Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi

 

Hver kannast ekki við það að bíða.  Líta í óþreyju á úrið. Ganga um gólf.   Horfa til dyra og hugsa með sér.  Hvenær skyldi koma að því?   Stór hluti einnar mannsævi fer í þessa bið og væntingar sem henni tengjast.   Vonin og væntingarnar er það sem heldur okkur við efnið, fær okkur til að halda áfram lífsgöngunni í von um að eitthvað betra sé í vændum.   Nú vonum við að alheimsfaraldurinn Covid 19 megi senn ganga yfir. Við vonum að hann taki ekki fleiri líf. Að lækning finnist að við og ástvinir okkar verðum óhult. Vonin er góð.  Það er svo mikil bjartsýni fólgin í því að vona.

 

Pálmasunnudagur er öðru fremur dagur vonar.  Þetta er einn minningardaganna er við hugum að sérstökum atburðum úr ævi Jesú Krists.     Á þessum degi  fyrir margt löngu náðu vinsældir hans hámarki  meðan hann lifði sem maður.  Honum var fagnað af mannfjöldanum. Hann var hylltur sem konungur og hetja af íbúum Jerúsalemborgar.   Í guðspjöllunum lesum við um ævi Jesú og þar kemur fram að hann ferðaðist víða og er oftast vel tekið. Fólk hlýddi á boðskap hans af athygli og kraftaverk hans vöktu undrun og lotningu en á stundum lenti hann í andstöðu við fólkið vegna hins rótttæka kærleiksboðskapar sem bauð ekki upp á málamiðlanir.   Krafan um elsku gangvart náunganum er án undantekninga. Hann sagði:  „þú skalt elska náungann eins og sjálfan þig“.  Þar var skipun um skilyrðislausan kærleika sem krafðist engra launa eða umbunar.

 

Pálmasunnudagur dregur nafn sitt af fögnuðinum  í Jerúsalem þar sem fólkið veifaði pálmagreinum og lagði þær á jörðina við fætur Jesú.   Hann var þar kominn  til hinnar miklu borgar ríðandi á asna til þess að halda þar páskahátíð ásamt lærisveinum sínum.   Hátíð sem var forn sigurhátíð Ísraelsmanna til að minnast björgunarinnar úr Egiptalandi.  Fólkið trúði því að Jesús væri hinn nýi konungur kominn í sigurgöngu að taka við ríki sínu sem hinn æðsti stjónandi Palestínu.   Vonir og væntingar náðu hámarki í innreið frelsarans. Fólkið bjóst við að uppreisnin væri hafin og  nú skyldu hinir rómversku landsdrottnar reknir burt úr höllum sínum og dýrðartími Gyðinga myndi renna upp sem röðull í austri líkt og á tímum Davíðs konungs.  Sú varð þó ekki raunin. Ríki Jesú var annars eðlis. En það vissu menn ekki þá. Valdastéttin prestar og farísear óttuðust um völd sín og áhrif og leituðust við að fá færi á uppreisnarmanninum sem bauð þeim birginn.

 

Almenningálit er fljótt að breytast það þekkjum við vel og sú var raunin í Jerúsalem.   Fólkið sem áður hafði hyllt Jesú sem konung,  hrópar síðan nokkrum dögum síðar eftir að hann hafði verið handtekinn og var færður í dóm lýðsins, krossfestið hann, krossfestið hann.  Þarna er hverflyndi mannsins rétt lýst. Jesús hafði færst frá því að vera hetja til þess að vera kallaður svikari sem líflátinn skyldi þá um hátíðina.  Þarna birtast andstæðurnar, fögnuður og gleði þessa dags á móti hatri og heift krossfestingardagsins er illmælgi óvina Jesú og rógur var búinn að snúa vinsældum hans gegn honum og sér í hag.   Hann var hæddur og meiddur, framseldur í dauðann og fólkið lét sér vel líka.

 

Ef við förum til samtímans þá sjáum við að gott umtal og jákvætt viðmót hefur mikið að segja. Illt umtal rógur og illmælgi brjóta niður og eyðileggja.   Ef þið skoðið í hug ykkar er ég viss um að finna má í hverjum huga  dæmi þess að illt umtal hafi eitrað samband í fjölskyldu eða meðal vina eða nágranna.    Það er eðli neikvæðra ummæla um fólk að þau kveikja innst inni með fólki samviskubit. Samviskubit sem leitast er við að réttlæta atburði og verknað með öllum hætti.  Boðskapur dagsins í dag er öðru fremur áminning um hverfulleika lífsins.  Hvernig vináttan og sambandið við annað fólk getur í skyndingu breyst á augabragði og orðið að andstæðu sinni. Öfund og afbrýði sitja um mannshugann öllum stundum og leitast við að læða eiginleikum sínum þar inn til að eitra og spilla ástinni og kærleikanum sem þar skal ríkja.

