Eftir að hafa lesið Guðspjall dagsins kom fyrst upp í huga minn þakklæti og hversu dýrmætt það er okkur mannfólkinu að geta fundið fyrir þakklæti. Þakklætið hefur þá eiginleika að geta dregið verulega úr vanlíðan og jafnvel læknað ýmsa kvilla. Við höfum fyrir svo mikið að þakka og raunverulega skortir aldrei þakkarefnin, jafnvel þó við sjáum það stundum ekki. Þakkarefnin eru alltumlykjandi og mögulega stundum svo hversdagsleg að við tökum ekki eftir þeim. Þakklæti er mikilvægt í mannlegum samskiptum og gefur af sér jákvæðan hug gagnvart því sem vel er gert gangnvart okkur og öðru fólki. Við þurfum bara að segja „takk“, það er allavega góð byrjun. Og svo er gott að þakka fyrir það sem við höfum fengið, með bæn. Það er nærandi og gott að leyfa sér að upplifa, eða réttara sagt, að taka ákvörðun um að finna til þakklætis fyrir það sem við höfum, heppni okkar og góðsemi annarra, og kunna að þakka. Þakklæti beinist oftast að þeim  gjöfum er við fáum í lífinu: trú, kærleika, vináttu, fjölskyldu, atvinnu, samúð, orð, aðstoð, samveru, virðingu og svona mætti endalaust upp telja.

Guðspjall dagsins áminnti mig um þakklætið, hversu dýrmætt það er að geta upplifað þakklæti fyrir það sem við fáum, peningar ættu ekki að skipta öllu máli en þeir eru vissulega nauðsynlegir í samfélaginu. Það er þó víst að peningar geta í það minnsta ekki skapað andleg verðmæti eða gildi. Það hefur stundum verið talað um mátt markaðsaflanna þar sem allt snýst um gróðahyggju, að ná í sem mesta peninga á sem einfaldast hátt á sem stystum tíma. Ef víngarðseigandinn hefði verið haldinn gróðahyggju þá hefðu margir farið svangir í svefn að kvöldi dagsins sem guðspjallið fjallar um.

Það er Guð sem gefur okkur verkin okkar, hann sem elskar okkur og er alltaf með okkur, alla daga, hann sem leiðir okkur og beinir á réttan stað. Í guðspjallinu var sett fram spurning um það hvort réttlátt væri að allir fengju sömu daglaun, einnig þeir sem komu síðastir til vinnu? Hver er það sem ákveður launin? Jú í þessu tilfelli er það vinnunveitandinn sem ákvað að greiða öllum einn denar. Það voru ekki allir sáttir við að þeir síðustu fengju sömu laun og þeir fyrstu og þeir kvörtuðu yfir því. Stundum förum við kvartandi frá vinnunni í víngarði Drottins, frá lífinu sem hann gaf okkur, við veljum þá að hafa glasið hálftómt en ekki hálffullt, við veljum neikvæðni fram yfir jákvæðni og við veljum öfund fram yfir það að samgleðjast með náunganum. Afstaða verkamannanna er mannleg, afstaða okkar er einnig mannleg. En orð Guðs um það að þeir síðustu munu verða fyrstir, segir að það sé allt annað sem skipti máli en peningarnir í mannlegum samskiptum, ég trúi að þessi gildi snúist um heiðarleika, sannleika, að gangast við sér, vera trúr. Kærleikurinn til fólksins okkar.

Auðvitað skipta peningar máli, sumir segja að peningar séu lykill að hamingjunni í nútímasamfélagi, aðrir að þeir geti dregið úr óhamingju fólks og er þá átt við að fólk þurfi að hafa peninga til að komast af, til að hafa möguleika á að sinna grunnþörfum sínum um húsnæði, fæði og klæði og þar með til að geta lifað sæmilegu lífi í samfélagi nútímans. En við ættum líka að hafa í huga hversu mikilvæg andlega næringin er okkur og hversu mikilvægt það er að elska hvort annað, hversu mikilvægt það er að læra að elska sjálfan sig og elska síðan náungann með sama hætti, Kærleikurinn sem Jesús boðar okkur er mikilvægari en allt annað, og hvað var það annað en kærleikur sem víngarðseigandinn sýndi verkamönnunum sem biðu, margir hverjir úrkula vonar um að fá vinnu þann daginn. Kærleikurinn eru hin raunverulegu laun verkamannsins í víngarði Drottins og þakklætið sem við erum meðvituð um nærir andann og hvetur fólk til að gefa af sér til annarra.

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir. Jesús raðar okkur ekki upp samkvæmt mannlegum viðmiðum, við erum öll jöfn í hans huga, við erum öll jafn dýrmæt í augum Drottins sem fórnaði ekki lífi sínu á krossinum heldur gaf það til að við mættum lifa að eilífu í kærleika Drottins.

Sr. Fritz Már Jörgensson

Svo segir Drottinn:
Hinn vitri hrósi sér ekki af visku sinni,
hinn sterki hrósi sér ekki af afli sínu
og hinn ríki hrósi sér ekki af auði sínum.
Nei, sá sem vill hrósa sér hrósi sér af því
að hann sé hygginn og þekki mig.
Því að ég, Drottinn, iðka miskunnsemi,
rétt og réttlæti á jörðinni,
á því hef ég velþóknun, segir Drottinn.
Þú skalt óttast Drottin, Guð þinn. Þú skalt þjóna honum, vera honum trúr og sverja við nafn hans. Hann er þinn lofsöngur og hann er þinn Guð sem hefur unnið fyrir þig öll þessi miklu og ógnvekjandi verk sem þú hefur séð með eigin augum.

Vitið þið ekki að þeir sem keppa á íþróttavelli hlaupa að sönnu allir en einn fær sigurlaunin? Hlaupið þannig að þið fáið sigurlaun. Sérhver sem tekur þátt í kappleikjum leggur hart að sér. Þeir sem keppa gera það til þess að hljóta forgengilegan sigursveig en við óforgengilegan. Þess vegna hleyp ég ekki stefnulaust. Ég berst eins og hnefaleikamaður sem engin vindhögg slær. Ég aga líkama minn og geri hann að þræli mínum til þess að ég, sem hef prédikað fyrir öðrum, skuli ekki reynast óhæfur.

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“