Jesaja 12.4
Og á þeim degi munuð þér segja: Lofið Drottinn, ákallið nafn hans. Gjörið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna, hafið i minnum, að háleitt er nafn hans.
Ráðgátur lífsins eru margar. Flest könnumst við, við málsháttinn „Orð eru til alls vís eða fyrst.“ Ég hef löngum velt fyrir mér merkingu þessa málsháttar sem ég fékk í páskaegginu mínu síðastliðna páska. Það er nokkuð um liðið en ekki komist að haldbærri niðurstöðu. Nema að málshátturinn á uppruna sinn í Biblíunni. Einhverjum kann að þykja það liggja í „augum úti“ eins og meðlimir pönksveitarinnar Purrks Pilnikk öskruðu úr sér um árið á níunda áratug síðustu aldar og málvandafólk þess tíma fóru úr límingu af vandlæti og áhyggjum hvert unga kynslóðin væri eiginlega að fara með íslenska tungu og útúrsnúningi almennt sem væri aldrei viðeigandi nema fyrir vitleysinga.
Sumt er það í heimi hér sem stenst allan útúrsnúning hversu mjög það er pönkast á því og fært í stílinn. Okkur er tamt í dag á tímum samfélagsmiðlunar að fegra tilveruna og færa í stílinn. Sendum frá okkur myndir og textaskilaboð hvað allt sé frábært alltaf í góðra vina hópi því þannig viljum við hafa það og þá mynd viljum við að aðrir hafi af okkur. Blessunarlega er það að yfirleitt er það þannig vonandi hjá okkur flestum að við höfum það ágætt og erum fús að deila því með vinum og vandamönnum og öllum hinum sem við þekkjum ekki, sem guða á glugga lífs okkar. Okkur er annt um hvaða mynd aðrir hafi af okkur, ekki bara fyrirtæki heldur og við sem einstaklingar. Við höfum tæknina yfirleitt í seilingarfjarlægð til að vinna með ímynd okkar útávið. Við erum í stansalausu boði einhvers að skoða og fylgjast með hvar og hvað vinir okkar eða ókunnugir okkur eru að gera – yfirleitt eitthvað skemmtilegt. Í dag er vart hægt að tala um orðspor einhvers heldur miklu fremur myndspor. Hvaða mynd höfum við af hverju öðru og hvaða ramma setjum við utanum þá mynd?
Eitt er það sem margur telur sig vita betur í dag á tímum upplýsingar er það að trúin og trúarbrögð eigi að gera burtræk í mannlegu samfélagi. Það eigi að rífa hana upp með hinum „túnfíflunum.“ Manneskjunni muni vegna betur ef trúin væri ekki að þvælast fyrir upplýstri nútímamanneskjunni sem veit betur en bábiljur fortíðar og samtíðar. Það lætur hátt í þessum röddum sem vaxa upp úr jarðvegi öfga bæði trúar og trúleysis nútímans. Hæðast að henni og því sem liggur til grundvallar spurningunni, því við teljum okkur vita betur. „Orð eru nefnilega til alls vís eða fyrst“ því allt byrjar með því að talað sé um það.
Þessum orðum sögðum er frískandi og ánægulegt að segja frá að danski leikarinn Lars Mikkelsen lét nýverið skírast til kristinnar trúar eða eins og hann sagði sjálfur eftir áralangt innra samtal trúar og efa. Til nánari útskýringar var ríkissjónvarpið með til sýningar fyrir nokkrum mánuðum danskan þátt sem nefnist „Herrens Veje“ eða „Á Guðs vegum“ á okkar ylhýra.
Þættirnir fjalla í sem styðstu málum um trúna og trúna á Guð og meingallaðan prest í Kaupmannahöfn sem téður leikari Lars Mikkelsen leikur svo eftirminnilega að einhverjir elska að hata og aðrir elska. Skemmtilegt er að segja frá því að vinna hans og glíma við persónuna, sem hann leikur, gaf honum kjark til að segja hverjum sem á vill hlýða: „Ég trúi“ frammi fyrir öllum þeim sem kannski hugsa með sér hvað þessi forréttinda leikari sem var tilnefndur til Emmy verðlauna fyrir hlutverk sitt í þáttunum er að blaðra. Hann hafði farið langan veg, kunnulegt stef?
Það er svo auðvelt að geyma trúna uppi í rykföllnu háalofti hugarfylgsna okkar og helst ekki taka þau niður og opinbera sig sem einhvern „vitleysing“ eins og Mikkelsen orðaði svo ágætlega í viðtali. Eða eins og félagarnir í hljómsveitinni Sigur Rós í segja laginu – „Inní mér syngur vitleysingur“ sem endar á þessum orðum:
„Minn besti vinur hverju sem dynur
Illum látum, í faðmi grátum
Ég kyngi tári og anda hári
Þegar að við hittumst
Þegar að við kyssumst
Varirnar brenndu, höldumst í hendur
Ég sé þig vakinn
Ég sé þig nakinn
Inní mér syngur vitleysingur.“
Orð eru til alls vís eða fyrst, stundum leiða þau okkur á veg þess sem við ætlum ekki en fetum samt. Það er megin ráðgáta lífsins.
Þór Hauksson, sóknarprestur í Árbæjarkirkju
2Sjá, Guð er hjálp mín,
ég er öruggur og óttast ekki.
Því að Drottinn er vörn mín og lofsöngur, [
hann kom mér til hjálpar.
Þér munuð með fögnuði vatni ausa [
úr lindum hjálpræðisins.
3Á þeim degi munuð þér segja:
Lofið Drottin, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
Hafið í minnum að háleitt er nafn hans.
4Lofsyngið Drottni því að dásemdarverk hefur hann gert,
þau verða þekkt um alla jörð.
5Fagnið og gleðjist, þér sem búið á Síon,
því að Hinn heilagi Ísraels er mikill á meðal yðar.
7 Á dögum jarðvistar sinnar bar Jesús með sárum andvörpum og tárum bænir fram fyrir þann sem megnaði að frelsa hann frá dauða og hann var bænheyrður sakir trúar sinnar. 8 Þótt hann væri sonur Guðs lærði hann að hlýða með því að þjást. 9 Þegar hann hafði fullnað allt varð hann öllum, sem honum fylgja, sá sem gefur eilíft hjálpræði, 10 af Guði nefndur æðsti prestur að hætti Melkísedeks.
21 Á þeirri stundu læknaði hann marga af sjúkdómum, meinum og illum öndum og gaf mörgum blindum sýn. 22 Og hann svaraði þeim: „Farið og kunngjörið Jóhannesi það sem þið hafið séð og heyrt: Blindir fá sýn, haltir ganga, líkþráir hreinsast[ og daufir heyra, dauðir rísa upp og fátækum er flutt fagnaðarerindi. 23 Og sæll er sá sem hafnar ekki því sem ég geri.“