Í texta dagsins er fjallað um ráðsmannshlutverkið, í samtímanum þegar við stöndum frammi fyrir mikilli umhverfisvá og ógnun af þeim sökum er þetta hugtak og vangaveltan um það hvernig við förum með eignir annarra mikilvægt.

Við búum ekki ein hér á jörð, og vissulega er það þannig að þó manninum sé búin ógn af lofslagsbreytingum þá á það alls ekki við allar tegundir sköpunarverksins. Veðrið hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, á norðuslóð t.d. hér á sunnan- og vestanverðu Íslandi hefur verið kalt sumar og votviðrasamt og hefur veðurlagið haft áhrif á það hvernig við njótum sumarsins. Á sama tíma hefur verið mikill hiti á mínum gömlu heimaslóðum í Þrændalögum og í allri Skandínavíu og hafa þurrkar, sólskin og hiti verið viðvarandi allt frá því í sumarbyrjun. Alls kyns kvikindi sem lifna við í heitu loftslagi hafa látið verulega á sér kræla og verið til mikilla óþæginda, skógareldar sem eyra engu hafa logað í Svíþjóð og reyndar víðar með hræðilegum afleiðingum. Veðurkerfin eru að bregðast við hnattrænni hlýnun, við þekkjum ekki áhrifin til hlýtar en erum byrjuð að upplifa þau.

Sköpunarverkið er hrjáð en við höfum mestar áhyggjur af því hvort við fáum sól og gott veður til að geta lagst í sólbað, eða hvað? Getur verið að við mannfólkið upplifum það að hamingjan og tilgangurinn með lífinu felist í því að eignast sem mest og njóta sem best í augnablikinu án þess að gera okkur far um að hugsa um stóru myndina sem blasir við okkur. Getur verið að hugsun okkar snúist fyrst og fremst um okkur sjálf eða eins og Jesús sagði: Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera (Mat 6:21). Það er ekkert rangt við það að ,,hafa það gott“ en ef eftirsóknin eftir því án þess að taka nokkurt tillit til komandi kynslóða er það sem hvílir á hjarta okkar þá væri kannski rétt að við skoðuðum okkar gang og veltum því fyrir okkur hvar hin sanna auðlegð liggur.

Ef við mannfólkið tökum okkur til og setjum náttúruna og raunverulega hamingju í forgang þá munum við líklega eyða minna en við öflum sem gefur okkur líka frelsi og svigrúm. Svigrúm til að geta fylgt eftir draumum okkar, verndað náttúruna betur, svigrúm til að sinna og hafa tíma fyrir fólk, en umfram allt svigrúm til að njóta lífsins og sköpunarverksins.

Allt sköpunarverk Guðs þráir nefnilega betri tíð með blóm í haga, við viljum sannarlega fá að njóta þess að sjá liljur vallarins og fugla himinsins. Fá líf sem færir okkur fyrirheit um eitthvað betra, líf án ótta um sjúkdóma, hungur og sorg.

Í loftslagskreppunni sem nú ríkir og leiðir virkilega til þjáninga og hungurs hjá milljónum manna getum við fremur en nokkru sinni fyrr séð og skynjað þjáningu náttúrunnar. Ég velti því stundum fyrir mér hvernig við launum skaparanum og sköpunarverki hans fyrir að fæða okkur og klæða. Ráðsmannshlutverkið hefur alltaf falist í því í mínum huga að ef maður fengi eitthvað lánað þá væri lágmark að skila því aftur í sama ástandi og það var þegar maður fékk það, en helst í betra standi en áður væri þess nokkur kostur. Svona vil ég sjá okkur ganga um náttúruna og umhverfi okkar, ég trúi því að við séum bara með þessar stórfenglegu auðlyndir að láni og það sé okkar skylda að hugsa vel um þær og skila þeim af okkur í betra ástandi en þær voru þegar við fengum þær til umráða.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Sonur minn, ef þú hlýðir orðum mínum
og geymir boðorð mín hjá þér, veitir spekinni athygli þína
og hneigir hjarta þitt að hyggindum,
já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,
ef þú leitar að þeim eins og silfri
og grefur eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
þá mun þér lærast að óttast Drottin
og veitast þekking á Guði.
Drottinn veitir speki,
af munni hans kemur þekking og hyggindi.

Ég þakka honum sem mig styrkan gerði, Kristi Jesú, Drottni vorum, fyrir það að hann sýndi mér það traust að fela mér þjónustu, mér sem fyrrum lastmælti honum, ofsótti hann og smánaði. En mér var miskunnað, sökum þess að ég trúði ekki og vissi ekki hvað ég gerði, og náðin Drottins vors varð stórlega rík með trúnni og kærleikanum sem veitist í Kristi Jesú.

Það orð er satt, og í alla staði þess vert að við því sé tekið, að Kristur Jesús kom í heiminn til að frelsa synduga menn og er ég þar fremstur í flokki. En Guð miskunnaði mér til þess að ég yrði fyrstur þeirra sem Kristur Jesús sýnir allt sitt mikla langlyndi og þar með yrði ég dæmi handa þeim sem á hann munu trúa til eilífs lífs.

Konungi eilífðar, ódauðlegum, ósýnilegum, einum Guði sé heiður og dýrð um aldir alda. Amen.

Enn sagði Jesús við lærisveina sína: „Maður nokkur ríkur hafði ráðsmann og var honum sagt að ráðsmaðurinn sóaði eigum hans. Ríki maðurinn lét kalla ráðsmanninn fyrir sig og sagði við hann: Hvað er þetta er ég heyri um þig? Gerðu grein fyrir störfum þínum því að þú getur ekki verið ráðsmaður lengur. Ráðsmaðurinn sagði þá við sjálfan sig: Hvað á ég að gera fyrst húsbóndi minn sviptir mig ráðsmennskunni? Ekki orka ég að grafa og skömm þykir mér að betla. Nú sé ég hvað ég geri til þess að menn taki við mér í hús sín þegar ég verð sviptur ráðsmennskunni.

Hann kallaði nú á skuldunauta húsbónda síns, hvern og einn. Við þann fyrsta sagði hann: Hve mikið skuldar þú húsbónda mínum? Hann svaraði: Hundrað kvartil viðsmjörs. Hann mælti þá við hann: Tak skuldabréf þitt, set þig niður og skrifa sem skjótast fimmtíu. Síðan sagði hann við annan: En hvað skuldar þú? Hann svaraði: Hundrað tunnur hveitis. Og hann sagði honum: Tak þú skuldabréf þitt og skrifa áttatíu.

Og húsbóndinn hrósaði svikula ráðsmanninum fyrir að hafa breytt kænlega. Því að börn þessa heims eru kænni í skiptum við sína kynslóð en börn ljóssins.

Og ég segi ykkur: Notið hinn rangláta mammón til þess að eignast vini sem taki við ykkur í eilífar tjaldbúðir þegar hann er uppurinn.