Hef ég verið borinn þannig eins og maðurinn sem við heyrum um í guðspjalli dagsins?

 

Upp í hugann kemur berskuminning þegar ég u.þ.b. 4 ára gamall var á ferð milli Víkur í Mýrdal og Kirkjubæjarklausturs með mömmu og yngri bróður mínum. Þetta sumar var mikill vatnagangur á Mýrdalssandi, enda hafði Katla gamla víst eitthvað látið á sér kræla, þannig að vegasambandið yfir sandinn hafði rofnað. Því þurfti að fara yfir Blautukvísl á vaði. Og þá gerðist það!

 

Rútan öxulbrotnaði í miðri kvíslinni. Það voru því engin ráð önnur, enn að vaða í land. Ég man, að það var stór og mikill maður, sem tók mig á háhest og bar mig upp á bakkann. Og enn minnisstæðari er mér svo ferðin til baka. Þá var keyrt að þeim stað, þar sem byrjað var að byggja nýja brú yfir kvíslina og ég síðan borinn öruggum höndum yfir vatnsflauminn á mjóum plönkum, sem komið hafði verið fyrir á brúarstæðinu. Mér er það ógleymanlegt hvað mig sundlaði og hvað ég varð smeykur þegar ég horfði niður í beljandi strauminn. En ég þurfti ekki að óttast, því ég var borinn heill yfir ánna, að bílnum sem beið okkar hinu megin og flutti okkur heim!

 

Lamaði maðurinn var borinn þannig þennan dag. Hann þurfti ekki að óttast. Hann var í öruggum höndum vina sinna. Hann gat ekki sjálfur, hann var ósjálfbjarga, en fékk hjálp.

 

Það er vissulega gott að eiga slíka vini, þegar við lemstruð eða lömuð getum ekki meira á göngu lífsins. Vini, sem láta sér annt um hag okkar og velferð.

 

Vinir lama mannsins létu ekkert aftra sér, gáfust ekki upp þótt mannþröngin við húsið væri slík, að þeir komust ekki inn, heldur fóru upp á þakið, rufu þekjuna og létu börurnar síga niður þar sem Jesús var. Þeir hættu ekki fyrr en lamaði maðurinn lá við fætur Jesú.

 

Ég spurði áðan: Hef ég verið borinn þannig? Já, sannarlega hef ég verið borinn þannig og fyrir það vil ég þakka. Ég var borinn í land forðum á Mýrdalssandi og enn fyrr var ég borinn þannig til Jesú, ómálga barn. Borinn til hans, eins og lama maðurinn, af ástríkum foreldrum í heilagri skírn. Og síðan hef ég oftsinnis verið borinn og studdur á bænarörmum af kærleika fjölskyldu og vina. Það er vissulega bæði dýrmætt og gott að eiga slíka vini!!

 

Og það sem mest er um vert er að eiga hann að vini, sem öllu getur breytt. Hann vill snerta við lífi okkar, leiða okkur, styðja og bera, á göngu lífsins, er við þurfum á því að halda. Og síðan kallar hann okkur til að hjálpast að við að þjóna hvert öðru, bera hvert annað og reynast þannig verkfæri hans öðrum til blessunar í mannlegri tilveru. Þetta er köllun okkar kristinna manna í þessum heimi.

 

Séra Gísli Jónasson

 

Lofgjörðarlag vikunnar er sálmur 23, Drottinn er minn hirðir sunginn af Þorvaldi Halldórssyni. Þegar ég fer um dimman dal óttast ég ekkert íllt því þú er hjá mér: https://www.youtube.com/watch?feature=youtu.be&v=jW9aH8qlI2k&fbclid=IwAR1Pe94n9sai7dpa78dT0DnREkSrJnRVRXpLdU876usskFovwRvIAQ0RIuM&app=desktop

En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.
Leggið því af lygina og talið sannleika hvert við sinn náunga því að við erum hvert annars limir. Ef þið reiðist þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði ykkar. Gefið djöflinum ekkert færi. Hinn stelvísi hætti að stela en leggi hart að sér og geri það sem gagnlegt er með höndum sínum svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim sem þurfandi er. Látið ekkert fúkyrði líða ykkur af munni heldur það eitt sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gerist, til þess að það verði til góðs þeim sem heyra. Hryggið ekki Guðs heilaga anda sem þið eruð innsigluð með til endurlausnardagsins. Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt ykkur og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljuð hvert við annað, miskunnsöm, fús til að fyrirgefa hvert öðru eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið ykkur.

Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“
Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“
En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“
Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.