Í Guðspjalli dagsins heyrðum við frásögn af manneskju sem fæddist með fötlun, hann var blindur. Ég held að það hljóti að vera erfitt fyrir okkur sem sjáum að setja okkur í spor þeirra sem eru blind. Hugsið ykkur að geta ekki séð þá sem við elskum, að geta ekki horft á allt það fallega sem blasir við okkur alla daga.
Ég á erfitt með að ímynda mér hvernig það er að lifa í myrkri. En kannski er það líka of djúpt í árina tekið, ég kannast við ágætan ungan pilt sem er blindur en hefur ekki látið það stjórna lífi sínu og er afreksmaður á mörgum sviðum lífsins og ekki síðri að neinu leiti en þau sem sjáandi eru. Hann lifir fallegu lífi og hefur sannarlega þróað önnur skilningarvit sín þannig að þau eru miklu öflugri en okkar hinna. Við eigum oft svo erfitt með að setja okkur í spor annarra og höldum að allt sem við þekkjum ekki hljóti að vera vont. En það er eitt sem er þó örugglega verra en líkamleg blinda og það er andleg blinda, að þekkja ekki tilganginn í lífi sínu, að þekkja ekki Guð að vita ekki um lífið eilífa sem Jesús gaf okkur.
Jafnvel þótt við skiljum ekki af hverju fólk fæðist fatlað eða af hverju lítil börn veikjast og þurfa að berjast fyrir lífi sínu eða fást við sársauka og annað sem þau ekki skilja. Þá vitum við að allar manneskjur er dýrmætar í augum Guðs. Sem manneskjur erum við fædd í Guðs mynd og erum því öll fullkomin eins og við erum hvert með sínum hætti, enda gerir Guð ekki mistök í sköpun sinni. Þetta er eitthvað sem við sem trúum, vitum, en samfélagið er ekki endilega á sama máli. Það er stöðugt verið að segja okkur hvernig við eigum að vera, staðalímyndir eru settar upp fyrir okkur alla daga. Og samfélagið flokkar fólk eftir allskyns viðmiðum, húðlit, útliti, kynhneigð, fatasmekk, bílunum sem við keyrum á og svona mætti lengi halda áfram að telja upp.
Það er mikilvægt að muna hversu dýrmæt við erum, hversu mikill fjársjóður er fólginn í einni manneskju. Það virðist stundum vera þannig að samfélagið hafi ekki rými fyrir fatlaða einstaklinga, að það sé ekki rými fyrir fjölbreytileikann. Í Guðspjallinu sem við heyrðum áðan sagði Jesús að maðurinn hefði verið blindur til að verk Guðs gætu opinberast á honum. Þegar við hugsum um þá sem eru veikir eða fatlaðir í samfélaginu okkar þá gefum við frá okkur kærleika, umhyggju og hjartahlýju. Guð getur þannig gefið okkur gott samfélag sem samþykkir alla og er tilbúið til að gefa af sér í kærleika.
Jesús er ljósið sem kom í heiminn til að gefa líf og frelsa. Þegar við trúum á hann og tökum á móti honum sem frelsara okkar opnast andleg augu okkar og við verðum sjáandi. Við fáum að sjá og skilja hver við erum og hver Guð er.
Við biðjum fyrir fólkinu okkar, vinum og fjölskyldum. Við vinnum að því að eignast betra samfélag og betri heim. Guð gaf okkur allt sem við höfum og Guð vill okkur bara það allra besta. Guð vill gefa okkur öllum kraftaverk. Hann vill opna augu okkar þannig að við fáum að sjá.
Séra Fritz Már Jörgensson
Ég lofa þig, Drottinn, því að þú dróst mig upp úr djúpinu
og lést óvini mína ekki hlakka yfir mér.
Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín
og þú læknaðir mig.
Drottinn, þú heimtir sál mína úr helju,
lést mig halda lífi þegar aðrir gengu til grafar.
Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu,
vegsamið hans heilaga nafn.
Andartak stendur reiði hans
en alla ævi náð hans.
Að kveldi gistir oss grátur
en gleðisöngur að morgni.
Að endingu, systkin, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dygð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það. Þið skuluð gera þetta, sem þið hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín. Og Guð friðarins mun vera með ykkur.
Ég gleðst mjög og þakka Drottni fyrir að hagur ykkar hefur loks batnað svo aftur að þið gátuð hugsað til mín. Að sönnu hafið þið hugsað til mín en gátuð ekki sýnt það í verki. Ekki segi ég þetta vegna þess að ég hafi liðið skort því að ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir. Ég er fullreyndur orðinn í öllum hlutum, að vera mettur og hungraður, að hafa allsnægtir og líða skort. Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.
Á leið sinni sá Jesús mann sem var blindur frá fæðingu. Lærisveinar hans spurðu hann: „Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“
Jesús svaraði: „Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum. Okkur ber að vinna verk þess er sendi mig meðan dagur er. Það kemur nótt þegar enginn getur unnið. Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“
Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gerði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans og sagði við hann: „Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam.“ (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom aftur sjáandi.
Nágrannar hans og þeir sem höfðu áður séð hann ölmusumann sögðu þá: „Er þetta ekki sá er setið hefur og beðið sér ölmusu?“
Sumir sögðu: „Sá er maðurinn,“ en aðrir sögðu: „Nei, en líkur er hann honum.“
Sjálfur sagði hann: „Ég er sá.“
Þá sögðu þeir við hann: „Hvernig fékkst þú sjónina?“
Hann svaraði: „Maður að nafni Jesús gerði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina þegar ég var búinn að þvo mér.“