Það er skemmtilegt að ímynda sér veröld sem er full af kærleik, enda gæti veröldin verið nánast fullkomin ef við elskuðum hvert annað eins og okkur er boðið að gera. Jesús Kristur kennir okkur að elska hvort annað og ekki síst að elska okkur sjálf. Það er mikilvægt að byrja á sjálfum sér, setja súrefnisgrímuna fyrst á eigið andlit áður en við reynum að bjarga fleirum. Við nefnilega megum elska okkur sjálf og eigum að gera það, þannig verðum við hæf til að elska aðra.

Í samtímanum höfum við stöðugar áhyggjur af samfélaginu okkar, fátækt, húsnæðisskorti, styrjöldum, það er kjarnorkuógn á Kóreuskaganum, öfgafullir trúarhópar myndast við að leggja undir sig stór landsvæði í austurlöndum og við sem búum á vesturlöndum upplifum ógn hryðjuverka sem virðist ekki þekkja nein landamæri lengur og bitnar fyrst og síðast á saklausum borgurum. Ofbeldið vekur upp ótta og sáir vantrausti á meðal fólks.

Elskið óvini ykkar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja ykkur. Þetta eru stór orð. Margir hugsa væntanlega, eigum við virkilega að biðja fyrir þeim sem eru að koma illa fram við okkur, beita okkur jafnvel ofbeldi. Það er sannarlega gott að biðja fyrir þeim sem ógna okkur, rétt eins og það er gott að biðja fyrir þeim sem við elskum og okkur sjálfum. Ef við elskuðum hvort annað og létum kærleikann ráða ríkjum þyrftum við mannfólkið þyrftum ekki að hafa áhyggjur af átökum, deilum eða styrjöldum, við þyrftum ekki að hafa áhyggjur af því að allir fengju ekki nóg. Ef við leggðum okkur fram við að vera eins og Jesús Kristur þótt ekki væri nema í hinu minnsta þá yrði heimurinn betri staður að búa á.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Þótt ég talaði tungum manna og engla
en hefði ekki kærleika
væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.
Og þótt ég hefði spádómsgáfu
og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking
og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú að færa mætti fjöll úr stað
en hefði ekki kærleika,
væri ég ekki neitt.
Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum
og þótt ég framseldi líkama minn til þess að verða brenndur
en hefði ekki kærleika,
væri ég engu bættari.
Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki.
Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.
Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin,
hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.
Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum.
Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Þér hafið heyrt að sagt var: Þú skalt elska náunga þinn og hata óvin þinn. En ég segi yður: Elskið óvini yðar og biðjið fyrir þeim sem ofsækja yður. Þannig sýnið þér að þér eruð börn föður yðar á himnum er lætur sól sína renna upp yfir vonda sem góða og rigna yfir réttláta sem rangláta. Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það? Gera ekki tollheimtumenn hið sama? Og hvað er það þótt þér heilsið bræðrum yðar og systrum einum? Það gera jafnvel heiðnir menn. Verið því fullkomin eins og faðir yðar himneskur er fullkominn

Nei, sú fasta sem mér líkar
er að leysa fjötra rangsleitninnar,
láta rakna bönd oksins,
gefa frjálsa hina hrjáðu
og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu,
hýsir bágstadda, hælislausa menn
og ef þú sérð klæðlausan mann, að þú klæðir hann
og firrist ekki þann sem er hold þitt og blóð.
Þá brýst ljós þitt fram sem morgunroði
og sár þín gróa skjótt,
réttlæti þitt fer fyrir þér
en dýrð Drottins fylgir eftir.
Þá muntu kalla og Drottinn svara,
biðja um hjálp og hann mun segja: „Hér er ég.“
Ef þú hættir allri undirokun þín á meðal,
hættir hæðnisbendingum og rógi,
réttir hungruðum það sem þig langar sjálfan í
og seður þann sem bágt á,
þá rennur ljós þitt upp í myrkrinu
og niðdimman kringum þig verður sem hábjartur dagur.
Drottinn mun stöðugt leiða þig,
seðja þig í skrælnuðu landi
og styrkja bein þín.
Þú munt líkjast vökvuðum garði,
uppsprettu sem aldrei þrýtur.
Menn þínir munu endurreisa hinar fornu rústir,
þú munt reisa við undirstöður fyrri kynslóða
og þú verður nefndur: múrskarðafyllir,
sá sem reisir byggð úr rústum.