Predikun á Biblíudaginn Flutt í Grensáskirkju 24. febrúar 2019 – Birt á netkirkja.is 24. febrúar 2019

Ég heilsa ykkur með orðum postulans. Náð sé með ykkur og friður.

Í dag er Biblíudagurinn, þá er sjónarhorni kirkjunnar beint að Biblíunni. Margir spyrja sig, bíddu eru ekki allir dagar í kirkjunni Biblíudagar?
En í dag beinum við sjónum okkar að bókinni sjálfri svona aðeins meira en vanalega og að Biblíufélaginu.
Mig langar einmitt að segja ykkur frá því að Hið íslenska Biblíufélag mun fljótlega hefjast handa við að hljóðrita Nýja testamentið svo hægt verði að hlusta á það í snjallsímum. Fengnir hafa verið færir leikarar til að lesa 27 bækur Nýja-testamentisins inn. Til þess að þetta verkefni geti orðið að veruleika þá hefur Biblíufélagið hafið söfnun á Karolinafund.

En er mikilvægt að geta hlustað í Biblíuna eins og hljóðbók, hvað finnst ykkur?
Í dag er að minnsta kosti dagurinn til þess að velta því fyrir sér. Velta fyrir sér hvaða erindi Biblían hefur fyrir okkar líf hér og nú. Ég er gjarnan spurð, hvað segir Biblían um þetta eða hitt? Hvað segir Biblían um hjónabandið, er það bara fyrir karl og konu eða geta tveir karlar gift sig eða tvær konur? Hvað segir hún um sköpun heimsins, er sköpunarkenningin ekki úrelt? Hvað segir hún um hlutverk konunnar?
Svarið við þessum spurningum er ekki eitt og ekki einfalt. Af því að Biblían hefur ekki eitthvað eitt svar eða einn boðskap. Hún er sko alls ekki einföld. Bibilían er safn bóka, hún hefur að geyma fjölda rita, sem rituð voru á löngum tíma af ýmsum höfundum.

Rit Biblíunnar eru ólík að formi og innihaldi. Þarna eru ættartölur og lagatextar, ástarljóð, dæmisögur og líkingar, spádómar og opinberanir, predikanir og sögulegar frásagnir. Hún er safn 66 bóka og enn fleiri höfunda af því að mörg rit hennar eru verk nokkura kynslóða. Vegna þess að Biblían inniheldur svona mörg rit sem til urðu á ólíkum tímum og í ólíkum menningarheimum hefur hún ekki að geyma eina einhliða guðfræði. En það var fólk sem tók hana saman og ákvað einhverra hluta vegna, jú þetta rit á heima hér, það hafði sem sagt ákveðin viðmið. Ef til vill var eitt viðmiðið að ritið fjallaði um samband Guðs og manns.

Hvort sem það voru Ljóðaljóðin, Jobsbók, Sálmarnir, Lúkasarguðspjall eða Opinberunnarbókin. Allt eru þetta mismunandi bókmenntir sem fjalla um samband Guðs og manns. Það eru til ólíkar leiðir til þess að lesa texta biblíunnar. Það er hægt að lesa hana og skilja með bókstaflegum hætti, með góðum vilja allavega. Bara svona var þetta, punktur. En þá lesum við Biblíuna sem einhverskonar sagnfræði. Það er hægt að lesa frásagnir hennar sem líkingar, sögur sem ef til vill eru að segja okkur eitthvað annað en akkúrat það sem stendur þarna bókstaflega, að höfundurinn sé að miðla einhverju til okkar en segi það ekki berum orðum. Miðla trú og miðla boðskap.

Þá er líka gaglegt að spá í það í hvaða samhengi textinn varð til, hvers vegna var hann skrifaður, fyrir hvaða fólk og í hvaða samfélagi. Hvaða vandamál var þetta fólk að glíma við og hver var boðskapur textans fyrir þau. Það skiptir máli hvernig textar Biblíunnar eru settir fram og hvernig þeir eru túlkaðir. Í menningu okkar sem sögulega er kristin eru gildi hennar og norm gjarnan komin frá túlkun Biblíunnar. Þessi norm og gildi tilheyra öllu samfélaginu, en ekki bara kirkjunni. Þess vegna þjónar túlkun Biblíunnar ekki bara kirkjunni heldur einnig hinu veraldlega samfélagi.

