Fréttir hafa borist af því að árið 2060 muni hitastig á jörðinni hafa hækkað um 5 gráður og það muni hafa í för með sér miklar breytingar á lífskjörum og afkomu manna, dýra og jarðarinnar sjálfrar. Jöklar bráðna, höf hækka og lönd hverfa, þurrkatímabil verða afdrifarík, flóð mundu færa heilu álfurnar undir vatn og uppskerubrestur mun breyta lífsafkomu hundraða milljóna manna.
Áður höfðu menn ákveðið með sér aðgerðir til að hamla gegndarlausri mengum og sóun náttúrunnar með það í huga að sporna við þeirri þróun er orðið hefur í ofhitnun jarðarinnar.  

Í sálmi dagsins er þeirri spurningu varpað fram hvað við eigum að gjalda Drottni, fyrir allar velgjörðir hans? Jesús var svikinn á skírdags-nótt og hann bauð okkur að minnast sín um alla tíð með því að endurtaka á táknrænan hátt þessa síðustu kvöldmáltíð sem hann átti í lífi sínu hér á Jörð. Hann bauð að við skyldum hver og einn prófa okkur áður en við etum af brauðinu og drekkum af bikarnum. Jesús Kristur er brauð lífsins hann hefur gefið okkur líf með því að gefa líf sitt því hann vill að við séum hjá sér að eilífu.
Drottinn skapaði jörðina sem hefur verið kölluð móðir jörð, Drottinn skapaði okkur sömuleiðis og gaf okkur auk annars það hlutverk að gæta sköpunarinnar. Hann gaf okkur jafnframt þennan veg til lífs er hann gefur með náð sinni fyrir trú.
Við viljum njóta þess sem boðið er upp á, það er stundum sagt að það sé í mannlegu eðli að taka of mikið, að fyllast græðgi og kunna sér ekki mörk. En það er líka í mannlegu eðli að sýna kærleika og elsku. Ef við göngum til kvöldmáltíðar með Jesú Kristi og vitum að hverju við göngum þá þiggjum við það sem hann býður okkur. Bikar blessunar og brauð lífsins. Þetta eru mikil loforð frá skaparanum.
Sá lífsvegur sem við mennirnir höfum fengið frá skapara okkar, vegurinn sem á endanum getur leitt okkur til eilífs lífs í skjóli náðar þess sem fer ekki fram á neitt í staðinn nema trú á hann sem ekkert er um megn, á hann sem gefur svo mikið. Við bjóðum Jesú Kristi í líf okkar á sama hátt og hann býður okkur til lífsgöngunnar sem við förum, eftir veginum sem okkur er gefinn.
Getur verið að það sé í eðli okkar mannanna að villast af leið, getur verið að það snerti okkur ekki sem hér erum stödd, að börn okkar og og barnabörn þurfi að lifa vá sem er fyrirbúin af okkur vegna fyrirhyggjuleysis og vegna þess að við prófum okkur ekki áður en við neytum þeirra gjafa er okkur eru færðar. Græðgi mannanna og kappkostun við að safna meiri auðæfum en nokkur þarf á að halda er stærsta ástæða þess hversu komið er fyrir óumræðilega fallegu og gjöfulu jörðinni okkar.
Fyrsti áratugur þessarar aldar hefur verið kallaður áratugur markaðshyggjunnar. Markaðsöflin voru nánast ráðandi sem trúarbrögð. Þau eru það enn. Afkoma stórvelda og hernaðarbrölt er það sem öllu skiptir, fátt kemst annað að en það að eignast meira, afleiðingar þess eða áhrif á líf annarra virðist ekki skipta nokkru máli. Flest okkar göngum illa um en fæst okkar gerum það vegna gróðasjónarmiða. Jesús bauð okkur líf til eilífðar og við berum ábyrgð í samræmi við það. Jesús útskýrði fyrir lærisveinunum hvað hann hafði gert fyrir þá, hann sagði þeim að hann sjálfur, herra þeirra og meistari, Drottinn, eins og þeir kölluðu hann hefði þvegið þeim um fæturna og þannig gefið þeim fordæmi til þess hvernig þeir sjálfir ættu að breyta í lífinu.
Erum við tilbúin til að standa upp og ganga þann veg að börnin okkar og barnabörn geti fetað lífsveginn á heilbrigðri gefandi jörð. Eða viljum við ganga veg glötunarinnar sem ekkert felur í sér nema eyðileggingu og hryllileg örlög, eins og vegurinn sem Júdas Ískaríot gekk, hafði í för með sér.
Drottinn gefi að við veljum fyrri kostinn og gerum það sem þarf að gera. Líðum það ekki að jörðin okkar fallega þurfi að ganga fyrir atbeina græðgi og markaðsafla þjáningarfulla píslargöngu sem ekkert mun gefa af sér nema eyðileggingu og dauða. Boðum fögnuð, boðum þann boðskap Drottins er felur það í sér að við öxlum ábyrgðina sem felst í frelsinu rétt eins og Jesús gerði þegar hann steig af fúsum og frjálsum vilja inn á veg dauðans og gaf líf sitt til að við mennirnir gætum öðlast eilíft líf.

