Við lestur guðspjallsins, Lúk. 18. 9-14 vakna upp spurningar: Hvernig get ég verið réttlát eða réttlætt ef ég fyrirlít annað fólk? Eigum við að lítillækka okkur til þess að verða upphafin? Viljum við vera upphafin? Er það þess virði að lítillækka sig? Snýst þessi texti um það?

Þeir töldu sig réttláta en fyrirlitu aðra, fyrirlitning felur í sér að líta niður á fólk, dæma það í stað þess að elska það.

Það hefur lengi verið mín sýn að það sé engum gott að setja sig á stall og með því að flokka fólk séum við að draga okkur sjálf í dilka. Að við séum dæmd eftir eigin mælistiku. Hvort sem við viljum flokka okkur sem betri eða verri en annað fólk eftir kynþætti, kyni, kynhneigð, ríkidæmi eða hreysti setur Jesús fram fullyrðingu um það að hvar sem við drögum línuna þá er Guð hinum megin við hana.

Hvert er hjartalagið og hver er sjálfsmynd þeirra sem þurfa að réttlæta sig og þeirra sem eru meðvituð um eigin synd eða eigin brot.

Jesús setur fram dæmisögu þar sem faríseinn þakkar Guði fyrir að hann er ekki eins og aðrir, ræningjar, ranglátir, hórkarlar og hann dregur fram það góða sem hann telur sig gera, hann fastar 2x í viku og borgar tíund af laununum sínum og vísar þar með í verkaréttlætingu. Að hann réttlætist af verkum sínum. Faríseinn fór ekki heim sáttur við Guð.

Mörg okkar krefja Guð um laun fyrir það að hafa verið auðmjúk, fyrir að hafa farið í gegnum þjáningu, keppt eftir því að helga okkur, fyrir að hafa refsað okkur sjálf eftir að hafa fallið í freistni og jafnvel fyrir það að leita Guðs, iðka bænalíf og vera í þjónustu Guðs ríkisins.

Hér getum við velt fyrir okkur krossfestingu Jesú. Guð opinberaði réttlæti sitt sem byggist ekki á lögmáli. Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Þar er enginn greinarmunur því allt fólk hefur syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir það, án þess að það verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú. Guð bendir á blóð Krists sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt (Róm. 3.21-25).

Í dæmisögu Jesú er líka tollheimtumaður sem fær sig ekki til að líta til himins en bað Guð að vera sér, syndugum manni, líknsamur. Hann er í iðrun, kannski skömm en hann gengst við sér, því sem þarfnast hreinsunar, því sem þarf að gera upp og leitar Guðs með það. Tollheimtumaðurinn fór heim sáttur við Guð.

Textinn fjallar um það að gangast við sér, vera tilbúin að sjá brestina og iðrast. Í stað þess að vera í sjálfsréttlætingu og draga fram það sem við gerum vel og bend á misbresti annarra til að fela það sem dvelur í skugganum. Keppum eftir því að vera sönn og leggja allt okkar í Guðs hendur örugg í elsku hans til okkar.

Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur.

Drottinn sendi nú Natan til Davíðs. Þegar hann kom til hans sagði hann: „Í borg einni bjuggu tveir menn. Annar var ríkur en hinn fátækur. Ríki maðurinn átti fjölda sauða og nauta en sá fátæki átti aðeins eitt lítið gimbrarlamb sem hann hafði keypt. Hann fóðraði það og það dafnaði hjá honum og með börnum hans. Það át af brauði hans, drakk úr krús hans, svaf við brjóst hans og var eins og dóttir hans. Einhverju sinni kom gestur til ríka mannsins. En hann tímdi ekki að taka neinn af sauðum sínum eða nautum til að matreiða handa ferðamanninum sem kominn var til hans. Hann tók því lamb fátæka mannsins og matbjó það handa komumanni.“
Þá reiddist Davíð þessum manni ákaflega og sagði við Natan: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir er sá sem þetta gerði dauðasekur. Hann skal bæta lambið með fjórum lömbum af því að hann sýndi slíkt miskunnarleysi.“
Þá sagði Natan við Davíð: „Þú ert maðurinn. Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Ég smurði þig til konungs yfir Ísrael og ég bjargaði þér úr hendi Sáls. Ég gaf þér fjölskyldu herra þíns og lagði konur herra þíns í faðm þinn. Ég gaf þér Ísrael og Júda og hafi það verið of lítið gef ég þér gjarnan margt fleira. Hvers vegna hefur þú lítilsvirt orð Drottins og gert það sem illt er í augum hans? Þú hjóst Hetítann Úría með sverði. Þú tókst eiginkonu hans þér fyrir konu og felldir hann með sverði Ammóníta. Vegna þess að þú smánaðir mig og tókst þér eiginkonu Hetítans Úría fyrir konu skal sverðið aldrei víkja frá fjölskyldu þinni.
Þá sagði Davíð við Natan: „Ég hef syndgað gegn Drottni.“
Natan svaraði: „Drottinn hefur fyrirgefið þér synd þína. Þú munt ekki deyja. En vegna þess að þú hefur gefið óvinum Drottins tilefni til að smána hann mun sonur þinn, sem fæðist innan skamms, deyja.“
Síðan fór Natan heim til sín.

En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú. Guð bendir á blóð hans sem sáttarfórn þeim sem trúa. Þannig sýnir hann réttlæti sitt. Hann hafði umborið þær syndir sem áður voru drýgðar til þess að birta réttlæti sitt á yfirstandandi tíma, að hann er sjálfur réttlátur og réttlætir þann sem trúir á Jesú.

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.
En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“