Séra Nancy Wilson prestur í Washington í Bandaríkjunum segir að Biblíunni þurfi að fylgja viðvörunar stimpill. Hún segir: ,,Þó svo að Biblían sé rík af efni sem hægt er að sækja til í gleði og sorg þá eru þar líka sprengjusvæði. Það er stundum erfitt að álasa þeim sem telja Biblíuna í besta falli hafi ekkert við það að segja og í versta falli vera of dómharða og fjandsamlega. Of karllæg og kúgandi túlkun hefur fælandi áhrif.” Þrátt fyrir þetta telur hún að það myndi gagnast flestum að þekkja Biblíuna, jafnvel fólki sem er lítið eða ekkert er trúað. Hún hefur ennþá áhrif inn í daglegt líf okkar og er gjarnan það sem leitað er til þegar svara þarf siðferðilegum álitamálum.

Hefðbundin túlkun Biblíunnar litar ennþá hugmyndir alþýðu fólks um Guð og þessar hugmyndir hafa áhrif inn í stjórnmál, menntun, sambönd fólks, viðhorf og gildi í menningu okkar. En Biblían er ekki sagnfræði eða náttúruvísindi. Ef við lesum biblíuna bókstaflega þá lesum við til dæmis að heimurinn hafi verið skapaður á sjö dögum, við fáum reyndar tvær sköpunnarsögur í upphafi Biblíunnar, sú fyrsta segir frá sköpun alls heimsins á sjö dögum og því hvernig Guð skapaði karl og konu á sama tíma en sú síðari sem er mun eldri og segir frá sköpun mannsins, dýranna og svo konunnar. Það er því erfitt að skilja þessar sögur bókstaflega þar sem þær eru tvær og ólíkar.

En með vilja er allt hægt og í bandaríska skólakerfinu er sú heimsmynd sums staðar kennd að sköpunarsagan sé vísindi og miklihvellur hafi ekki orðið. Sem betur fer er okkar skólakerfi ekki þannig og íslensk kirkja boðar ekki slíka bókstafstrú. Sköpunarsagan er miklu frekar óður til sköpunarinnar í vissu um að hún sé góð. Að Guð sé þess megnugur að koma á reglu á óreiðu heimsins. Önnur afleiðing bókstaflegs skilnings sköpunarsögunnar hefur verið að konan eigi að þjóna karlmanninum af því að hún sé sköpuð úr rifi hans. Aftur þarf góðann vilja til þess að skilja Biblíuna þannig því fyrri sköpunnarsagan segir ,,Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd. Hann skapaði hann eftir Guðs mynd. Hann skapaði þau karl og konu.“

Boðskapur sköpunarsögunnar er að við mennirnir erum sköpuð í Guðs mynd, allar manneskjur eru óendanlega dýrmætar. Hvað það þýðir, að við mannfólkið séum sköpuð í Guðs mynd hefur svo verið túlkað á mismunandi hátt. Til dæmis að við séum samverkafólk Guðs á jörðu, að við tökum þátt í sköpun heimsins sem ennþá er ekki fullkláruð. Við höfum mátt til að skapa, ekki endilega líf úr engu, en við höfum skapað lyf sem lækna sjúkdóma, reist byggingar sem fegra umhverfi okkar og veita skjól, skapað ótrúleg listaverk sem gleðja og gefa von. En við höfum líka kraft til að meiða.

Ef við ættum að setja undirtitil við Biblíuna eða texta um hana í bókatíðindi fyrir jól myndi kannski standa; Biblían, orð Guðs, bók um samband Guðs og manns. Varúð, túlkið af varfærni.

Í guðspjallstexta dagsins segir Jesús dæmisögu af sáðmanni sem sáir sæði í jörðu. Fræin falla innan um illgresi en ná samt að dafna. Jesús útskýrir dæmisöguna fyrir lærisveinum sínum, „Sá er sáir góða sæðinu er Mannssonurinn, akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins en illgresið börn hins vonda. Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar.” Það er sem sagt við endi veraldar sem dæmt verður hverjir eru börn ríkisins, það er að segja börn Guðs og hverjir börn hins vonda. Það er hlutverk engla Guðs að skera kornið. Það er að segja, skera úr um það hverjir tilheyra Guðs ríki og hverjir ekki. Það er ekki okkar að dæma. Það er ekki okkar að nota Guðs orð til þess að dæma aðra. Við eigum ekki að nota það til þess að réttlæta mismunun kynjanna. Við eigum heldur ekki að nota það til þess að mismuna fólki eftir kynhneigð eða kynverund. Það er ekki einu sinni okkar að dæma um það hvort trú fólks sé rétt.

