Biblían er útbreiddasta bók veraldar.  Engin bók hefur verið þýdd á jafn mörg tungumál og Biblían.  Orðið Biblía er fleirtölumynd af gríska orðinu Biblios sem merkir bók þannig að orðið Biblía merkir bækur eða bókasafn.  Það eru orð að sönnu því Biblían skiptist í 66 bækur eða rit.  39 tilheyra Gamla testamentinu og 27 tilheyra Nýja testamentinu.  Ritin eru skrifuð á u.þ.b. 1500 ára tímabili.  Gróf flokkun á ritum Gamla testamentisins er á þá leið að í því er að finna sögurit, spekirit, spámannarit og sálma.  Nýja testamentið hefur að geyma guðspjöllin, postulasöguna, bréf til hinna ýmsu safnaða og einstaklinga og opinberunarrit.

 

Sagnfærði eða náttúrufræði? – Jóh. 20:30-31

 

30 Jesús gerði einnig mörg önnur tákn í augsýn lærisveina sinna sem eigi eru skráð á þessa bók. 31 En þetta er ritað til þess að þið trúið að Jesús sé Kristur, sonur Guðs, og að þið í trúnni eigið líf í hans nafni.

 

Biblían er hvorki skrifuð sem sagnfræðirit né náttúrufræðirit.  Biblían hefur að geyma vitnisburð manna sem upplifðu Guð að störfum, manna sem leituðu Guðs og treystu honum og lofuðu hann.  Vissulega er margt sögulegt í Biblíunni.  Fólk, staðir og atburðir sem lýst er eiga sér stoð í raunveruleikanum.  Við þurfum að vita að Biblían er rituð við allt aðrar aðstæður en við þekkjum í dag.  Hugsun fólks var talsvert öðruvísi og eru víða dæmi um það. Það rýrir þó engan vegin boðskapinn.  Í tilvísuninni í Jóhannesarguðspjall hér að ofan er eiginlega komið inn á tilganginn með guðspjallinu.  Það er ritað til að við trúum að Jesús sé Kristur (en Kristur merkir konungurinn eða hinn smurði), sonur Guðs og að við eigum í trúnni líf í hans nafni.

 

Rauði þráðurinn – Jóh. 3:16

 

16 Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf.

 

Greina má rauðan þráð í gegnum alla Biblíuna.  Hann er í stuttu máli sá að: Guð elskar mennina, mennirnir snúa baki við Guði, Guð tekur mennina aftur að sér, mennirnir bregðast, Guð fyrirgefur, Guð gefur fyrirheit um frelsarann, Guð kemur í heiminn í Jesú Kristi, mennirnir hafna honum, Guð fyrirgefur og tekur okkur til eilífs samfélags við sig, Kristur mun koma aftur.

 

Orð Guðs – Hebr. 4:12

 

12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

 

Biblían er sannarlega innblásin af anda Guðs.  Guð talar til okkar í gegnum orð sitt.  Það gerist þó á mismunandi vegu.  Það sem einn upplifir sem orð töluð beint til sín og inn í sínar aðstæður upplifir annar e.t.v. sem einfalda frásögn sem snertir lítt við honum.

 

Biblían er allrar athygli verð.  Víða er hægt að lesa hana á netinu s.s. á biblian.is sem er heimasíða Hins íslenska Biblíufélags.

 

Láttu það ekki stoppa þig þótt margt sé torskilið.  Tilvalið er að byrja á því að lesa eitthvað guðspjall til að fá yfirsýn yfir líf og starf Jesú.  Njótið kæru lesendur og verið Guði falin.

 

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum

sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði.
Þeir sem fóru um hafið á skipum
og ráku verslun á hinum miklu höfum
sáu verk Drottins
og dásemdarverk hans á djúpinu.
Því að hann bauð og þá kom stormviðri
sem hóf upp öldur hafsins.
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
og þeim féllst hugur í háskanum.
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
Hann breytti storminum í blíðan blæ
og öldur hafsins lægði.
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,

Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af.
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“