Nú loksins þegar við erum aðeins farin að hittast meira og fleiri þá ákváðum við nokkrar konur allar prestar á breiðu aldursbili að stofna bókaklúbb. Ég var dálítið klók, bauðst til þess að bjóða heim í fyrsta sinn, eldaði mat og fékk þá að velja fyrstu bókina. Var það bók eftir bandaríska guðfræðinginn Marcus Borg heitinn, Heart of Christianity. Við upphaf samverunnar spurðu konurnar : ,,Hvers vegna varð þessi bók fyrir valinu ?” Þegar hún var fyrst lesin var ég búin að vera nokkur ár í prestskap, ekki búin að finna mína eigin rödd og í algerri trúarkreppu hvað réttu og röngu kenninguna varðaði.

Munið þið eftir í Andrésar Andar blöðunum þegar það kveiknaði á perunni hjá öndinni, alveg svona blinggg ! Það var það sem gerðist hjá mér við lestur bókarinnar því ég er oft álíka fattlaus og öndin. Það var eins og ég heyrði aftur kristindóm æskunnar nema nú fullvaxinn.

Þar sem talað var um trú sem tengsl en ekki kenningar sem eru réttar eða rangar, að elska Guð og elska það sem Guð elskar. Trú og hefð sem ávarpar þrá okkar eftir persónulegri lífsfyllingu og því að heimurinn verði betri. Verkefnið sem að mér fannst ég hafa verið send af stað með hljómaði aftur. Sem orða má í einni setningu : Elskaðu Guð eins og Jesú birtir Guðdóminn og hafðu áhrif á heiminn.

Svo það sem ég þurfti var að biðja meira en ég læsi af trúfræði. Einmitt þess vegna er þín trúin mín og trúin þín rétt og snýst ekki um kenningar, strjúktu henni því bara, hvettu hana áfram og nærðu hana svo hún fái að vaxa með þér, með núvitund og fjallaferðum, með kyrrð og bæn, með hverju því sem nærir tengsl þín við það heilaga.

Við gætum séð fyrir okkur að hún líkt og við, vaxi fyrst á lengdina eða eins og sagt er um tákn skírnarkjólsins; að barnið vaxi í trú um leið og það vex að vexti. Svo má hún gjarnan, líkt og við, taka að vaxa á þverveginn, dýpka og verða merkingabærari, eins og lífið hefur allan möguleika á að verða eftir því sem aldurinn færist yfir. Guð geymi þig.

Séra Guðbjörg Jóhannesdóttir

Lofgjörðarlag vikunnar er Hljóður flutt af Hrönn Svansdóttur, Guð er alltaf með okkur hvert sem við förum og verndar okkur alla daga. https://www.youtube.com/watch?v=WZXpiZnQx88

Allar þjóðir, sem þú hefur skapað,
munu koma og falla fram fyrir þér, Drottinn,
og tigna nafn þitt
því að þú ert mikill og gerir undraverk,
þú einn ert Guð.
Vísa mér veg þinn, Drottinn,
að ég gangi í sannleika þínum,
gef mér heilt hjarta, að ég tigni nafn þitt.
Ég vil þakka þér, Drottinn, Guð minn, af öllu hjarta
og tigna nafn þitt að eilífu
því að miskunn þín er mikil við mig,
þú hefur frelsað sál mína frá djúpi heljar.

Þeir koma nú til Betsaídu. Þar færa menn til Jesú blindan mann og biðja að hann snerti hann. Hann tók í hönd hins blinda, leiddi hann út úr þorpinu, skyrpti í augu hans, lagði hendur yfir hann og spurði: „Sérðu nokkuð?“
Hann leit upp og mælti: „Ég sé menn, ég greini þá líkt og tré, þeir ganga.“
Þá lagði Jesús aftur hendur yfir augu hans og nú sá hann skýrt, varð albata og gat greint allt. Jesús sendi hann síðan heim til sín og sagði: „Inn í þorpið máttu ekki fara.“

Sál hélt enn áfram að æða um með líflátshótanir gegn lærisveinum Drottins. Nú fór hann á fund æðsta prestsins og beiddist bréfa af honum til samkundnanna í Damaskus að hann mætti flytja í böndum til Jerúsalem þá er hann kynni að finna og væru þessa vegar,[ hvort heldur karla eða konur. En þegar hann var á ferð sinni kominn í nánd við Damaskus leiftraði skyndilega um hann ljós af himni. Hann féll til jarðar og heyrði rödd segja við sig: „Sál, Sál, hví ofsækir þú mig?“
En hann sagði: „Hver ert þú, Drottinn?“
Þá var svarað: „Ég er Jesús sem þú ofsækir. En statt upp og gakk inn í borgina og þér mun verða sagt hvað þú átt að gera.“ Förunautar hans stóðu orðlausir. Þeir heyrðu að vísu raustina en sáu engan. Sál reis á fætur en þegar hann lauk upp augunum sá hann ekkert. Þeir leiddu hann við hönd sér inn í Damaskus. Þrjá daga var hann sjónlaus og át hvorki né drakk.
Í Damaskus var lærisveinn nokkur sem hét Ananías. Við hann sagði Drottinn í sýn: „Ananías.“
Hann svaraði: „Hér er ég, Drottinn.“ Drottinn sagði við hann: „Far þegar í stræti það sem kallað er Hið beina og í húsi Júdasar skaltu spyrja eftir manni frá Tarsus, er heitir Sál. Hann er að biðja. Og hann hefur í sýn séð mann, Ananías að nafni, koma inn og leggja hendur yfir sig til þess að hann fái aftur sjón.“
Ananías svaraði: „Drottinn, heyrt hef ég marga segja frá manni þessum, hve mikið illt hann hefur gert þínum heilögu í Jerúsalem. Og hér fer hann með vald frá æðstu prestunum að færa í bönd alla þá sem ákalla nafn þitt.“
Drottinn sagði við hann: „Far þú, því að þennan mann hef ég valið mér að verkfæri til þess að bera nafn mitt fram fyrir heiðingja, konunga og börn Ísraels og ég mun sýna honum hversu mikið hann verður að þola vegna nafns míns.“
Þá fór Ananías af stað, gekk inn í húsið og lagði hendur yfir hann og mælti: „Sál, bróðir, Drottinn Jesús hefur sent mig, sá er birtist þér á leið þinni hingað. Þú átt að fá aftur sjón þína og fyllast heilögum anda.“ Jafnskjótt var sem hreistur félli af augum hans, hann fékk aftur sjónina, stóð upp og lét þegar skírast. Síðan neytti hann matar og styrktist.
Sál var nokkra daga hjá lærisveinunum í Damaskus og tók þegar að prédika í samkunduhúsunum að Jesús væri sonur Guðs.