Texti fullveldisdagsins er sterkur og geymir kjarnasetningar kristindómsins. Þar koma  meðal annars fram þessi miklu orð sem kölluð hafa verið hin gullna regla.

Að þessu sinni ber þessi dagur upp á fyrsta sunnudag í aðventu. Á þeim degi hefst nýtt kirkjuár að skilningi kirkjunnar. Einhverju er lokið, það hefur hlotið sinn dóm ef svo má segja en nú er horft fram á veginn og því fagnað að enn sé lagt upp í nýja ferð.

Íslenska þjóðin fagnaði miklum áfanga á þessum degi fyrir hundrað og einu ári. Löng  og ströng en samt friðsöm barátta að baki. Það var vegist á með orðum og rökum og skynsemi. Valdhafarnir þekktu sjálfir orð og rök og skynsemi og því var ekki skellt skolleyrum og látið blika á stál eða jafnvel blóð látið renna, líkt og þekkst hefur fram á þennan dag við svipaðar aðstæður.

Samt var lítið um fagnaðarlæti þennan dag, margt var þjóðinni mótdrægt, fimbulvetur með grimmdarfrostum, eldgos í Kötlu, banvæn pest fór um landið og felldi af velli, í hundraðatali, ungt og hraust fólk, einkum í höfuðstaðnum.

Biðjið og yður mun gefast en hvað mun gefast? Til er máltæki sem bendir mönnum á það að vanda sig þegar beðið er um eitthvað. Flest þekkjum við sögur og ævintýri þar sem fólk fær að launum fyrir einhvern greiða kannski þrjár óskir. Lærdómur slíkra sagna er jafnan sá að staða þeirra sem fá þetta gullna tækifæri er oft verri, í besta falli jafn góð og hún var áður en óskirnar veittust.

Við erum mörg sem erum trúarlega leitandi og biðjum til Guðs og jafnvel knýjum dyra víða. En hvað er það sem við finnum? Víst er um það að þegar leit stendur yfir þá kemur oft eitt og annað í ljós, sem jafnvel hefur lengi verið týnt en var þó alls ekki það sem leitað var að.

Við þekkjum hið fræga sagnaminni sem víða er  notað í fornum sögnum og nýjum um sögupersónu sem fer út í heim að leita einhvers sem skiptir máli, kemur að lokum ferðlúinn heim og kemst þá að því að það sem hann leitaði svo ákaft að var alla tíð að finna heima, þar sem lagt hafði verið af stað. Samt er ekki þar með sagt að leitin hafi verið til einskis því án ferðarinnar og alls þess sem á vegi varð hefði hin dýrmæta perla aldrei fundist í húsagarðinum heima.

Flest þekkja það að finnast Drottinn bregðast dauflega við bænum sínum, en þá skulum við skoða þennan texta í heild. Hví skyldi Guð ekki gefa góðar gjafir fyrst við sem alls ekki erum fullkomin og jafnvel vond viljum samt gleðja börnin okkar. Börnin eru ekki alltaf sátt við greiðasemi foreldra sinna og finnst þau alls ekki koma til móts við það sem þau helst vildu.

Lokaorðin hin gullna regla bendir okkur á mikilvægi þess að geta sett okkur í spor annarra og það sem meira er þau hvetja okkur til athafna ekki hiks og aðgerðar leysis þau segja ekki. Ekki gera öðrum það sem þeir vilja ekki láta gera sér. Nei þau segja okkur að gera, vinna framkvæma, láta gott af okkur leiða. Því það er með því að gefa, að vinna, að hjálpa, að styðja, að hugga  sem  okkur mun veitast, við munum finna og dyr munu ljúkast upp fyrir okkur.

Megi aðventan verða gagnlegur tími íhugunar og undirbúnings. Í Jesú nafni amen.

Séra Eiríkur Jóhannsson

Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.

Nú er okkur hjálpræðið nær en þá er við tókum trú. Liðið er á nóttina og dagurinn í nánd. Leggjum því af verk myrkursins og klæðumst hertygjum ljóssins. Lifum svo að sæmd sé að, því nú er dagur kominn, en hvorki í ofáti né ofdrykkju, hvorki saurlífi né svalli, ekki með þrætum eða öfund. Íklæðist heldur Drottni Jesú Kristi og leggið ekki þann hug á jarðnesk efni að það veki girndir.

Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið sendi Jesús tvo lærisveina og sagði við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér. Ef einhver hefur orð um, þá svarið: Drottinn[ þarf þeirra við, og mun hann jafnskjótt senda þau.“
Þetta varð svo að rættist það sem spámaðurinn sagði fyrir um:
Segið dótturinni Síon:
Konungur þinn kemur til þín,
hógvær er hann og ríður asna,
fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gerðu sem Jesús hafði boðið þeim, komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín en Jesús steig á bak. Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn en aðrir hjuggu greinar af trjánum og lögðu á veginn. Og múgur sá sem á undan fór og eftir fylgdi hrópaði: „Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!“
Þegar Jesús kom inn í Jerúsalem varð öll borgin í uppnámi og menn spurðu: „Hver er hann?“
Fólkið svaraði: „Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu.“