Í guðspjalli dagsins heyrðum við af því að Jesús læknaði blindan mann. Gaf honum sjón þannig að hann gat séð ljósið og öll þess fallegu litbrigði, hann gat séð fólkið sitt og veröldina með nýjum hætti. Jesús þessi magnaði maður sem hann var gerði kraftaverk eins og þetta, kraftaverk sem umbreytti lífi manns. Lærisveinar Jesú veltu því fyrir sér af hverju maðurinn hafði fæðst blindur, hvort það hefði verið vegna hans eigin synda eða hvort það hefði verið vegna synda foreldra hans. Jesús svaraði þeim og sagði að hann hefði ekki orðið blindur vegna synda sinna eða foreldra hans heldur til þess að Guð gæti gert verk sín opinber á honum.

Jesús eins og ég þekki hann er boðberi kærleikans, miskunnsamur og blíður, hann læknar, líknar og gerir kraftaverk. Jesús velur kærleikann umfram lög og reglur. Jesús gaf blinda manninum sýn en hann gerði meir en það, hann gaf nefnilega okkur hinum nýja sýn á lífið og tilveruna. Hann gaf okkur sýn kærleikans, sjónarhorn sem breytir öllu velji maður það að þiggja gjöf Jesú. Þannig var gjöfin sem hann gaf blinda manninum ætluð okkur öllum. En það er með þessa gjöf eins og allar aðrar við þurfum að velja að taka við henni, opna hana og nýta í lífi okkar.

Með þessari stórkostlegu gjöf opnar Jesú augu okkar fyrir litbrigðum ljóssins sem gera okkur kleyft að sigrast á myrkrinu, gefur okkur tækifæri til að lýsa upp veginn sem við viljum fara og þannig hrífa annað fólk með okkur á braut kærleikans. Það er svo okkar að velja hvort við ætlum að vera áfram blind eða taka á móti gjöf frelsarans og öðlast nýja sýn.

Sr. Fritz Már

Ég lofa þig, Drottinn, því að þú dróst mig upp úr djúpinu
og lést óvini mína ekki hlakka yfir mér.
Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín
og þú læknaðir mig.
Drottinn, þú heimtir sál mína úr helju,
lést mig halda lífi þegar aðrir gengu til grafar.
Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu,
vegsamið hans heilaga nafn.
Andartak stendur reiði hans
en alla ævi náð hans.
Að kveldi gistir oss grátur
en gleðisöngur að morgni.

Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.
Ég gleðst mjög og þakka Drottni fyrir að hagur ykkar hefur loks batnað svo aftur að þið gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þið hugsað til mín en gátuð ekki sýnt það í verki. Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.

Á leið sinni sá Jesús mann sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“
Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“
Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gerði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: „Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.“ (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom aftur sjáandi.
Nágrannar hans og þeir sem höfðu áður séð hann ölmusumann sögðu þá: „Er þetta ekki sá er setið hefur og beðið sér ölmusu?“
Sumir sögðu: „Sá er maðurinn,“ en aðrir sögðu: „Nei, en líkur er hann honum.“
Sjálfur sagði hann: „Ég er sá.“
Þá sögðu þeir við hann: „Hvernig fékkst þú sjónina?“
Hann svaraði: „Maður að nafni Jesús gerði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina þegar ég var búinn að þvo mér.“