Þegar eitthvað er erfitt hjá okkur er stundum sagt að það séu ekki alltaf jólin. Það er ekki alltaf hátíð og gleði en kannski er það oftar en við höldum. Þegar ég var að basla við að lesa undir próf í skóla var það ekki endilega gaman og þá voru ekki alltaf jól. Ég var ekki mjög góður námsmaður en var þó búinn að átta mig á að það gekk betur ef ég hafði gaman að því sem ég þurfti að gera. Ekki gekk að gera bara það sem var gaman. Það var eitthvað í uppeldinu sem sagði mér það. Ég glímdi nokkuð lengi við þetta og eitt árið sá ég það í stærðfræði, sem var mjög kaflaskipt þann vetur, að ég tók spretti í einni grein stærðfræðinnar og kláraði allt án þess að finna fyrir því en var fastur í annarri og sofnaði næstum yfir dæmunum þar.
Þá reiknaði ég út eina prívat kenningu. Hvernig ætli það gengi að þykjast alltaf hafa gaman af öllu sem ég varð að gera. Ég prófaði að taka fyrirfram ákvörðun um að hafa gaman af því sem ég hafði aldrei kynnst. Stundum píndi ég mig til að búa til þessa jákvæðu fordóma.
Löngu seinna lærði ég að þetta gæti flokkast undir yfirfærslu. Í þessu tilfelli var það jákvæð yfirfærsla. Það eru margir virkir í yfirfærslu og mjög margir eru líka mjög snjallir í jákvæðri eða öfugri yfirfærslu. Stundum höfum við óhagstæðar fyrirmyndir í fari annarra og tekst að gera ekki það sem þau gerðu heldur þvert á móti.

Það eru ekki alltaf jólin en við gætum prófað þessa leið til að hafa gaman að því að þrífa og laga til þótt það kosti heilmikið átak að byrja á því. Oft sjáum við að fólki gengur betur ef það er fyrirfram jákvætt eða í það minnsta tilbúið að skoða allt jákvæðum huga.

Það eru ekki alltaf jólin en samt er lúmsk jólatíð ennþá í áliðnum janúar. Í sögum Biblíunnar, sem valdar hafa verið til að lesa annan sunnudag eftir þrettánda, þegar jólin eiga að vera löngu búin, er Jesú á leið í veislu. Jólin komu til Sakkeusar í sögunni af þessum lágvaxna manni. Jólin komu heldur betur í sögunni af Samúel sem var bara ungur drengur í skóla. Í báðum sögum gerist það óvænta og það sem Drottinn segir gerir nöfn þeirra stór. Í hvorugu tilfellinu varð lífið einfaldara en það er heldur ekki léttvægt að fá köllun.
Við undirbúum jólin með aðventu og getum alveg haldið jólagleði okkar út janúar eða fram að inngangi föstunnar – fram að bolludegi – af því að þessi tími er mótaður af birtingarhátíð Frelsarans. Við skulum skoða það jákvætt enda erum við að líta til framtíðar þegar við byrjum nýtt ár. Og við göngum inní nýja tíma með Jesú af því við heyrum það sem hann segir. Við göngum fram með gleði af því að hann hefur nýtt fyrir stafni núna þegar hann talar til okkar og segist ætla að dvelja hjá okkur. Í dag er ljóst að hann gengur með okkur næsta spölinn og með því yfirfærir hann sigur sinn og gleði eilífs lífs á lífið okkar.

Kristján Björnsson, vígslubiskup.

Sveinninn Samúel gegndi nú þjónustu við Drottin undir handleiðslu Elí. Á þessum tíma var orð Drottins sjaldgæft og sýnir fátíðar. Einhverju sinni bar svo við að Elí lá og svaf þar sem hann var vanur. Hann var hættur að sjá því að augu hans höfðu daprast. Lampi Guðs hafði enn ekki slokknað og Samúel svaf í musteri Drottins þar sem örk Guðs stóð. Þá kallaði Drottinn til Samúels og hann svaraði: „Já, hér er ég.“ Hann hljóp síðan til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, farðu aftur að sofa,“ og Samúel fór að sofa. Drottinn kallaði þá aftur: „Samúel!“ og Samúel reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ En hann svaraði: „Ég kallaði ekki, sonur minn, farðu aftur að sofa.“ En Samúel þekkti Drottin ekki enn þá og orð Drottins hafði ekki enn opinberast honum. Þá kallaði Drottinn til Samúels í þriðja sinn og hann reis upp, gekk til Elí og sagði: „Hér er ég, þú kallaðir á mig.“ Nú skildi Elí að það var Drottinn sem var að kalla til drengsins. Elí sagði því við Samúel: „Farðu að sofa. En kalli hann aftur til þín skaltu svara: Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“ Samúel fór og lagðist fyrir á sínum stað. Þá kom Drottinn, nam staðar andspænis honum og hrópaði eins og í fyrri skiptin: „Samúel, Samúel!“ Samúel svaraði: „Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.“

Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs sem frelsar hvern þann mann sem trúir, Gyðinginn fyrst og aðra síðan. Réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar eins og ritað er: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú.

Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina. En þar var maður er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur. Langaði hann að sjá hver Jesús væri en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum því að hann var lítill vexti. Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá. Og er Jesús kom þar að leit hann upp og sagði við hann: „Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu.“ Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður. Þeir er sáu þetta létu allir illa við og sögðu: „Hann þiggur boð hjá bersyndugum manni.“ En Sakkeus sneri sér til Drottins og sagði við hann: „Drottinn, helming eigna minna gef ég fátækum og hafi ég haft nokkuð af nokkrum gef ég honum ferfalt aftur.“ Jesús sagði þá við hann: „Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu enda ert þú líka niðji Abrahams. Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það.“