Í 55 Davíðssálmi standa þessi orð

Hlýð, Guð, á bæn mína, fel þig eigi þegar ég sárbæni þig.

Hlusta og svara mér, ég er óró og kveina,

skelfingu lostinn yfir hrópum óvinarins, ásókn hins óguðlega,

því að þeir steypa yfir mig ógæfu og ofsækja mig grimmilega.

Hjartað berst ákaft í brjósti mér, dauðans angist kemur yfir mig.

Ótti og skelfing nísta mig og hryllingur fer um mig alla

svo að ég segi: „Ó, að ég hefði vængi eins og dúfan, þá mundi ég fljúga burt og finna hvíldarstað,

mundi svífa langt burt, vera um kyrrt í eyðimörkinni.

Ég mundi flýta mér að finna hæli fyrir þjótandi vindum og veðri.“

..Glötun er inni í henni -borginni  ofbeldi og svik víkja eigi burt frá torgi hennar

því að það er eigi óvinur sem hæðir mig, það gæti ég þolað,

og eigi hatursmaður minn er hreykir sér yfir mig, fyrir honum gæti ég farið í felur,

heldur þú, jafningi minn, vinur minn og félagi.

Við vorum ástúðarvinir er við gengum í mannþrönginni í hús Guðs.

 

Það eru ekki bara falleg og hugljúf orð í Biblíunni. Sálmarnir gamla testamentisins eru ortir af fólki í ólíkum aðstæðum lífsins og þar birtist allt litróf mannlífs og tilfinninga.  Davíðssálmur 55 er harmsálmur en þar má greina rödd, manneskju sem hefur orðið fyrir ofbeldi, að öllum líkindum nauðgun. Óvinurinn er ekki einhver sem er ókunnugur heldur vinur sem hefur svikið, einhver sem var jafningi og félagi. Þar segir ,,Við vorum ástúðarvinir er við gegnum í mannþröngina í hús Guðs”. Við heyrum sárindin og svikin. Fyrir henni er borgin sem er umkringd borgarmúrum ekki örggur staður og hún vill heldur flýja úr borginni. ,,Ó að ég hefði vængi eins og dúfan, þá myndi ég fljúga burt og finna hvíldarstað, mundi svífa langt í burt vera um kyrrt í eyðimörkinni. Við heyrum sársaukann og reiðina yfir því að fyrrum vinur hafi svikið hana, skemmt vináttu þeirra á milli og talar nú gegn henni. Einhvern veginn finnst mér þetta vera hún allavega. Konan sem treystir því að Guð muni hugga hana og að réttlætið muni á endanum sigra.

Í sálminum finnum við líka von um réttlæti, hún er ekki sterk en hún er þarna. Við sjáum líka að hún vonast eftir hefnd. Þó svo að þarna heyrist rödd manneskju sem vill hefna, er ekki þar með sagt að Biblían sé að boða hefnd, þarna eru tilfinningar sem við þekkjum öll og getum samsamað okkur með.

Tilfinningar sem fólk setti í orð og lagði fram fyrir Guð. Það er kannski ekki að undra að vonin um réttlæti hafi verið veik fyrir konu í Ísrael á fyrstu öld fyrir Krist. Þarna er langur vegur eftir fyrir þolendur kynferðis ofbeldis og ennþá erum við ennþá að feta þann veg sem liggur í átt til þess að þolendum sé trúað og gerendur sæti ábyrgð. Guð hjálpi okkur að feta áfram þann veg. Amen

 

Séra Eva Björk Valdimarsdóttir

Nú skuluð þér lofa Guð alheims,
hann sem hvarvetna gerir máttarverk
og veitir oss vegsemd alla ævi frá fæðingu
og breytir við oss samkvæmt miskunn sinni.
Gefi hann oss gleði í hjarta
og veiti Ísrael frið um vora daga
eins og var fyrir örófi alda.
Megi miskunn hans stöðug vera með oss
og megi hann frelsa oss um vora daga.

Svo bar við á ferð Jesú til Jerúsalem að leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. Og er hann kom inn í þorp nokkurt mættu honum tíu líkþráir menn. Þeir stóðu álengdar, hófu upp raust sína og kölluðu: „Jesús, meistari, miskunna þú oss!“
Jesús sá þá og sagði við þá: „Farið og sýnið yður prestunum.“ Þeir héldu af stað og nú brá svo við að þeir urðu hreinir.
En einn þeirra sneri aftur er hann sá að hann var heill orðinn og lofaði Guð hárri raustu. Hann féll fram að fótum Jesú og þakkaði honum. En hann var Samverji. Jesús sagði: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru hinir níu? Urðu engir til þess að snúa aftur að gefa Guði dýrðina nema þessi útlendingur?“ Síðan mælti Jesús við hann: „Statt upp og far leiðar þinnar. Trú þín hefur bjargað þér.“

En ég segi: Lifið í andanum og þá fullnægið þið alls ekki girnd holdsins. Holdið girnist gegn andanum og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru til þess að þið gerið ekki það sem þið viljið. En ef þið leiðist af andanum þá eruð þið ekki undir lögmáli.
Holdsins verk eru augljós: frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég ykkur fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir sem slíkt gera munu ekki erfa Guðs ríki.
En ávöxtur andans er: kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og sjálfsagi. Gegn slíku er lögmálið ekki. En þeir sem trúa á Krist hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.