Þessi dagur er helgaður Biblíunni í kirkjum landsins. Af því tilefni kom í huga minn saga sem nefnist: ,,Biblían í veggnum,“ eftir ókunnan höfund:

Atburður þessi gerðist á Ítalíu þegar appelsínutrén stóðu í blóma og vínviðurinn teygði sig upp hlíðar fjallanna. Múrari nokkur var að störfum í útjaðri þorps nokkurs. Hann var að hlaða vegg. Kona ókunnug var þar á ferð. Hún kom að múraranum, heilsaði honum vingjarnlega og þau töluðu saman nokkra stund um heima og geima. Konan tók þá upp ítalska Biblíu og ætlaði að selja múraranum hana. Múrarinn sneri sér þá undan með fyrirlitningu. Hann kærði sig ekkert um þessa bók. Hann hafði enga þörf fyrir að lesa hana. Konan vann að því að dreifa Biblíum og hún lagði nú fast að múraranum að taka við henni. Konan bauðst til að gefa honum bókina til að hann tæki frekar við henni. Hún skrifaði nafn hans fremst í Biblíuna og færði múraranum. Að því loknu kvaddi konan en hún hvatti hann til að lesa í Biblíunni.

En múrarinn var ekki á því. Biblíunni hafði verið þröngvað upp á hann og hann ætlaði að losa sig við hana. Hann fékk góða hugmynd um það hvernig hann gæti losað sig við Biblíuna á augabragði. Hann glotti, svo ánægður var hann með hugdettu sína. Múrarinn losaði nokkra steina úr veggnum sem hann var að hlaða, stakk Biblíunni í vegginn og múraði yfir. Nú var bókin vel geymd, hann var laus við Biblíu sölukonuna og Biblían ætti aldrei eftir að verða lesin. Deginum var bjargað.

Mörg ár liðu Múrarinn var löngu hættur að hugsa um Biblíuna enda búinn að gleyma atburðinum þegar hann múraði Biblíuna inn í vegginn. En dag einn mætti hann Biblíusala, allt öðrum og á nýjum stað. Sá vildi auðvitað selja honum Biblíu. En múrarinn var fljótur að afþakka hana núna. Hann sagðist eitt sinn hafa eignast Biblíu en þar sem henni hefði verið troðið inn á sig hafi hann losað sig við hana þar sem enginn gæti fundið hana; ekki einu sinni sá vondi.

Biblíusalanum brá við þessi orð og dró Biblíu upp úr töskunni sinni. Hann opnaði hana, sýndi múraranum og spurði hvort hann kannaðist nokkuð við nafnið sem þar stóð. Múraranum brá heldur en ekki í brún. Þetta var þá Biblían sem merkt var honum. Hann hrópaði upp yfir sig af undrum og spurði Biblíusalann hvernig hann hefði eignast hana.

Nú varð Biblíusalinn að segja sögu sína:  Fyrir nokkrum árum hafði orðið jarðskjálfti í þorpinu sem múrarinn hafði hlaðið vegginn forðum. Þessi maður gekk þá um og skoðaði verksummerki; athugaði hvaða veggir væru ónýtir og hverjir heilir. Þá heyrði hann allt í einu holhljóð þar sem hann bankaði í einn vegginn. Hann varð forvitinn og hélt að ef til vill hefði hann fundið falinn fjársjóð. Fjársjóðurinn reyndist vera Biblían sem kom í ljós þegar veggurinn var rofinn.

Þetta vakti forvitni mannsins svo að hann tók Biblíuna með sér heim og fór að lesa í henni. Það varð til þess að maðurinn lærði að þekkja Jesú og eignaðist trú á hann. Upp frá því gerðist maðurinn Biblíusali þar sem hann hafði eignast löngun til að breiða út Orð Guðs, Biblíuna. Hann trúði múraranum fyrir því að hann væri búinn að lesa Biblíuna mikið og að hún væri stórkostleg bók.

Forvitni múrarans var vakin. Honum fannst þetta undarlega saga og spurði nú Biblíusalann hvort hann mætti nokkuð eiga Biblíuna, enda merkt honum. Biblíusalinn brosti. Hann gat ekki neitað manninum um Biblíuna sem merkt var honum. Og í hljóði þakkaði Biblíusalinn Guði fyrir handleiðslu hans.

Múrarinn fór heim með Biblíuna sína og fór að lesa í henni. Hann kynntist nú af eigin raun Jesú Kristi. Biblían varð upp frá þessu honum kær því að með því að lesa í Biblíunni fann hann frelsarann, Jesú Krist. Múraranum varð ljóst að það var Guð sjálfur sem kom því til leiðar að Biblían komst aftur í hans hendur. Biblían varð honum meira virði en allt annað sem hann nokkru sinni hafði eignast.