Í pistli dagsins úr fyrra Kórintubréfi kennir Páll okkur það sem Drottinn kenndi honum með því að rita eftirfarandi: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu. Fögnum nú og göngum til heilagrar máltíðar með frelsara vorum. Etum brauð og drekkum af bikarnum í minningu hans og viðhöldum þannig samfélagi kristinna manna. Fögnum hinum nýja sáttmála í gleði með Drottni sem veitir okkur náð og eilíft líf fyrir trúna á hann. Amen.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Drottinn sagði við Móse og Aron í Egyptalandi: „Þessi mánuður er upphafsmánuður hjá ykkur. Hann skal teljast fyrsti mánuður ársins hjá ykkur. Ávarpið allan söfnuð Ísraels og segið: Á tíunda degi þessa mánaðar skal sérhver húsbóndi velja lamb fyrir fjölskyldu sína, eitt lamb fyrir hverja fjölskyldu. Ef einhver fjölskylda er of lítil fyrir heilt lamb skal hún velja lamb með næstu nágrannafjölskyldu sinni. Þið skuluð skipta lambinu eftir fjölda fólksins, eftir því hvað hver etur. Þannig skuluð þið neyta þess: Þið skuluð vera gyrtir um lendar, með skó á fótum og stafi í höndum. Þið skuluð eta það í flýti. Þetta eru páskar [ Drottins. Þessi dagur skal verða ykkur minningardagur. Þið skuluð halda hann sem hátíð fyrir Drottin. Kynslóð eftir kynslóð sé það ævarandi regla að þið haldið þessa hátíð.

Því að ég hef meðtekið frá Drottni það sem ég hef kennt ykkur: Nóttina, sem Drottinn Jesús var svikinn, tók hann brauð, gerði þakkir, braut það og sagði: „Þetta er líkami minn. Gjörið þetta í mína minningu.“ Sömuleiðis tók hann og bikarinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi bikar er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði. Gjörið þetta, svo oft sem þér drekkið, í mína minningu.“ Hvert sinn sem þið etið þetta brauð og drekkið af bikarnum boðið þið dauða Drottins þangað til hann kemur. Hver sem etur brauðið eða drekkur bikar Drottins á óverðugan hátt verður þess vegna sekur við líkama og blóð Drottins. Hver maður prófi sjálfan sig áður en hann etur af brauðinu og drekkur af bikarnum. Því að sá sem etur og drekkur án þess að gera sér grein fyrir að það er líkami Drottins, hann etur og drekkur sér til dómsáfellis.

Og er stundin var komin gekk Jesús til borðs og postularnir með honum. Og hann sagði við þá: „Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður áður en ég líð. Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki.“ Þá tók hann kaleik, gerði þakkir og sagði: „Takið þetta og skiptið með yður. Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins fyrr en Guðs ríki kemur.“ Og hann tók brauð, gerði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: „Þetta er líkami minn sem fyrir yður er gefinn. Gerið þetta í mína minningu.“ Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: „Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði sem fyrir yður er úthellt.