Það er gleðiríkur dagur þegar við játumst elskunni. Þegar við svörum spurningu dagsins játandi, elskar þú mig?
Dagana frá páskum til uppstigningardags köllum við gleðidaga í kirkjunni. Við njótum þess með hækkandi sól og sumri að leyfa upprisutíðindunum að móta gleðina, Kristur er upprisinn, Kristur Drottinn er sannarlega upprisinn. Í þeirri gleði er auðvelt að svara spurningunni játandi og leggja þar með líf sitt allt í Guðs hendur. Þegar birta blessunarinnar lýsir frá gröf hins upprisna frelsara kallar það ósjálfrátt fram lofgjörð þá sem ástinni tilheyrir og svo oft er sungið um á björtum sumarkvöldum. Því ástin sem við eigum í hjarta okkar og sem mætir okkur í samskiptum okkar á milli, á sér fyrirmynd í þeirri elsku og þeim mætti sem páskarnir vitna um. 
Að jafnvel hið ómögulega er möguleiki hjá Guði, hann sem skapaði himinn og jörð, lífið allt í margbreytileika sínum, hann gaf því sigur yfir öllu því sem deyðir, brýtur niður og eyðileggur. Hin tóma gröf er sterkasti vitnisburður elskunnar sem heimurinn á.
Hinum þunga steini hafði verið velt frá svo að birtan og vongleðin næði enn á ný með fagnaðartíðindin til okkar.  Gröfin ein og sér, opin og tóm, sækir merkingu sína til krossins á Golgata. Þar sem grimmd og sorg, örvænting og dauði réð ríkjum. En vegna þess að bæði krossinn og gröfin voru auð og tóm á páskadagsmorgun er bikar blessunarinnar barmafullur og gleðin fölskvalaus sem okkur er gefin.
Það er aldei svo að lífið sé aðeins gleðin ein. Líkt og ástíðirnar vitna um ber lífið með sér bæði dag og nótt, sorg og gleði. Eitt verður ekki frá öðru skilið og því eru gleðidagar í birtu páskanna svo dýrmætir. Þeir vitna ekki aðeins um glens og grín heldur um þá sönnu gleði sem við eigum í trú á Jesú Krist, sem dó á krossi, var lagður í gröf og reis á þriðja degi upp frá dauðum. Fyrir hann eigum við sigrandi mátt elskunnar sem færir okkur ósjálfrátt frá einum degi til annars þegar erfiðleikar sækja að og eltir okkur uppi þegar styrkur og þol haldast í hendur.
En það þarf á stundum hugrekki til að gangast við elskunni og þar með lífinu eins og það er. Því með játningunni tökumst við á herðar þá ljúfu skildu að fylgja í fótspor góða hirðisins sem leiðtogar í sigrandi mætti kærleikans. Þar sem við göngum fram fyrir skjöldu þegar sótt er að kærleikanum, bæði í samfélaginu, gagnvart meðbræðrum okkar og systrum og einnig þegar kemur að kærleikanum í okkar eigin hjarta. Þar ber okkur einnig að gæta hans og varðveita, því þar er og uppspretta gleðinnar sem ástinni fylgir.
Spurning dagsins er þannig bæði merkingaþrungin og grundvallandi fyrir það sem er, var og verður. Hin vonglaða birta sem sumarið ber með sér minnir á að eftir dimman vetur vaknar allt til lífs á ný og krefur okkur um svar. Drottinn Guð hefur hins vegar að fyrra bragði svarað spurningunni játandi gagnvart okkur. Gleði okkar er að mega dag hvern endurgjalda þá ástarjátningu, já Drottinn þú veist allt, þú veist að ég elska þig.

Bryndís Malla Elídóttir, prestur Seljasóknar.

Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“