Friður sé með ykkur öllum.

Nú styttist senn í vorið sem mun leysa upp klakabönd vetrarins og þar með mun sköpunarverkið hjálpa gróðrinum að ná fótfestu einu sinni enn í fallegri eilífðarhringrás. Eftir umhleypinga undanfarinna vikna og mánaða þar sem veðurkortin hafa meira en minna verið lituð gulum og appelsínugulum viðvörunarlitum er fyrirsjáanlegur sigur ljóssins yfir myrkrinu, sigur lífsins yfir dauðanum. Á sama tíma hafa verið viðsjár í samfélagsmiðlum og í þjóðfélaginu öllu þar sem umræður um umskurn pilta hafa tröllriðið öllum miðlum. Það er áberandi í samfélagsmiðlum hversu umræðan er óvægin og oft á tíðum orðljót og þar með meiðandi, smjörklípuaðferðinni er beitt miskunnarlaust og því miður sjaldgæft að sjá fólk eiga í heilbrigðum og góðum samskiptum um menn og málefni.

Í Galatabréfinu talar postulinn Páll um að ef réttlæting fáist fyrir lögmál hafi Kristur dáið til einskis, ég trúi því ekki að Kristur hafi dáið til einskis. Þvert á móti trúi ég því að kærleiksboðskapur hans eigi erindi sem aldrei fyrr. Að þessi fallegi sterki boðskapur kristninnar þurfi að berast út um allan heim, til allra. Ég trúi því líka að allar þjóðir, öll kyn, mannfólkið allt, sé jafnt frammi fyrir skaparanum og að öll getum við skilið og heyrt kærleiksboðskap frelsarans, einungis ef við viljum það. Gullna reglan segir okkur að við eigum að koma fram við náungann rétt eins og við viljum að náunginn komi fram við okkur. Auðvitað geta allir gengið að altari Krists, gengið inn í dýrðina sem hann býður okkur upp á, þar sem kærleikurinn ríkir í eilífðarríkinu, þar sem heilagur Andi, sem á erindi við okkur öll, nálgast okkur og umfaðmar okkur hvert og eitt.

Veröldin sem við lifum í breytist hratt, fjarlægðir hverfa með tilkomu tækninnar, við tölum flest nokkur tungumál og erum hluti af heimsþorpinu, þrátt fyrir þetta er breyskleiki mannfólks óbreyttur, hann er alltaf eins, við berjumst á banaspjótum, höldum auðæfum okkar út af fyrir okkur og sinnum ekki náunga okkar sem skildi, á sama tíma og börn deyja umvörpum úr hungri og af völdum hryðjuverka og stríða erum við flest upptekin af því hvað á að vera í matinn í kvöld eða hvaða mynd við ætlum að sjá í  bíó. Við hugsum fæst um meðbræður okkar. Hvað veldur?

Náungakærleikurinn ræður því miður allt of sjaldan ríkjum, þess vegna á boðskapur Krists um jafnrétti og kærleika jafn mikið ef ekki stærra  erindi við okkur í samtímanum eins og fyrir tvö þúsund árum síðan. Boðskapur sem þarf að heyrast á nýju torgi alheimsins, á öldum ljósvakanna og netmiðlanna, alls staðar þar sem fólk kemur saman þarf að boða kærleiksboðskapinn.

Sköpunarverkið þjáist, rétt eins og mennirnir þjást, sköpunarverkið talar til okkar í árstíðunum, leggur áherslur sínar með veðri, vindum og hitastigi. Náttúran kallar eftir kærleiksríkum samskiptum, umhverfið kallar eftir hjálp. Nú erum við flest farin að bíða þess að vetri ljúki, að allt vakni til lífsins á ný með grænni fegurð, ilmi sem er engu líkur og fuglasöng sem tekur frammi hvaða mannlegri hljómsveit sem er. Hlustum á það sem Skaparinn færir okkur, hlustum á skilaboð sköpunarverksins og bregðumst við því. Veljum kærleikann og þar með lífið sem Guð hefur gefið okkur nú og til eilífðar.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Jakob varð síðan einn eftir og maður nokkur glímdi við hann uns dagur rann. Þegar honum varð ljóst að hann gæti ekki sigrað Jakob sló hann á mjöðm hans svo að hann gekk úr augnakörlunum er þeir glímdu. „Slepptu mér,“ sagði maðurinn, „því að dagur rennur.“ „Ég sleppi þér ekki nema þú blessir mig,“ svaraði Jakob. „Hvað heitir þú?“ spurði maðurinn. „Jakob,“ svaraði hann. Þá mælti hann: „Ekki skaltu lengur heita Jakob heldur Ísrael því að þú hefur glímt við Guð og menn og unnið sigur.“ Jakob sagði við hann: „Segðu mér nafn þitt.“ Hann svaraði: „Hvers vegna spyrðu mig nafns?“ Og hann blessaði hann þar. Jakob nefndi staðinn Peníel, „því að ég hef,“ sagði hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“

Líði nokkrum illa ykkar á meðal, þá biðji hann. Liggi vel á einhverjum, þá syngi hann lofsöng. Sé einhver sjúkur ykkar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni Drottins og biðja fyrir honum. Trúarbænin mun gera hinn sjúka heilan og Drottinn mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, verða honum fyrirgefnar. Játið því hvert fyrir öðru syndir ykkar og biðjið hvert fyrir öðru til þess að þið verðið heilbrigð. Kröftug bæn réttláts manns megnar mikið.
Elía var maður eins og við. Hann bað þess heitt að ekki skyldi rigna og það rigndi ekki yfir landið í þrjú ár og sex mánuði. Hann bað aftur og himinninn gaf regn og jörðin bar sinn ávöxt.
Bræður mínir og systur, ef einhver meðal ykkar villist frá sannleikanum og einhver snýr honum aftur, þá viti hann að hver sem snýr syndara frá villu vegar hans mun frelsa sálu hans frá dauða og bæta fyrir fjölda synda.

Þaðan hélt Jesús til byggða Týrusar og Sídonar. Þá kom kona nokkur kanversk úr þeim héruðum og kallaði: „Miskunna þú mér, Drottinn, sonur Davíðs! Dóttir mín er mjög kvalin af illum anda.“
En Jesús svaraði henni engu orði. Lærisveinar hans komu þá og báðu hann: „Láttu hana fara, hún eltir okkur með hrópum.“
Jesús mælti: „Ég er ekki sendur nema til týndra sauða af Ísraelsætt.“
Konan kom, laut honum og sagði: „Drottinn, hjálpa þú mér!“
Hann svaraði: „Ekki sæmir að taka brauð barnanna og kasta því fyrir hundana.“
Hún sagði: „Satt er það, Drottinn, þó eta hundarnir mola þá sem falla af borðum húsbænda þeirra.“
Þá mælti Jesús við hana: „Kona, mikil er trú þín. Verði þér sem þú vilt.“ Og dóttir hennar varð heil frá þeirri stundu.