
Sigurbjörn Þorkelsson er ljóðskáld og rithöfundur og aðdáandi lífsins.

Og þar sem nú stendur yfir mesta ferðahelgi ársins læt ég hér fylgja eftirfarandi bæn:

Bæn fyrir fólki á ferðalögum
Eftir Sigurbjörn Þorkelsson

Umhyggjusami og umvefjandi Guð, frelsari og eilífi lífgjafi!
Blessaðu öll þau sem ferðast um landið okkar í sumar. Gef að þau fái notið náttúrunnar, hins óviðjafnanlega landslags, fegurðar sköpunar þinnar. Forðaðu þeim sem ferðast um landið okkar frá öllu illu, hættum, slysum og tjóni. Hjálpaðu okkur að reynast góðir gestgjafar og minntu ferðamennina og okkur öll á að sýna ábyrgð og tillitssemi og leið þau heil heim með dýrmætar minningar í farteskinu.
Blessaðu einnig þau okkar sem takast á hendur ferðalög til fjarlægra landa. Forðaðu okkur einnig frá slysum, hættum og öllu illu. Frá hverskyns háska eða tjóni. Gefðu að ferðalagið gangi vel og samkvæmt áætlun. Gef að við fáum að upplifa eitthvað nýtt og spennandi og getum um leið notið áningar og friðar með góðum ferðafélögum og í þakklæti til þín sem skapar, græðir, nærir og gefur líf. Í þakklæti til þín sem vilt að við njótum þess besta sem þú hefur skapað og gefið og lífið hefur upp á að bjóða.
Hjálpaðu okkur öllum að minnast ábyrgðar okkar gagnvart náunganum og náttúrunni hvar sem við erum og hvert sem við förum. Minntu okkur á sýna aðgát og tillitssemi í umferðinni og í samskiptum öllum. Vera umburðarlynd og kurteis og sýna þeim virðingu sem á vegi okkar verða og veita þeim aðstoð og stuðning sem á þurfa að halda.
Gefðu að ferðin og fríið verði skemmtilegt og skilji eftir bjartar og góðar minningar. Hjálpaðu okkur að njóta eðlilegra samvista í faðmi fjölskyldu, vina eða kunningja og gef við eignumst jafnvel nýja kunningja og vini. Hjálpaðu okkur að hafa augun opin fyrir eigin velferð og náungans og koma þeim til hjálpar sem hjálpar er þurfi. Leiddu okkur svo öll heil og sæl heim að nýju.
Þess biðjum við þig, náðugi og miskunnsami Guð. Þig sem ert höfundur lífsins og einn ert fær um að viðhalda því um eilífð.
Í Jesú nafni. Amen.

Friðarkveðja

Láttu friðinn úr hjarta þínu spretta sem ilmandi blóm svo hann verði að angan sem smýgur og fyllir loftið af kærleika.

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Farðu nú niður í hús leirkerasmiðsins. Þar mun ég láta þig heyra orð mín.
Ég gekk því niður til húss leirkerasmiðsins einmitt þegar hann var að vinna við hjólið. Mistækist kerið, sem hann var að móta úr leirnum, bjó hann til nýtt ker eftir því sem honum sýndist best.
Þá kom orð Drottins til mín: Get ég ekki farið með yður, Ísraelsmenn, eins og þessi leirkerasmiður gerir? segir Drottinn. Þér eruð í hendi minni, Ísraelsmenn, eins og leirinn í hendi leirkerasmiðsins.
Stundum hóta ég einhverri þjóð eða konungsríki að uppræta það, brjóta það niður eða eyða því. En hverfi þessi þjóð, sem ég hef hótað, frá illri breytni sinni iðrast ég þeirrar ógæfu sem ég hafði ákveðið að senda yfir hana.
Stundum heiti ég einhverri þjóð eða konungsríki að endurreisa það eða gróðursetja en geri hún það sem illt er í augum mínum án þess að hlýða boðum mínum iðrast ég hins góða sem ég hafði heitið að gera henni.

Ég tala sannleika í Kristi, ég lýg ekki, samviska mín, upplýst af heilögum anda, vitnar það með mér að ég hef mikla hryggð og sífellda kvöl í hjarta mínu og gæti óskað að mér væri sjálfum útskúfað frá Kristi ef það yrði til heilla fyrir bræður mína og ættmenn, Ísraelsmenn. Þeir eiga frumburðarréttinn, dýrðina, sáttmálana,
löggjöfina, helgihaldið og fyrirheitin. Þeirra eru ættfeðurnir og af þeim er Kristur kominn sem maður, hann sem er yfir öllu, Guð, blessaður að eilífu. Amen.

Og er Jesús kom nær og sá borgina grét hann yfir henni og sagði: „Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum. Því að þeir dagar munu koma yfir þig að óvinir þínir munu gera virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu. Þeir munu leggja þig að velli og börn þín sem í þér eru og ekki láta standa stein yfir steini í þér vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma.“

Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja og mælti við þá: „Ritað er:
Hús mitt á að vera bænahús
en þér hafið gert það að ræningjabæli.“
Daglega var hann að kenna í helgidóminum en æðstu prestarnir og fræðimennirnir, svo og fyrirmenn þjóðarinnar, leituðust við að ráða hann af dögum en fundu eigi hvað gera skyldi því að allt fólkið vildi ákaft hlýða á hann.