Í dag er 17. sunnudagur eftir þrenningarhátíð.

Ósköp venjulegur sunnudagur í kirkjuárinu. Haustið er komið með sína fegurð og litadýrð. Börnin okkar byrjuð í skólanum og Alþingi komið saman.

Fjárréttum í sveitunum  er um það bil að ljúka.

Allt er eiginlega eins og það á vera.

Við erum minnt á að jólin eru alveg að koma. Piparkökurnar eru rétt ókomnar í verslanir, IKEA setur upp geitina bráðlega, við erum minnt á jólahlaðborðin og jólatónleikana.

Það er svona verið að magna upp spennuna.

Enda er ekki ráð nema í tíma sé tekið. Auðvitað er gott að hugsa tímanlega til jólanna og allrabest að gefa sér stundarkorn til að velta fyrir sér, kannski rifja upp hversvegna við erum að halda jól yfirleitt!

Sjálfsagt er líka að sjá fyrir því að allir fái sitt pláss við veislu- og gnægtarborð samfélagsins okkar. Að við lendum ekki í havaríi og vanræðum eins og hent getur í veislum og Frelsarinn gerði að umtalsefni í samkvæmi hjá ríkum farísea.

Já, er ekki bara allt eins og það á að vera meðal okkar á mesta hagvaxtarskeiði síðari tima, eins og sagt er, bullandi góðæri og jólin alveg að koma.

Stutta svarið við þessari spurningu er reyndar nei. Það er ógnvænleg og hættuleg spenna í samfélaginu. Spenna og hættur sem leggjast aðallega á ungt fólk eins og ill plága sem ómögulegt virðist að stemma stigu við. Við erum að tala um plágu sem einn af helstu vísindamönnum okkar telur að verði hættulegasti sjúkdómur í heiminum innan fárra ára og sá sem erfiðast verða að lækna og stemma stigu við. Þessi sjúkdómur eða sjúkdóma kallar hann einu nafni FÍKN.

Lítum nánar á hvað við er að eiga í okkar eigin nánasta umkverfi samkvæmt nýustu skýrslum.

Landlæknir hefur nú að minnsta kosti 30 lyfjatengd andlát til skoðunar, langflest vegna sterkra morfínskyldra verkjalyfja, svonefndra ópíóíða. Sé sjúkragrunnur Vogs skoðaður, hafa 27 fyrrverandi sjúklingar, allir undir fertugu, dáið á árinu.

Yfirlæknir á Vogi, segir að þó banamein sé ekki þekkt, sé líklegt að fíknin hafi dregið þau til dauða.

Eftir Kára Stefánssyni er þetta haft:

„Ef þú tekur fíknisjúkdóma og berð þá saman við aðra geðsjúkdóma hjá fólki á þessum aldri, þá eru fíknisjúkdómarnir svo miklu miklu algengari og miklu, miklu banvænni.”

Í störfum okkar hér á sjúkrahúsinu verðum við svo sannarlega vör við og finnum rækilega fyrir afleiðingunum af þessari hræðilegu plágu. Þær eru þyngri og sorglegri en tárum taki eða orð fái lýst.

Það er svo hræðilegt að hugsa til þess að það virðist ekkert lát vera á plágunni og hún sækir þvert á móti í sig veðrið.

Þannig lýsir María Einisdóttir, framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala, ástandinu:

Misnotkun lyfja færist sífellt í aukana og bætir því við að þeir sem ánetjast ópíóíða virðast ekki hafa hugmynd um hvað þessi lyf eru ofboðslega hættuleg. 

Að sjálfsögðu hljótum við öll að fagna því innilega þegar stjórnvöld veita aukið fjármagn í baráttuna gegn þessum vágesti.
Eins og farið er að gæti einhverjum fundist að meiri áhersla sé lögð á úrræði sem takast á við afleiðinguna fremur en orsökina.

Í hreinskilni sagt; getum við fallist á það viðhorf að þeir sem verða fórnarlömb  fíknar, hverju nafni svo sem henni er gefin, séu í raun undantekning frá því sem á að vera, afmarkaður hópur sem hafi villst af leið um stundarsakir og þurfi hjálp og leiðbeiningu til að snúa aftur til okkar hinna?

Svarið við þessu liggur reyndar fyrir. Biðlistinn á Vogi telur hundruð manna, karla, kvenna og því miður fjölda ungs fólks jafnvel barna. Þar er ekkert lát á. Félagslega kerfið okkar tekst á við endalausa biðlista, aðstandendur fíkla heyja sína sársaukafullu baráttu alla daga. Við hér á spítalanum finnum sannarlega fyrir síauknu álagi og erfiðum ákvörðunum sem ekki einvörðungu snúa að sjúklingum einum heldur öllum hans nánustu.

Er ekki meira undir?

