Á gamlársdag 2019 fyrir rétt um ári var helgistund að venju í Hóladómkirkju.  Þar kvöddum við gamla árið og báðum fyrir hinu nýja.  Ég man hversu árið 2020 lagðist vel í mig.  Mér fannst talan falleg og mér fannst árið lofa góðu.

En hvernig var þá árið ef við lítum til baka?

Árið var engu ári líkt síðan ég gekk í þjónustu kirkjunnar fyrir um 38 árum síðan.

Þetta ár var engu öðru líkt af þeim 64 árum sem ég hef lifað.

Ekkert opið helgihald var í kirkjum landsins frá miðjum mars til maíloka og ekkert opið helgihald var frá október byrjun til ársloka.

En stöðvaði það Guðs orð?  Ekki aldeilis!  Orð Guðs hefur sjálfsagt aldrei áður streymt til eins margra eins og þetta ár með því streymi sem kirkjur landsins hafa staðið fyrir.

Að sjálfsögðu er ekkert ár öðru líkt, en þau falla auðvitað mismikið í gleymskunnar dá eins og allir okkar dagar.

Við munum helst ár stórviðburða eins og fæðingarár barna okkar og barnabarna eða dánarár fjölskyldumeðlima eða vina.

En hvað var sérstakt við árið 2020.  Vart þarf að spyrja að því nú, en eftir nokkur ár eða áratugi gætum við spurt þessarar spurningar og svörin verða sjálfsagt jafnmörg og við erum sem höfum lifað þetta ár og munum eftir því.

Margir munu minnast þessa árs sem ársins sem þau misstu ásvini vegna heimsfaraldurs.  Þeim votta ég samúð mína.

Aðrir munu minnast þessa árs sem árs einangrunar og einmanaleika.

Enn aðrir munu minnast þessa árs þar sem nýr lífsstíll var tekinn upp, minna um ferðalög og veisluhöld – lífið varð rólegra, friðsamara og rólegra.

Það er svolítið sérstakt að guðspjall gamlársdagsins er dæmisaga Jesú um fíkjutréð sem ekki bar ávöxt og eigandi þess vildi að það væri höggvið niður .  Víngarðsmaðurinn sem hlúði að trénu bað eigandann um að það fengi að standa enn eitt ár.  Hann vildi hlú enn betur að því og bera að því áburð.  Hann fékk leyfi eigandans til þess.

Mér hefur alltaf fundist þessi dæmisaga eiga við um jörðina okkar.  Á þessu erfiða ári veirunnar hefur jörðin okkar fengið smágrið um tíma.  Við höfum getað hlúð að henni aðeins betur en undanfarin ár og af því getum við mikið lært.

Brátt gengur árið 2021 í garð og ég er nánast viss um að við lítum öll björtum augum til þess.  Bóluefnið er komið og við verðum fljótlega laus úr viðjum samkomutakmarka og einangrunar.

En gleymum ekki því sem við höfum lært þetta ár.  Íhugum um þessi áramót hvað það var sem gaf okkur gleði í einfaldleika sínum. Ræktum trú okkar á þann sem gaf okkur þetta líf og heldur öllu lífi við á fallegu jörðinni okkar með okkar hjálp.

Komum til kirkju og njótum þess að brátt verður samkomutakmörkunum létt og við getum komið saman á ný.

Guð blessi okkur nýja árið og gefi að jörðin okkar líti bjartari tíma.

 

Sr. Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum í Hjaltadag

 

Lofgjörðarlag vikunnar á þessum síðasta degi ársins 2020 er í flutningi Casting Crowns og heitir Make Room in your heart. Áttu rúm í hjarta þínu fyrir Guð? Sem er dýrmæt áminning í lok eins árs og upphafi annars.  https://www.youtube.com/watch?v=iQHgI6D2nGg&list=RDMMdiQPE7lYNsQ&index=8

Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

Guð hefur sjálfur sagt: „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ Því getum við örugg sagt:
Drottinn er minn hjálpari,
eigi mun ég óttast.
Hvað geta mennirnir gert mér?
Minnist leiðtoga ykkar sem Guðs orð hafa til ykkar talað. Virðið fyrir ykkur hvernig ævi þeirra lauk og líkið eftir trú þeirra.

Verið vel tygjaðir og látið ljós yðar loga og verið líkir þjónum er bíða þess að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra. Sælir eru þeir þjónar sem húsbóndinn finnur vakandi er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun búa sig, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim. Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá. Það skiljið þér að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt ef hann vissi á hvaða stundu þjófurinn kæmi. Verið þér og viðbúnir því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu sem þér ætlið eigi.“