“I can hear so much in your sigh”

Það er merkilegt að stórkostleg tónskáld eins og Beethoven og Brian Wilson hafi glímt við heyrnarleysi. Lífið finnur sér leið, það er seigla í fegurðinni.
Brian Wilson hefur skerta heyrn á hægra eyra. Óljóst er hvernig heyrnarleysið hafi komið til, en líklegt er að ofbeldi af hendi föður hans sé um að kenna.
Reynslan markar okkur og hún getur markað heyrn okkar, bókstaflega og á táknrænni hátt.
Hverju við hlustum eftir, hvað það er sem við heyrum.

Sumir heyra höfnun í hverju horni. Aðrir heyra ekki varnarbjöllur hringja.
Sumir heyra ánna streyma á rölti um Elliðaárdal. Sumir heyra í þögninni milli nótna. Sumir heyra aldrei í öðrum, aðrir ekki í sjálfum sér.

„Ég heyri svo margt í andvarpi þínu” sungu the Beach Boys á Pet Sounds.
Þegar við hlustum eftir því sem í andvarpinu er falið erum við að sýna innri veruleika fólks áhuga, viðleitni okkar ber þess merki að við viljum mæta fólki þar sem það er statt. Við leitumst við í veikum mætti að reynast náunga okkar Kristur, vitandi að „mátturinn fullkomnast í veikleika” (2. Kor. 12:9).
Michael Jacobs segir að slík hlustun kalli eftir því að við hlustum eftir bassalínunum í samskiptum okkar, ekki aðeins því auðheyrilegasta.
Titill bókar Jacobs, Swift to Hear, vísar í pistil sunnudagsins sem er úr Jakobsbréfi.

Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði (Jak.1:19)

Auðvelt er að lesa þessar línur og hugsa til þeirra í samhengi við ytri samskipta okkar við annað fólk. En hvað með okkar eigin innri ferli?
Er ég á stundum eftilvill fljótari til þess að tala, reiðast, óttast og dæma inn á við heldur en ég er að hlusta? Að sýna sjálfum mér þá sjálfsögðu virðingu að hlusta og meðtaka þær hreyfingar sem eiga sér stað innra með mér?
Er ég tilbúinn til þess að mæta innri veruleika mínum hverju sinni af ósviknum áhuga og forvitni? Get ég á þann hátt séð sjálfan mig sem eilífa uppgvötvun og því með sömu augum séð annað fólk og Guð?

Slík hlustun felur í sér virðingu fyrir öllum hreyfingum lífsins. Því líf er hreyfing.

Esekíel spámaður talar um lífið og hreyfinguna í lexíu sunnudagsins:

Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi (36:26).

Í versinu birtist von og þrá eftir breyttri stöðu. Hjarta sem meitlað er úr steini, á sér enga hreyfingu, því heyrir manneskjan ekki í því. Hjarta af holdi á sér hreyfingu, það er berskjaldaðra, viðkvæmara gagnvart lífinu heldur en grjótið, því það gefur lífinu færi á sér. Slíkt hjarta hlustar og það heyrir.

Virk hlustun er framkvæmd, hún felur í sér fjölda ósýnilegra hreyfinga.
Sú framkvæmd felur í sér viðurkenningu á því að sköpunin beri mynd Guðs.
Rithöfundurinn C.S. Lewis minnti þannig á hvílíkt ábyrgðarhlutverk það væri að minnast þess að hver manneskja sé sköpuð í mynd Guðs, jafnvel óáhugaverðasta og leiðinlegasta manneskjan sem við mætum ber guðsneista áfram, ljós sem logar, salt jarðar.
Þannig verðskuldar hver manneskja áheyrn okkar, en það kallar á að við jafnframt gætum að og hlustum eftir okkar eigin forsendum og getu.

Slík hlustun tjáir traust til framvindunnar og ferlisins.
Slík hlustun skapar öruggt rými, þar er „anda sannleikans” (sbr. guðspjall sunnudagsins. Jóh.16. 5-15) boðið til samfylgdar. Ekki til þess að þvinga fram lausnir, heldur til að hlusta eftir því andvarpi sem fæðir þær fram.
Þannig verður ráðaleysi okkar á stundum það besta og ábyrgasta ráð sem við getum gefið, sjálfum okkur og öðrum.

Brian Wilson hefur heyrt margt, hann hefur þurft að glíma við geðsjúkdóm sem hefur orðið til þess að hann hefur á stundum heyrt raddir sem virðast hvergi nálægar. Brian Wilson heyrir líka enn í tónlistinni, enn semur hann ný lög. Eiginkona hans, Melinda, hafði eitt sinn orð á því í viðtali að þó Brian virtist lítilfjörlegur og ósköp vanmáttugur utan frá séð, þá mætti ekki vanmeta þann innri styrk sem Brian hefur þurft á að halda til að mæta sínum veikindum. Þeim styrk hefur hún hlustað eftir í þeirra tengslum.
Í viðtali við GQ árið 2011 sagði Brian Wilson að það væri upplifun að íklæðast blómaskyrtu í Hawaii stíl. Ég heyri heilmargt í því.

Hjalti Jón Sverrisson, guðfræðingur.

Hér að neðan eru tvær tengingar inn á lög á youtube sem höfundur leggur til að lesendur hlusti á.

Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar.

Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami. Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs til þess að við skyldum vera frumgróði sköpunar hans.

Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.

[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.