 

Líf mannsins er stöðug leit að veraldargæðum. Öll tækni og vísindi miða að því að byggja og bæta heiminn til betri skilyrða komandi kynslóðum til handa.   Náttúran er hins vegar með þeim ósköpum  að hún leitast í sífellu við að brjóta á bak aftur  það öryggi  með nýjum hamförum sínum.   Takist að útrýma sjúkdómum spretta upp nýir enn skæðari. Byggi menn upp tæknisamfélag fylgir því mengun sem að lokum mun öllu umturna.   Þannig er lífið aldrei öryggi. Ósköp lítið má út af bera bæði í lífi okkar sjálfra og í lífi þjóðar.  Lífið getur á augnabliki breyst með þeim hætti að það sem við áður höfðum og töldum sjálfsagt verði líkt og óraunverulegur draumur eða fjarlæg glansmynd er aldrei birtist aftur. Við lifum nú þá daga þar sem allt er með öðrum blæ en áður. Þessir dagar kalla fram það besta í mörgum en líka það versta. Það er erfitt að vera í einangrun og geta ekki hitt ástvini. Það er erfitt að lifa í ótta við að deyja eða missa ástvin. Hér hjálpar vonin. Hinn bjartsýni hugur minnir á að „öll él birti upp um síðir“ og að allt muni fara vel. Nú reynir á okkur sem manneskjur. Það reynir á góðan vilja okkar, ábyrgðarkennd og samstöðu. Það reynir líka á trú okkar á góðan Guð.

 

Ökumaður býður þér far í bíl sínum sem þú þiggur með þökkum fegin/n að þurfa ekki að ganga í vondu veðri. Ekkert öryggisbelti er í sætinu þínu en þér er sama, sama þangað til bíllinn fer útaf og þú slasast.   Þá er sökin ekki þín heldur hins greiðasama ökumanns er bauð þér far.   Þú ræður þér lögmann og vilt sækja rétt þinn. Þú vilt fá bætur fyrir  meiðsli  þín í slysinu eða er það gróðavonin eða kannski samviskubit þitt vegna þíns hlutar í óhappinu sem hvetur þig til að beita þér að öllu afli í því að sanna sekt ökumannsins og fá hann dreginn fyrir dóm og ekki aðeins það þú villt eyðileggja mannorð hans með öllum hætti.

 

Maður líttu þér nær!  Leitastu við að takast á við sjálfan þig og þitt líf!   Horfðu í þinn eigin barm og sjáðu þar þína ábyrgð á stöðu mála, axlaðu hana og gerðu það sem þér ber til að bæta fyrir misgjörðir þínar.   Minnstu þess að kærleikurinn á að ríkja yfir nóttinni og deginum og hann er umbuðrarlyndur og langlyndur, reiðist ekki en fyririrgefur og breiðir faðm sinn yfir allt. Þegar við göngumst við ábyrgð erum við betur fær um að elska aðra og sýna kærleika í verki.

 

Hverfulleiki lífsins er algjör og smæð mannsins einstök í hinu mikla alheimssköpunarverki. Þetta sjáum við nú á þessum Covid 19 tímum.  Skylda okkar er að vera meðvituð um þessa hluti og læra að meta og ekki síður að njóta og þakka fyrir það sem við eigum og höfum þegið úr hendi skaparans.  Lífið á að vera okkur gleði og það erum við fyrst og fremst sem höfum valdið til að láta gleðina ríkja.    Hinar ytri aðstæður hafa þar engin úrslitaáhrif.

 

Auður eða fátækt eru fánýti þegar allt kemur til alls því öll erum við jafnrík eða snauð í hverfulum heimi sem við fæðumst nakin til  og hverfum allslaus frá.   Hið eina sem lifir er minning okkar. Megi hún vera björt og fögur. Hin æðsta gæfa er að einhver geti sagt að lokum um okkur hann/hún var góð manneskja.   Verum glaðvær það léttir lífið bæði okkur sjálfum og öðrum. Reynum að halda í gleðina og byggja hvert annað upp í voninni á þessum erfiðu tímum þar sem við bíðum hvað verða vill.   Guð gefi okkur öllum þakklæti fyrir lífið og tilvist okkar en um leið æðruleysi og von til að glíma við hið óvænta sem ætíð leitar færis á okkur.

 

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda svo sem var í upphafi er og verða mun um aldir alda.

 

Séra Arnaldur Bárðarson

Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu
til endimarka jarðar.

Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Post comment