Þessi saga  tengist guðspjalli dagsns traustum böndum en þar segir Jesús dæmisögu af sáðmanninum sem fór út að sá sæði í akur sinn. Hann var ótrúlega örlátur á þetta sæði sem hann hafði safnað saman þegar hann skar síðast upp. Hann gekk um akur sinn og  feykti því með taktföstum hætti út í loftið og það barst með vindinum til jarðar.  Ekki féll allt sæðið í akurinn við þennan gjörning sáðmannsins. Sumt féll á götuna, annað á bera klöppina  í útjaðri akursins. Og enn annað féll meðal þyrna. Ýmsar ástæður ollu því að sæðið náði ekki að bera ávöxt.   Jesús útleggur dæmisöguna fyrir lærisveina sína með því að segja þeim  að sæðið merki orð Guðs sem fellur í misjafnan jarðveg en hann táknar hjörtu mannanna.  Jesús segir lærisveinunum hvað þeir þurfi að hafa til að bera til að taka með réttu við orði Guðs til að það fái borið ávöxt. Þar skiptir sjónin og heyrnin miklu máli. Þ.e.a.s að hafa til að bera andlega sjón gagnvart andlegum sannindum og jafnframt heyrn við þeim. Af sögunni hugljúfu að dæma þá var múrarinn í fyrstu ekki góður hlustandi. Í fyrsta lagi hlustaði hann ekki sem skyldi á  konuna sem vildi gefa honum  Biblíuna og í öðru lagi  sá hann ekki að konunni gekk gott eitt til með því að vilja gefa honum Biblíuna. Það var ekki fyrr en hann fékk bókina aftur í hendur að hann áttaði sig á því að það hefði gerst með yfirskilvitlegum hætti. Þá vaknaði hjá honum löngun til að ljúka upp Biblíunni og fara að lesa hana.  Þannig fór hann að hlusta  eftir Guðs orði og tileinka sér það í lífi og starfi. Eins fékk hann sýn inn í veruleika trúarinnar, þau andlegu sannindi sem skipta okkur svo miklu máli í lífinu þegar upp er staðið.

Dæmisaga Jesú Krists og sagan um ítölsku biblíuna er okkur öllum hvatning til að örvænta ekki þótt illa gangi.   Allir bændur vita að eitthvað af sáðkorni fer til spillis en það hindrar þá samt ekki í að halda áfram að sá því, því að þeir vita að uppskeran er trygg. Hún mun koma þótt hún sé misjöfn milli ára. Konan uppskar seint og um síðir þegar orð Guðs fann sér loks leið inn í hjarta múrarans sem þá var orðinn miðaldra. Af þessu má ráða að Orð Guðs er ekki dautt og líflaust. Það hefur í sér fólginn sprengikraft og finnur sér leið þótt seint sé inn í hjörtu mannanna jafnvel þótt þau virðist oft á tíðum vera gjörð úr steini.

Þegar við virðum sköpunarverk Guðs fyrir okkur þá sjáum við aðeins það sem blasir við augum. Við sjáum t.d. sáðkornið í lófa okkar. Að sönnu hvílir það í lófa okkar í sinni mynd. En við sjáum ekki þær erfða upplýsingar sem það ber innra með sér. Við vitum af reynslunni að ef það fellur í góðan jarðveg muni það sprengja skelina af sér og rótfesta sig og bera síðan með tíð og tíma góðan ávöxt sem við komum til með að njóta.

Sá sem hefur áhuga á því að vera læs á samtíð sína, umhverfi og rætur ætti að lesa Biblíuna og brjóta hana til mergjar eftir föngum og hyggja að ávöxtum hennar í menningu þjóðanna.  Biblían hefur verið ein af uppsprettum menningarinnar í heiminum. Fjölmörg tónskáld eins og Jóhannes Sebastian Bach  hafa orðið fyrir áhrifum frá orðum Biblíunnar.  Myndlistin í heiminum ber því einnig vitni, skáldskapurinn og bókagerðin. Siðferði og samfélagssnið eiga sama uppruna, sem og trúarhugmyndir manna og tilverugrundvöllur hvarvetna þar sem kristnin hefur skotið rótum í aldanna rás.

Mér datt í hug að birta hér mynd af olíu málverki sem ég málaði 2019  í Myndlistarskóla Kópavogs.  Það á að gefa áhorfandanum til kynna að Guð sé okkur skjöldur og verja.   Þegar ég skrifaði þessa hugvekju þá sótti þetta verk á huga minn vegna þess að hringformið á því minnti mig líka á sáðkornið  en í því er fólgið erfðaefni lífskraftsins.

Sr. Sighvatur Karlsson, héraðsprestur    Lúk. 8: 4-15

Leitið Drottins meðan hann er að finna,
ákallið hann meðan hann er nálægur.
Hinn guðlausi láti af breytni sinni
og illmennið af vélráðum sínum
og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum,
til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.
Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir
og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.
Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni
eru mínir vegir hærri yðar vegum
og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.
Eins og regn og snjór fellur af himni
og hverfur ekki þangað aftur
fyrr en það hefur vökvað jörðina,
gert hana frjósama og gróandi,
gefið sáðkorn þeim sem sáir
og brauð þeim er eta,
eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum,
það hverfur ekki aftur til mín við svo búið
heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast
og framkvæmir það sem ég fel því.

En halt þú stöðuglega við það sem þú hefur numið og hefur fest trú á þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það. Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.
Sérhver ritning er innblásin af Guði[ og nytsöm til fræðslu, umvöndunar, leiðréttingar og menntunar í réttlæti til þess að sá sem trúir á Guð sé albúinn og hæfur ger til sérhvers góðs verks.

Jesús sagði þessa dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og húsbónda einn sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn. Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn. Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa. Hann sagði við þá: Farið þið einnig í víngarðinn og ég mun greiða ykkur sanngjörn laun. Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gerði sem fyrr. Og á elleftu stundu fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: Hví hímið þið hér iðjulausir allan daginn? Þeir svara: Enginn hefur ráðið okkur. Hann segir við þá: Farið þið einnig í víngarðinn.

Þegar kvöld var komið sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu. Nú komu þeir sem ráðnir voru á elleftu stundu og fengu hver sinn denar. Þegar þeir fyrstu komu bjuggust þeir við að fá meira en fengu sinn denarinn hver. Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum. Þeir sögðu: Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund og þú gerir þá jafna okkur er höfum borið hita og þunga dagsins.

Hann sagði þá við einn þeirra: Vinur, ekki geri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar? Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér. Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því að ég er góðgjarn?

Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir.“