Dæmið ekki og þér munuð ekki verða dæmd. sagði Jesús. Dæmið ekki. Fyrirgefið. Gefið, verið kærleiksrík.Í bréfi sínu til Rómverja spurði Páll, af hverju dæmir þú, af hverju lítur þú niður á bróður þinn. Þetta eru góðar spurningar, og líklega væri gott fyrir okkur öll að velta þeim upp reglulega. Það hefur stundum verið sagt að kirkjan og kristnir séu eða hafi verið dæmandi í gegnum tíðina.

Ég trúi því að þetta sé ekki þannig í samtímanum. Auðvitað getur kirkjan og kristnir verið dæmandi, rétt eins og allir aðrir þrátt fyrir fólk leggi sig gjarnan fram um að vera það ekki. Við mannfólkið erum líka alltaf að bera okkur saman við hvert annað. Ég er betri í þessu en… eða ég er ekki jafngóður og … og svo dæmum við. Af hverju dæmir þú, spurði Jesús. Af hverju sérðu flísina í auganu á náunga þínum en ekki bjálkann í þínu eigin auga. Af hverju heldurðu að þú getir fjarlægt flís úr auga bróður þíns ef þú getur ekki séð neitt fyrir bjálkanum sem stendur út úr þínu auga?

Við ættum ekki að dæma, en við gerum það samt. Líklega er það hluti af því að vera manneskja. En við getum breytt okkur, við getum ekki breytt öðrum en við getum breytt okkur sjálfum. Lagað til í eigin ranni. Ákveðið að hætta að dæma okkur sjálf og annað fólk. Ákveðið að koma fram við okkur sjálf og aðra í kærleika og auðmýkt.

Söfnuður kristinna í Róm var á tímabili upptekin af því hvort þau þyrftu að fara eftir forskrift gyðinga um það hvað mætti borða og hvað ekki. Sumir fylgdu þessum gömlu reglum, aðrir ekki. Og auðvitað dæmdu þau hvort annað fyrir vikið. Ekki gera þetta sagði Páll postuli, sum vilja borða allt sem kemur á borðið, önnur vilja bara borða grænmeti og það eiga þau að fá að gera í friði. Það hefur enginn rétt til að dæma aðra menn, á endanum þurfum við að standa okkar reikningsskil og það er bara alveg nóg. Að samþykkja hvert annað eins og við erum er ekki endilega auðvelt. Að aðrir skuli gera eitthvað sem okkur finnst hallærislegt eða fáránlegt gerir það oft að verkum að við bregðumst við. Stundum er það í lagi, við viljum ekki að einhver brjóti á öðru fólki, beiti ofbeldi. Það þarf að stöðva. En það er samt ekki okkar að dæma viðkomandi, samt er svo auðvelt að sjá það sem er athugunarvert í fari annarra en ekki í okkar eigin fari. Flísin og bjálkinn eru þó úr sama efni, eða hvað?

Það getur verið erfitt að dæma ekki en á sama tíma ótrúlega frelsandi, höfum ekki áhyggjur af því hvað öðrum finnst um okkur, leyfum nágrönnum okkar vara að vera eins og þeir eru. Það er ekki okkar að dæma og það er ekki heldur annarra að dæma okkur. Munum að hann sem kom og gaf líf sitt á krossinum til að við gætum lifað, hann sem fyrirgefur og elskar allar manneskjur. Það er hann sem dæmir þegar upp er staðið.

 

Séra Fritz Már Jörgensson

 

 

 

Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: Taktu þér stöðu við hliðið að húsi Drottins, flyttu þar þessa ræðu og segðu: Heyrið orð Drottins, allir Júdamenn, sem gangið inn um þetta hlið til að tilbiðja Drottin. Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Bætið breytni yðar og verk, þá mun ég búa á meðal yðar hér á þessum stað. Treystið ekki lygaræðum þegar sagt er: „Þetta er musteri Drottins, musteri Drottins, musteri Drottins.“

Nei, ef þér gerbreytið háttum yðar og verkum, ef þér sýnið sanngirni í deilum manna á meðal, kúgið ekki aðkomumenn, munaðarleysingja og ekkjur, úthellið ekki saklausu blóði á þessum stað og eltið ekki aðra guði yður til tjóns, þá mun ég búa á meðal yðar á þessum stað, í landinu sem ég gaf feðrum yðar til eignar um aldir alda.

Því að enginn okkar lifir sjálfum sér og enginn deyr sjálfum sér. Ef við lifum, lifum við Drottni, ef við deyjum, deyjum við Drottni. Hvort sem við þess vegna lifum eða deyjum þá erum við Drottins. Því að til þess dó Kristur og varð aftur lifandi að hann skyldi drottna bæði yfir dauðum og lifandi. En þú, hví dæmir þú bróður þinn? Eða þá þú, hví fyrirlítur þú bróður þinn? Öll munum við verða að standa frammi fyrir dómstóli Guðs. Því að ritað er: „Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn, fyrir mér skal hvert kné beygja sig og sérhver tunga vegsama Guð.“
Þannig skal sérhvert okkar gera Guði skil á sjálfu sér. Dæmum því ekki framar hvert annað. Hitt skuluð þið ákveða að verða trúsystkinum ykkar ekki til ásteytingar eða falls.

Verið miskunnsöm eins og faðir yðar er miskunnsamur.

Dæmið ekki og þér munuð eigi verða dæmd. Sakfellið eigi og þér munuð eigi verða sakfelld. Fyrirgefið öðrum og Guð mun fyrirgefa yður. Gefið og yður mun gefið verða. Góður mælir, troðinn, skekinn, fleytifullur mun lagður í skaut yðar. Því með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður aftur mælt verða.“
Þá sagði Jesús þeim og líkingu: „Hvort fær blindur leitt blindan? Munu ekki báðir falla í gryfju? Ekki er lærisveinn meistaranum fremri en hver sem er fullnuma verður eins og meistari hans. Hví sérð þú flísina í auga bróður þíns en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Hvernig færð þú sagt við bróður þinn: Bróðir, lát mig draga flísina úr auga þér, en sérð ekki bjálkann í þínu auga? Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.