Fróðleiksmolar

Í Gamla testamentinu nær orðið yfir velsæld á öllum sviðum.  Að hljóta blessun merkti að hafa nóg til lífsviðurværis.  Það gat komið fram í fjölda barna, heilum og góðum bústofni, jarðnæði osv.frv.

Fyrirheit – Sálmur 37:1-11

Davíðssálmur.

Ver eigi bráður þeim sem illt vinna,

öfunda eigi þá sem ranglæti fremja

því að þeir fölna skjótt sem grasið,

visna sem grænar jurtir.

Treyst Drottni og ger gott,

þá muntu óhultur búa í landinu.

Njót gleði í Drottni,

þá veitir hann þér það sem hjarta þitt þráir.

Fel Drottni vegu þína og treyst honum,

hann mun vel fyrir sjá.

Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós

og rétt þinn sem hábjartan dag.

Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann,

ver eigi of bráður vegna þess manns sem vel gengur

eða þess sem illu veldur.

Lát af reiði, slepp heiftinni,

ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.

Því að illvirkjum verður tortímt

en þeir sem vona á Drottin fá landið til eignar.

Innan stundar er hinn óguðlegi horfinn,

ef þú leitar hans er hann ekki að finna.

En hinir hógværu fá landið til eignar

og gleðjast yfir miklu gengi.

Í þessum sálmi, sem er visst spekiljóð, eru gefin fyrirheit ef maður fylgir Drottni.  Við sjáum að í 1. og 2. versinu er sagt til um hvað verða mun um þá sem illt gjöra.  Það er eðlilegt að spyrja hvort það sé Guð sem refsi mönnum ef menn gera rangt eða hvort um sé að ræða rökrétta afleiðingu rangrar breytni, þannig að ef maður gerir rangt þá hefur það slæmar afleiðingar í för með sér fyrr eða síðar.  Við sjáum samt víða að það er eins og þeir sem gera rangt hafi það lang best efnislega, s.s. sumir svikarar og  hvítflibbaglæpamenn.  Skoðum þá aftur vers nr. 1 og 2.  Sbr. 5. versið þá mun hann vel fyrir sjá ef við felum honum líf okkar og treystum honum.  Það sem Guð gefur er eitthvað varanlegt.  Það eru ekki endilega efnisleg gæði og fullkomið heilbrigði heldur hjarta sem hefur frið, hjarta sem hugsar fallega og vill engum illt.    Stundum er sagt að ef maður er veikur, fatlaður eða fátækur þá sé það vegna þess að hann trúi ekki nógu mikið.  Slíkt er algjör fásinna og á engan hátt í samræmi við það sem Biblían kennir.  Vissulega gerði Jesús ýmis kraftaverk á þeim sem sjúkir voru og gerir enn, en það var aldrei aðalatriðið.  Aðalatriðið var það að hann fyrirgaf syndir og endurnýjaði samband okkar við Guð.  Auðvitað ber að þakka Guði fyrir líf, heilsu og daglegt brauð því slíkt er ekki sjálfsagt.

Daglegt brauð – Matteusarguðspjall 6:11 og Filippíbréfið 4:12-13

Gef oss í dag vort daglegt brauð. (Matt. 6:11)

Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort.  Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir. (Fil. 4:12-13)

Daglegt brauð er það sem við þurfum til að lifa.  Í því felst ekki munaður eða ríkidæmi.  Kristinn maður þarf að vera nægjusamur.  Það er ekki samhengi milli þess að vera ríkur og trúaður.  Við getum aldrei mælt trú manns með því að sjá bankabókina hans.

Daglegt brauð snýst um heimili, öryggi, fæði, klæði og þar fram eftir götunum.  Í því er fólgin sú blessun sem við þráum öll.

Séra Sigurður Grétar Sigurðsson

 

Að þessu sinni er lag vikunnar Do it again / surrounded ( Fight my battles ), Michael W. Smith. Textinn fjallar um það hvernig Jesús er með okkur ekki síst þegar verst lætur í lífinu. Loforð þitt stendur enn, þú ert trúfastur. Michael W. Smith. https://www.youtube.com/watch?v=lP6jbBjgPr4

Komið til mín og heyrið þetta:
Frá upphafi hef ég aldrei talað í leyndum
og frá því þetta varð hef ég verið hér.
Nú hefur Drottinn Guð sent mig og anda sinn.
Svo segir Drottinn, lausnari þinn,
Hinn heilagi Ísraels:
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sem kenni þér það sem gagnlegt er,
leiði þig þann veg sem þú skalt ganga.
Aðeins ef þú hefðir gefið gaum að boðum mínum
væri hamingja þín sem fljót
og réttlæti þitt eins og öldur hafsins,
niðjar þínir væru sem sandur
og börn þín eins og sandkorn.
Nafn þeirra væri hvorki afmáð
né því eytt fyrir augliti mínu.

Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: „Kom yfir til Makedóníu og hjálpa okkur!“ En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn leituðum við færis að komast til Makedóníu þar sem við skildum að Guð hafði kallað okkur til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.

Nú lögðum við út frá Tróas, sigldum beint til Samóþrake en daginn eftir til Neapólis og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst við nokkra daga.Hvíldardaginn gengum við út fyrir hliðið að á einni en þar hugðum við vera bænastað. Settumst við niður og töluðum við konurnar sem voru þar saman komnar. Kona nokkur úr Þýatíruborg, sem sótti samkundu Gyðinga, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði. Hún var skírð og heimili hennar og hún bað okkur: „Gangið inn í hús mitt og dveljist þar fyrst þið teljið mig trúa á Drottin.“ Þessu fylgdi hún fast fram.

Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: „Hvað viltu?“ eða: „Hvað ertu að tala við hana?“
Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: „Komið og sjáið mann er sagði mér allt sem ég hef gert. Skyldi hann vera Kristur?“ Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar sem vitnaði um það að hann hefði sagt henni allt sem hún hafði gert.Þegar því Samverjarnir komu til hans báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.
Og miklu fleiri tóku trú þegar þeir heyrðu hann sjálfan. Þeir sögðu við konuna: „Það er ekki lengur sakir orða þinna að við trúum því að við höfum sjálfir heyrt hann og vitum að hann er sannarlega frelsari heimsins.“