Eru undantekningarnar frá því sem á að vera, ekki orðnar of algengar? Við þessari spurningu er auðvitað ekki til neitt einfalt svar.

Enginn maður er eyland. Í okkar kristnu trú bætum við því við að öll erum við börn Guðs og öll eigum við náð hans hvert svo sem hlutskiptið er á lífsins braut.
Við teljum líka að grunnur samfélags okkar, löggjöfin, viðhorfin og gildin byggist á kristnum gildum. Kenningum Frelsarans okkar að viðbættri enn eldri speki um hvað sé dyggð og hvað löstur.

Við höfum sennilega mörg oft velt því fyrir okkur hvort „þjóðarsálin“ svokallaða sé trúlaus og hafi þar að auki sagt skilið við þann siðferðilegan boðskap sem við töldum að stæði ævinlega.

Hefur eitthvað annað komið í staðinn?

Eitthvað sem við vitum tæpast hvað er.

En eitt getum við við verið viss um; undantekningarnar, hörmungar fíknarinnar, geta ekki skrifast einvörðungu á reikning og ábyrgð þeirra einstaklinga sem ánetjast og hrasa á vegferð sinni. Í þessu er miklu meira undir.

Í guðspjalli dagsins segir frá frá því þegar Jesús læknar hrjáðan mann. Við minnumst þess hvað eftir honum er haft við annað álíka tækifæri. „Trú þín hefur læknað þig.“ Hann sagði ekki: „ég hef læknað þig.“

Trú okkar sjálfra læknar, hjálpar okkur öllum á vandrataðri leið. Hún skiptir máli og veitir okkur styrk, kennir okkur að velja og hafna. Hún ætti og þarf að búa í „þjóðarsálinni“.

Jesús minnir okkur líka á að Guð skóp alla daga jafngóða. Miskunnsemi og kærleikur eiga sér ekki frídaga. Þolinmæði og  umburðarlyndi ekki heldur.

Að lokum gerir Jesús þessa athugasemd við hvernig gestir skulu raðast við veisluborð þegar vafi leikur á virðingaröðun; hver á sæti við háboðið og hver ekki.

Þessi staða er sem sé ekki alveg ný af nálinni.

Niðurstaða Jesús er þessi… Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“

Þessi orð kallast auðvitað á við frásögnina af því þegar hann þvoði fætur lærisveina sinna og þeim þóti hann lítillækka sig fyrir þeim.

Að sjálfsögðu er hóflegur metnaður hollur okkur; en viðurkenningin fæst ekki með því að upphefja sjálfan sig á kostnað annara eða rífa þá niður. Hún kemur af sjálfu sér þegar að baki hennar er starf, dugnaður og ekki síst lítillæti. Þegar unnið er af kærleika, óeigingirni og auðmýkt fyrir verðug verkefni erum við að starfa í þeim anda sem svo er lýst í kvæði Einars í Heydölum:

Kenndu mér, Jesús, kærleiksverk,
komi til mín þín náðin sterk;
láttu mig læra af þér
auðmýkt þá er af öllum ber
og upphefð ná sem lofaðir hér.

Megi Guð gefa okkur öllum, börnum Guðs, mátt og vilja til kærleiksverka.

Eysteinn Orri Gunnarsson, sjúkrahúsprestur

Hve miklu betra er að afla sér visku en gulls
og ágætara að afla sér skynsemi en silfurs?
Háttur hreinskilinna er að forðast illt,
líf sitt varðveitir sá sem gætir breytni sinnar.
Dramb er falli næst,
hroki veit á hrun.
Betra er að vera hógvær með lítillátum
en deila feng með dramblátum.

Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni ykkur þess vegna um að hegða ykkur svo sem samboðið er þeirri köllun sem þið hafið hlotið. Verið í hvívetna lítillát og hógvær. Verið þolinmóð, langlynd, umberið og elskið hvert annað. Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins. Einn er líkaminn og einn andinn eins og Guð gaf ykkur líka eina von þegar hann kallaði ykkur. Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.

Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar og höfðu menn gætur á honum. Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana: „Er leyfilegt að lækna á hvíldardegi eða ekki?“
Þeir þögðu við. En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara. Og Jesús mælti við þá: „Ef einhver ykkar á asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp þótt hvíldardagur sé?“
Þeir gátu engu svarað þessu.

Jesús gaf því gætur hvernig boðsgestir völdu sér hefðarsætin, tók dæmi og sagði við þá: „Þegar einhver býður þér til brúðkaups, þá set þig ekki í hefðarsæti. Svo getur farið að manni þér fremri að virðingu sé boðið og sá komi er ykkur bauð og segi við þig: Þoka fyrir manni þessum. Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti. Far þú heldur er þér er boðið og set þig í ysta sæti svo að sá sem bauð þér segi við þig þegar hann kemur: Vinur, flyt þig hærra upp! Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum er sitja til borðs með þér. Því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“