Flest okkar eigum í nánu sambandi við einhverja manneskju, það getur verið maki, góður vinur, systkini osfrv.  Þessi manneskja þekkir okkur vel og við hana. Slíkt samband og eining hefur oftar en ekki byggist upp á lengri tíma í samfylgd í gegnum lífið og það sem það hefur uppá að bjóða. Margir sem þekkjast vel hafa lýst því sem svo að á stundum séu orð jafnvel óþörf, augnatillit eða fas getur verið nóg til að tjá og skilja líðan hvors annars. Í návist slíkrar manneskju erum við örugg og frjáls til að vera eins og við erum hverju sinni bæði á okkar bestu og verstu dögum. Við höfum frelsi til að mistakast og hvatningu til að gera betur. Verðmæti okkar felst í því hver við erum en ekki hvað við gerum fyrir viðkomandi. Slíkt samband er dýrmætt og eftirsóknarvert. Kunningjar er annar og oft mun stærri hópur. Þar er fólk sem við könnumst aðeins við, heilsum á förnum vegi, vitum af,  vitum kannski ýmislegt um án þess þó að þekkja mjög vel. Suma þekkjum við jafnvel aðeins af afspurn.

Jesú Kristur er vinur sem þráir samfélag við þig, samfélag í djúpri nánd og grímulausum samskiptum. Hjá honum er öryggi og alla hjálp að finna, hann gefur framgang, blessun og lýsir veginn sem þér er ætlað að ganga. Í kærleika sínum tók hann á sig alla synd og smán til að rétta þinn hlut og gefa nýja von. Mildi hans, mýkt og fyrirheiti standa þér til boða. Líkt og í þínum mannlegu samböndum muntu kynnast Jesú með því að verja með honum tíma, með því að eiga samverustundir til að hlusta á röddu hans og tjá hjarta þitt í bæn og þakkargjörð. Með tímanum dýpkar það samband og gefur ríkulegan ávöxt þér og öðrum til blessunar.

Mætti Jesú Kristur verða þinn besti vinur en ekki aðeins kunningi.

Dagbjört Eiríksdóttir sálgæsluaðili á Landspítala Háskólasjúkrahúsi

Lofgjörðarlag dagsins kemur frá Hillsong; Who you say I am, hvern segir þú mig vera. https://www.youtube.com/watch?v=lKw6uqtGFfo

Drottinn, hjálpa þú,
Drottinn, gef þú gengi.
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
frá húsi Drottins blessum vér yður.
Drottinn er Guð, hann lætur oss skína ljós,
fylkið yður með laufgreinum
að hornum altarisins.
Þú ert Guð minn, ég þakka þér,
Guð minn, ég vegsama þig.
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.

Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum.Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara[ og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.
Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.