Jesús segir okkur að breiða út ríki sitt með því að skíra og kenna. Breiða út orð Guðs, segja frá því hvernig samband okkar við kærleiksríkan Guð hefur haft jákvæð áhrif á líf okkar. Hvetja fólk til þess að lesa Biblíuna og koma í kirkju og svo getum við vonandi bráðum hlustað á hana í símanum. En hættum að túlka orð Guðs þannig að það meiði eða útiloki. Það samræmist ekki boðkap hans sem er Drottinn allra, fullríkur fyrir öll þau sem ákalla nafn hans. Opnum hjörtu okkar fyrir kærleikanum og fyrir því að við erum öll sköpuð í mynd Guðs. Látum okkur annt um náungann og tökum opnum örmum fjölbreytileika lífsins.

Kærleikurinn, elskan til hvers annars er það sem skiptir máli. Elskan er mikilvægust, stærst og lykillinn að þessu öllu. Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Amen

Sr. Eva Björk Valdimarsdóttir

Hversu yndislegir eru bústaðir þínir, Drottinn hersveitanna. 3Sálu mína langaði til, já, hún þráði forgarða Drottins, nú fagnar hjarta mitt og hold fyrir hinum lifanda Guði. 4Jafnvel fuglinn hefur fundið hús og svalan á sér hreiður þar sem hún leggur unga sína: ölturu þín, Drottinn hersveitanna, konungur minn og Guð minn. 5Sælir eru þeir sem búa í húsi þínu, þeir munu ætíð lofa þig. (Sela) 6Sælir eru þeir menn sem finna styrk hjá þér er þeir hugsa til helgigöngu. 7Er þeir fara um táradalinn breyta þeir honum í vatnsríka vin og haustregnið færir honum blessun. 8Þeim eykst æ kraftur á göngunni og fá að líta Guð á Síon.

24 Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er um himnaríki og mann er sáði góðu sæði í akur sinn. 25 En er menn voru í svefni kom óvinur hans, sáði illgresi meðal hveitisins og fór síðan. 26 Þegar sæðið spratt upp og tók að bera ávöxt kom illgresið og í ljós. 27 Þá komu þjónar húsbóndans til hans og sögðu við hann: Herra, sáðir þú ekki góðu sæði í akur þinn? Hvaðan kemur illgresið? 28 Hann svaraði þeim: Þetta hefur einhver óvinur gert. Þjónarnir sögðu við hann: Viltu að við förum og reytum það? 29 Hann sagði: Nei, með því að tína illgresið gætuð þið slitið upp hveitið um leið. 30 Látið hvort tveggja vaxa saman fram að kornskurði. Þegar komin er kornskurðartíð mun ég segja við kornskurðarmenn: Safnið fyrst illgresinu og bindið í bundin til að brenna því en hirðið hveitið í hlöðu mína.“

Líkt mustarðskorni

31 Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er himnaríki mustarðskorni sem maður tók og sáði í akur sinn. 32Smæst er það allra sáðkorna en nær það vex er það öllum jurtum meira, það verður tré, og fuglar himins koma og hreiðra sig í greinum þess.“

Líkt súrdeigi

33 Aðra dæmisögu sagði Jesús þeim: „Líkt er himnaríki súrdeigi er kona tók og fól í þrem mælum mjöls uns það sýrðist allt.“

34 Þetta allt talaði Jesús í dæmisögum til fólksins og án dæmisagna talaði hann ekki til þess. 35 Það átti að rætast sem Guð lét spámanninn segja: Ég mun tala í dæmisögum og boða það sem hulið var frá sköpun heims.

Jesús skýrir

36 Þá skildi Jesús við mannfjöldann og fór inn. Lærisveinar hans komu til hans og sögðu: „Skýrðu fyrir okkur dæmisöguna um illgresið á akrinum.“ 37 Hann mælti: „Sá er sáir góða sæðinu er Mannssonurinn, 38 akurinn er heimurinn, góða sæðið merkir börn ríkisins en illgresið börn hins vonda. 39 Óvinurinn, sem sáði því, er djöfullinn. Kornskurðurinn er endir veraldar og kornskurðarmennirnir englar. 40 Eins og illgresinu er safnað og brennt í eldi, þannig verður við endi veraldar. 41Mannssonurinn mun senda engla sína og þeir munu nema brott úr ríki hans allt sem leiðir í villu og alla er illt fremja 42 og kasta þeim í eldsofninn. Þar verður grátur og gnístran tanna. 43 Þá munu þau sem hlýtt hafa Guði skína sem sól í ríki föður þeirra. Hver sem eyru hefur hann heyri.“